Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Sömu mistök í Bretlandi og á Íslandi?

Það er ekki sérlega langt síðan Breski íhaldsflokkurinn virtist vera með gjörunnið spil. Verkamannaflokkurinn var kominn á þá skoðun að Corbyn væri þaulsetinn dragbítur, almenningi virtist þykja hann gamaldags og púkó – og Theresa May boðaði því til leifturkosninga sem tryggja áttu að andstæðingurinn næði ekki vopnum sínum. 

Það fór svo allt út um þúfur.

Að einu leyti voru bresku þingkosningarnar á sinn hátt spegilmynd af kosningunum hér á landi í fyrra. 

Það var ekki Verkamannaflokknum að þakka að Íhaldsmönnum gekk illa. Theresa May gerðist of bráðlát og sigurviss. Hún taldi engar líkur á öðru en stórsigri og taldi því að rétt væri að nýta tækifærið og koma í gegn róttækum og umdeilanlegum – en að hennar og margra annara mati  – þörfum breytingum.

Bretar hafa lengi staðið frammi fyrir lífeyrisvanda. Þjóðin eldist og veiklast. Ríkisstjórnir hafa komið og farið án þess að leggja raunverulegan grunn að lausn vandans. 

Þegar Íhaldsflokkurinn tilkynnti fyrirhugaðar breytingar á öldrunarþjónustu (sem felast áttu í stórfelldri eignaupptöku) fóru vindar að snúast gegn flokknum. Hroðaleg kosningabarátta og léleg frammistaða May innsigluðu síðan þau stórfelldu vandræði sem urðu.

Nánast eins atburðarás átti sér stað hér á landi þegar „Lækjarbrekkustjórnin“ taldi sig þegar komna með sigurinn í hendurnar og ákvað einhliða pólitíska útskúfun Sjálfstæðisflokks og upptöku nýrrar stjórnarskrár. 

Eignaupptaka hjá öldruðum og stjórnarskrárumbætur (með hugsanlegri innköllun auðlinda í þjóðareigu) eru hvorttveggja risastór mál sem erfitt er að koma í gegn um þing. 

Þetta eru einmitt mál sem hafa tilhneigingu til að hanga yfir herðunum á fólki árum og áratugum saman – jafnvel þótt almennt sé viðurkennt að eitthvað verði að gera.

Þess vegna er skiljanlegt að stjórnmálamenn sem telja sig komna í sigurstöðu reyni að höggva á hnútinn og smygla málunum í gegn í krafti veiklunar pólitískra andstæðinga.

Það er hinsvegar hættuleg hertækni eins og dæmin hafa nú sannað.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu