Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Talaðu helvítis íslensku III

Eru sum ykkar orðin leið á því að fólk (ferðamenn einkum, en einnig útlendingar sem búa á Fróni) skuli ávarpa ykkur á ensku og ganga út frá því að þið talið málið, séuð boðin og búin til að spjalla um daginn og veginn, tilbúin til gefa ábendingar um hvað sé vert að skoða (eins og þið séuð útsendarar einhverrar assvítans ferðaskrifstofu), tjá sig um fótbolta og víkinga og þar fram eftir götunum. Auðvitað allt á ensku?

Ef svo er þá má temja sér þá reglu að ávarpi viðkomandi mann á ensku þá svari maður og kona á íslensku eins lengi og viðkomandi spyr ekki í það minnsta hvort maður tali málið (sú spurning má vera á ensku). Það er lágmarks kurteisi að inna eftir því fyrst er það ekki? 

Þetta mætti ef til vill líta á sem andóf gegn aukinni enskunotkun svo og sýna að maður hefir visst stolt. Íslenska er jú það mál sem talað er á Fróni. Er ekki kominn tími til að senda þau skilaboð að hér sé töluð íslenska, að íslenska sé opinbert mál eyjaskeggja? Og það alveg burtséð frá því hvort ensk tunga sé manni töm eður ei. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni