Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

SA-maðurinn í klettinum

Sé hugurinn leiddur að almennu viðhorfi Íslendinga gagnvart Þjóðverjum eru nokkur atriði sem skjóta iðulega upp kollinum. Þjóðin er oft tengd við hagsýni, Derrick, Lederhosen, sítt að aftan, yfirvaraskegg og bjór. Ennþá fleiri setja þó landið í samhengi við árin 1933-1945. Ár sem flestir sammælast um að hafi verið uppfull af myrkri og mannvonsku. Svo miklu myrkri og mannnvonsku að bækur Stefáns Mána blikkna í samanburðinum. Hvað sem því líður hlýtur að vera hvimleitt fyrir þýðverska að vera æ ofan í æ spyrtir saman við Adolf, SS, kynþáttahyggju og níðingsverk. Mega Íslendingar nokkuð vel við una með þá mynd sem dregin er upp hérlendis bæði meðal almenings sem og í fjölmiðlum. Mynd sem vissulega er klisjukennd svo ekki sé meira sagt. Í sem fæstum, og nokkuð ýktum, orðum er því haldið fram að Íslendingar séu upp til hópa líkt og Björk Guðmundsdóttir. Nú spyr ég mig hvort ekki væri nærri lagi að draga upp mynd af efnishyggju-setnu, bíl-setnu, ál-setnu og fólki með viðlíka skoðanir og hér eru viðraðar? Það er þó ekki svo að hinn almenni Íslendingur aðhyllist meðvitaða kynþáttahyggju. Það er frekar að þröngsýni, heimska og heimóttarlegur hugsunarháttur sé landlægur kvilli. Allavega hjá sumum. -Hugmyndin að yfirskriftinni er fengin frá Kristofi Magnússyni úr skáldsögunni Zuhause þar sem hann lætur aðalpersónu bókarinnar, Lárus, tala um að: „fyrir Íslendingum voru álfar það sem nasistar voru fyrir Þjóðverjum. Með þeim mun að í Þýskalandi fyrirfinnst vart fólk sem heldur því fram að litlar hjarðir af tvíkynja SA-mönnum svífi um í görðum og bjóði aðstoð sína við heimilishaldið. Auk þess fannst ekki nokkrum manni erlendis það krúttlegt ef maður hélt því fram ósýnilegir SS-undirofurstar hindruðu vegaframkvæmdir. Ef maður, sem Íslendingur, var ekki spurður út í álfanna þá var maður spurður út í Björk sem í augum heimsins var auðvitað sjálf álitin álfur.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni