Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Illverjinn

Verður ekki að teljast líklegt að almennt séð sé litið á hjálpsemi sem dyggð og til almennrar eftirbreytni? Fólk er auðvitað misduglegt að leika miskunnsama Samverjann en samt má ganga út frá því að flestar tækju hattinn ofan fyrir þeirri hinni sömu og sýnir af sér góðmennsku. Er ekki jafnvel líklegra en hitt að góðmennskunni yrði færður vitnisburður á samfélagsmiðlunum?

Hvort sem fólk nú leggur trúnað á Biblíuna eður ei má næsta víst halda fram, án skoðunarkönnunar, að bróðurpartur fólks sé á því að gjörðir miskunnsama Samverjans hafi verið til fyrirmyndar. Hallast flestar síður að því að hann hefði betur látið ógert að hjálpa náunga sínum; að hann hefði fyrst átt að greiða fyrir bágstöddum af eigin sauðahúsi. Er það ekki annars?

Er því óhjákvæmilegt að álykta annað en að hlýhug sé ekki fyrir að fara hjá þeirri sem hugsar sem svo að ekki megi hjálpa öðrum fyrr en réttu fólki hefir verið hjálpað. Kannski má kona vera þeirrar skoðunar að fólk með slíkan þankagang sé hreinlega vont. Það er að segja að manneskjur sem setja það fyrir sig að fólki sé hjálpað, fólki í neyð, mikilli neyð séu vondar manneskjur.

Auðvitað er deginum ljósara að illmögulegt er að bjarga öllum heiminum. Við búum ekki svo vel að hafa yfir Mighty Mouse að ráða til að bjarga deginum. En ef slíkt er notað sem fyrirsláttur til þess að hjálpa ekki neinni þá ber slíkt tal barasta mannvonsku vitni. Kannski ber hið svokallaða vonda fólk nafn með rentu og er hreinlega vont og endar í neðra, að því gefnu að fyrir slíku sé að fara, þegar það er satt lífsdaga?

* Söguna um miskunnsama Samverjann er að finna í Lúkaasi 10:29-37 hafi einhver áhuga.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni