Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kæri Ólafur

Kæri Ólafur

Kæri Ólafur Ólafsson,

Hér er smá opið bréf til þín.

Þú hefur nefnilega verið mér ofarlega í huga líkt og landsmönnum flestum.

Enn og aftur hefur persóna þín farið sem höggbylgja um samfélagið og ekki beinlínis á jákvæðum forsendum. Enn og aftur er ég aðeins í hringiðu afleiðinga þinna gjörða.

Ég var að vinna í netbankadeild Kaupþings þegar hrunið reið yfir. Ég man alveg að ég hreifst aðeins með þessari manísku hraðvaxtarstemningu sem var þarna í gangi. Mætti reglulega í starfsmannaboð þar sem Sigurður Einarsson hélt innblásnar ræður um hvað þetta væri allt saman frábært og hvað við værum og ætluðum að stækka mikið. Enda var þetta að mörgu leyti frábært. Í netbankanum var nóg að gera og vinnuandinn góður. Það var fínt að finna að hæfileikar mínir nýttust við að skapa eitthvað gagnlegt. Búa til verðmæti í frjóu umhverfi.

Samt sem áður var líka alltaf smá efi um að þetta væri algjörlega frábært. Ég fékk til dæmis hlutabréf í bankanum sem bónus jólin 2007 en seldi fáeinum mánuðum síðar af því ég var ekkert alveg viss um að vöxturinn yrði nógu stöðugur. Betra að leysa bara út strax. Eins og þið eigendur gerðuð reyndar, samhliða því að blekkja aðra hluthafa til að halda sínu fé inni. Ég lét ekki blekkjast af Al-Thani en það gerðu margir. Þeir fóru illa út úr því. Nú hefur þú verið dæmdur fyrir þinn hlut í fléttunni en samt kvartarðu og kveinarðu og heldur fram sakleysi. Heldur þú að það sé þér eitthvað til framdráttar? Er það virkilega leiðin fram á við að þínu mati? Nú spyr ég bara í fyllstu einlægni, þetta eru svokallaðar samviskuspurningar.

Nú sit ég í borgarstjórn þar sem við erum að sýsla með skipulagningu á húsnæðisuppbyggingu og samningsgerð þar sem reynt er að gæta hagsmuna borgarinnar þannig að þeir fari einhvern veginn saman við hagsmuni fjármagnsins. Töldum okkur hafa náð bara nokkuð langt þar en þegar fréttir berast af þínum hluta í málinu er stór hluti almennings bara ekki alveg sammála. Það skil ég reyndar ágætlega, ekki síst þegar svo vill til að þetta gerist um svipað leyti og skýrsla kemur út sem flettir ofan af ótrúlega ósvífinni fléttu þinni við kaupin á Búnaðarbankanum - og þú sýnir hefðbundin viðbrögð afneitunar. Það hefur töluvert gengið á og ég hef persónulega staðið í ströngu á ýmsum vettvangi við að fara yfir málin, svara fyrir og takast á við fólk. Það er allt í lagi, ég þoli það alveg. Þetta fylgir starfinu. Mér verður þó óhjákvæmilega hugsað til þess hvar þú ert eiginlega í þessu öllu saman. Hvað ætlar þú að gera til að sýna fram á að þér gangi gott til í þínum fjárfestingum? Hvernig ætlar þú að sýna að þú hefur eitthvað lært og ætlir að laga og breyta? Hvernig ætlar þú að bæta fyrir það vonda sem þú hefur gert um ævina? Aftur eru þetta samviskuspurningar og ég get alveg sagt þér að þorri almennings hefur mjög takmarkaða trú á því að þér geti gengið gott til í nokkrum einasta hlut. Hvað þá að þú hafir nokkuð lært.

Ég fór sjálfur út í pólitík til að breyta. Til að laga ákveðna hluti. Held að mér hafi tekist það að einhverju leyti en alls ekki öllu. Eins er með allt samfélagið og pólitíkina almennt. Okkur hefur tekist að laga til eftir hrunið að einhverju leyti en alls ekki öllu. Vofur fortíðar voma enn yfir og þú ert ein þeirra. Sennilega sú stærsta og hrikalegasta. Þannig er það bara.

Stígðu fram úr skugganum og tjáðu þig. Prófaðu að vera einlægur svona einu sinni. Ég trúi því að fólk geti breyst og kannski hefur þú alveg breyst. Sýndu það þá. Ef ekki - þá mun ekkert breytast hér á landi í raun og veru.

Þú átt leik Ólafur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu