Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hinn marghöfða þurs Pírata

Hinn marghöfða þurs Pírata

Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.

— Úr grunnstefnu Pírata

Nú er liðlega mánuður liðinn frá því að ákveðin innanbúðarátök Pírata vöktu athygli í fjölmiðlum. Eftir að hafa melt þau og það hvernig leyst var úr þeim finnst mér ein mikilvæg lexía standa eftir.

Hún er sú að við þurfum að passa mjög vel að ástunda það sem við prédikum þó það er ekki alltaf auðvelt eða átakalaust. Freistingarnar til að stytta sér leið eru víða, sem og utanaðkomandi þrýstingur á að við gerum það.

Pistill Reynis Traustasonar þar sem hann gerir upp átökin (og gerir um leið ansi mikið úr þeim) eru gott dæmi um slíkan þrýsting utanaðkomandi aðila sem sennilega er alls ekki vel inni í því hvað nákvæmlega Píratar eru að reyna að gera. 

Staðreyndin er nefnilega sú að áhersluatriði Pírata snúa að mjög miklu leyti að því hvernig hlutirnir eru gerðir. Þannig er eitt markmiðið að breyta stjórnmálamenningunni þannig að hún snúist ekki um að einhverjir leiðtogar hafi vit fyrir fjöldanum heldur að fjöldinn hafi vit fyrir sér sjálfur. Við viljum sumsé draga úr miðstýringu valds og þá þýðir ekkert annað en að byrja á sjálfum sér. Öðruvísi gengur það varla og tilraunir til að innleiða þetta á öðrum sviðum verða fyrirfram dauðadæmdar. Átök innan flokksins um hvort tiltekið fólk sé orðið of valdamikið eða hvort það beiti völdum sínum á réttan hátt eru því í raun viðbúin og eðlileg afleiðing af þeirri viðleitni að vera sífellt vakandi fyrir samþjöppun valds.

Það er mjög krefjandi að fá þetta til að ganga upp en það hefur gengið merkilega vel hingað til. Við erum orðin raunveruleg fjöldahreyfing þar sem ómiðstýrðir hópar sjálfboðaliða vinna saman að alls konar verkefnum. Fundadagatal Pírata er núorðið þéttskipað og engin ein manneskja gæti nokkurn tímann verið algjörlega inni í öllu sem er að gerast. Þarna er stórmerkileg saga sem mér finnst að fjölmiðlar og álitsgjafar mættu gefa aðeins meiri gaum. Reyndar er það líklega almennt vandamál að innra starf flokka vekur ekki mikla athygli út á við heldur er alltaf reynt að smætta þá niður í örfá andlit og talsmenn. Einmitt þess vegna er mjög mikilvægt að vinna markvisst og meðvitað gegn slíkum tilhneigingum. Grunnstefna Pírata er sett niður einmitt til þess að við séum ávallt meðvituð um vítin sem þarf að varast.

Einhvern tímann hefur verið sagt að sannur leiðtogi sé sá sem býr til aðra leiðtoga og það tel ég nærri sanni. Að hafa ekki fáeina leiðtoga þýðir ekki endilega að það séu engir leiðtogar heldur getur það líka þýtt að leiðtogarnir eru margir. Allt eftir því hvernig á það er litið. Völd eins þurfa ekkert að vera á kostnað annars. Engum er hins vegar greiði gerður með því að hafa ákveðið fólk á stalli og telja að öll vandamál leysist með því að hampa því bara nógu mikið. Öll höfum við okkar styrkleika og veikleika og saman vinnum við best. Hispurslaus skoðanaskipti þar sem allir eru velkomnir virka best til að komast að hinu sanna og rétta í málum. Eins og slagorð Pírata segir þá eru upplýsingar forsenda upplýsingar.

Ef fólk trúir því hins vegar virkilega að það gangi í raun ekki upp að Píratar séu opnir fyrir alls konar fólki og alls konar skoðunum, að það þýði að við verðum bara tekin yfir af einhverjum annarlegum öflum, þá er hið sama fólk í raun að viðurkenna að samfélagið í heild sinni sé dauðadæmt að þessu leyti. Að lýðræðileg ferli virki ekki í raun og veru.

Til hvers er þá eiginlega barist?

Gott væri að fá skýrt svar við því, hvernig nákvæmlega það á að ganga upp að Píratar eigi að keyra lýðræðisumbætur í gegn á ólýðræðislegan hátt.

Fyrir mér er það nefnilega argasta rökleysa.

Hið eina rökrétta í mínum huga er að halda áfram því sem hefur skilað Pírötum svona langt, að vinna alltaf eftir grunnstefnunni á öllum sviðum, sama hvað bjátar á.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni