Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ísis í Árnagarði

 Mér hefur orðið hugsað til Ísis að undanförnu, ekki til gyðjunnar Ísisar vel að merkja heldur þarna leiðinlegu öfgamannanna sem vilja stofna kalífaveldi í Austurlöndum nær, en eru helst þekktir fyrir að eyðileggja menningarverðmæti og að eigna sér öll fjöldamorð sem framin eru á Vesturlöndum.

 

Tengingin kann að virðast óvænt en í gær bárust þær fréttir að eitthvert danskt ráðgjafarfyrirtæki, Struense & Co, hefur lagt til að byggingunni utan um Árnasafn í Kaupmannahöfn verði lokað í sparnaðarskyni. Nú hlær Íslendingurinn og slær um sig að nú skuli sko Danirnir skila restinni af handritunum, og lítur hróðugur í kringum sig eftir viðurkenningu á alvörublandinni fyndni sinni.

 

Alltaf skal mála Dani upp sem einhvern fáráð, þetta ágæta fólk sem var Íslendingar allt þar til við slepptum tökunum á þeim 1944. Ég veit ekki betur en að öll aðstaða til varðveislu handritanna sé svo slæm á Íslandi að hinn helmingur íslenska gárungalandsliðsins hafi einmitt talað um að senda ætti okkar handritastafla rakleiðis aftur til Danmerkur. Á meðan Danir íhuga að loka Húsi norrænna fræða, ef svo mætti kalla, eru Íslendingar enn að rýna í húsgrunninn að sínu, og nú er menntamálaráðherrann sem fyrst tók og síðan gaf á leiðinni út og óljósar líkur á nokkrum efndum (mættu fleiri hans illvirki fara sömu leið).

 

Satt best að segja eru Íslendingar litlu betur staddir nú en þegar Árni Magnússon klæddi handritin utan af fólki á átjándu öld. Ennþá hafa Danir alla aðstöðu sem Íslendingar hafa ekki; Árnasafn í Kaupmannahöfn er með glæsilegri háskólastofnunum sem ég hef augum litið. Vandinn á Íslandi er aðstöðuleysi og skammsýni stjórnmálamanna sem hafa meiri áhuga á eigin arfleifð en menningararfinum; merkilegt sem það er að þeir sjá ekki að þetta tvennt hangir saman.

 

Vandinn í Danmörku er að aðstaðan er fyrir hendi, en þar hefur frjálshyggja, óráðsía og ofurtrú á millistjórnendur ýtt öllu háskólastarfi út að bjargbrún, svo leita þarf til fáráðlinga sem skilja ekki muninn á verðmætum og tölum, því þegar kemur að menningu er frjálshyggjan blind og skilningsvana eins og moldvarpa á Bachtónleikum. Svo vill til að fyrirtæki nefndra fáráðlinga er nefnt eftir J. F. Struense sem var afhöfðaður í kjölfar þess að hann tók sér völd sem hann ekki hafði, og það er svo sem viðeigandi nafngift fyrir svona frekjukompaní sem vel mætti skilja milli bols og höfuðs á án þess að missir væri að. Það kynni jafnvel að spara einhverjum pening.

 

Hvernig ætli þeim hjá Hafnarháskóla líði með það að hafa eytt háum fjárhæðum í ráðgjöf apakatta sem svara því svo til að skólinn geti sparað með því að kasta mestu menningarverðmætum landsins á bálköst? Bruninn árið 1728 var þó fyrir slysni, en hér er á ferðinni heimska.

 

Skyldi þá nokkurn undra þótt mér verði hugsað til Ísis, og þeirra hörkulegu viðbragða sem eyðilegging þeirra á menningarverðmætum alltaf vekur? Er ekki einhver hræsni fólgin í því að kveina undan því þegar heimsminjar eru sprengdar í loft upp á meðan við sjálf neitum að hlúa að okkar eigin verðmætum, sem sjálf eru á heimsminjaskrá og tilheyra því í raun heiminum öllum. Handritin eru á vergangi og það virðist öllum standa nokkurn veginn á sama um það nema þeim sem vinna með þau; viljinn til að fá restina af handritunum heim frá Dönum núna snýst miklu meira um gamalgróna fyrirlitningu á Dönum – sem eins gæti verið fyrirlitning á okkur sjálfum – en um virðingu fyrir menningu okkar og sögu.

 

Við eigum svo sem ágæta holu úti á melum sem hægt er að setja handritin ofan í og moka yfir, það er í öllu falli hraðvirkara en að láta lýsnar éta þau hægt og rólega. Og ef Árnasafni verður lokað mætti kannski senda þann hluta handritanna til Ísis til að láta brenna þau fyrir okkur ókeypis, nema eitthvert danskt ráðgjafarfyrirtæki sjái fyrir sér að hægt væri að slá tvær flugur í einu höggi og brenna bara borgina alla og handritin með. Það væri sjálfsagt mikið hagræði í því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu