Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Nýr samningur kennara: Fagnaðarefni?

Að vissu leyti er fagnaðarefni að búið sé að semja við kennara. Menn skyldu þó fara varlega í að álykta sem svo að málin séu komin í höfn. Því fer fjarri. Þetta var aðeins spurning um hvort staðan héldi áfram að vera slæm eða hvort hún myndi snarversna.

Hún er ennþá slæm.

Samþykkt kjarasamnings með tæpum meirihluta sannaði það eitt sem ítrekað var bent á í aðdraganda hans: Kennarar ætla ekki í verkföll nema í fullkominni neyð.

Þegar forystan var innt eftir því hvaða aðra kosti kennarar hefðu en að samþykkja samninginn var svarið: Enga. Það var ekkert Plan B. Þvert á móti var kennurum gert ljóst að falli samnings myndi fylgja svo rækileg stjórnarkreppa að byrja þyrfti á öllu upp á nýtt í apríl á næsta ári. Þá þyrfti að hefja viðræður við sveitarfélögin aftur. Þegar niðurstaða fengist í það þyrfti væntanlega að greiða atkvæði um það sem sveitarfélögin kynnu að bjóða – og frekari aðgerða gæti þá verið að vænta einhverntíma næsta haust eða vetur, líklega um það leyti sem sá samningur sem nú lá fyrir væri hvorteðer að renna út. Spurningin var því bara hvort menn vildu taka næsta slag við sveitarfélögin á 11% hærri launum eða ekki.

Það er ekkert skrítið að menn hafi kosið að berjast áfram á hærri launum. Raunar kom það mér nokkuð á óvart hve tæpt þetta stóð á endanum. Ég reiknaði með 60-65% samþykki.

Hefði fólk haft einhverja trú á því að forysta kennara gæti skipulagt aðgerðir eða barist fyrir raunverulegum kjarabótum hefði svona samningur líklega aldrei verið borinn á borð.

Ástæða þess að þessi samningur var samþykktur var hve stuttur hann er. Sveitarfélögin geta samþykkt hann með þeim rökum að hann falli innan Salek-rammans, eða svo gott sem (að vísu byggir það á því að kennarar séu nú búnir að fá sitt næstu árin). Kennarar geta samþykkt með þeim rökum að það hefði tekið áþekkan tíma að semja og útfæra Plan B með nýrri forystu.

Hinn stutti samningstími var ekki forystu kennara að þakka. Hann var grasrótinni að þakka. Hinn almenni félagsmaður steig upp og tók þessa baráttu í eigin hendur. Það var gert án hvatningar eða aðkomu stjórnar félagsins. Það var sú barátta sem hræddi sveitarfélögin nægilega mikið til að þau reyndu að kaupa frið. Það eina sem þau gátu boðið var styttri samningstími. Annað hefði hleypt öllu í uppnám í febrúar.

Nákvæmlega sama staða kemur upp næsta vetur. 

Forysta kennara samdi ekki um neitt, neyddi ekkert fram – hún tók einfaldlega við því sem í boði var. Ástæða þess að það var skárra en hingað til var barátta grasrótarinnar. 

Það er algjörlega augljóst að nú þarf kennaraforystan að stíga til hliðar. Við höfum eitt ár. Núna stendur stéttin klofin í herðar niður. Margir eru reiðir. Þeim finnst sem hér hafi meirihlutinn guggnað. Hér hafi enn einu sinni sannast hvers vegna grunnskólakennarar eru að verða krónísk láglaunastétt. Það megi alltaf treysta á að þeir gefi sig verði slagurinn nógu erfiður.

Ég held að þetta sé ósanngjörn gagnrýni. 

Að mínu mati gat aldrei neitt annað komið út úr núverandi samningum en vopnahlé. Vandamálið er einfaldlega of djúpt til að menn hafi aðstæður eða hæfni til að leysa það í einu áhlaupi. Það hefur samt í raun ekkert lagast. Hvort það gerist ræðst af því hvernig árið framundan er notað.

Það ár á grasrótin að eiga. 

Nú þurfa fylkingarnar að koma saman og taka saman ákvarðanir um framtíð sína. Það þarf að sætta margvísleg sjónarmið. Taka faglega umræðu um grundvallaratriði kennarastarfsins. Setjast að borðum með ýmsum stefnumarkendum og hagsmunaaðilum. Finna leið.

Grasrótin þarf að ákveða áherslur sínar og síðan velja sér málsvara sem vinna þessum áherslum brautargengi. Yfir þessu þurfa sveitarfélög að vaka. Þau þurfa að stíga markvís skref og ávinna sér traust og virðingu kennara. Næstu skref þeirra ráða því hvort kennarar kjósi sér næst friðarhöfðingja eða stríðsleiðtoga.

Grunnskólakerfið er í húfi. Ef eitthvað breytist ekki hratt þá verður stríð. Einfaldlega vegna þess að það skiptir of marga of miklu máli til að því verði leyft að skemmast meira baráttulaust.

Núverandi forysta getur hvorki leitt kennara áfram til stríðs né til friðar. Ekki frekar en að hún gæti leitt kennara áfram til þess samnings sem nú var samþykktur – það voru kennararnir sjálfir sem leiddu það mál í höfn.

Framundan eru stórar áskoranir og jafnvel stórir bardagar. Ég persónulega fagna því að nú sé vopnahlé. Ég sé skynsemina í því. Sem fagstétt værum við þó dauðadæmd án ástríðu þeirra sem berjast vildu áfram. Og án ástríðunnar hefði skynsemin gefist upp fyrir löngu. Nú þurfum við að sameinast um skynsamlega ástríðu eða ástríðufulla skynsemi. 

Við erum ekki hólpin. Öll vandamálin sem við stóðum frammi fyrir í síðasta mánuði eru enn til staðar. Allir brestirnir sem komnir voru í burðarvirkið munu fylgja okkur áfram. 

Staðan er enn grafalvarleg. 

Það er ekki einu sinni víst að okkur takist að bjarga grunnskólakerfinu. Það gæti fylgt hluta af heilbrigðiskerfinu og öðrum hlutum menntakerfisins á haugana.

Eigi það ekki að gerast þarf að vera tekin meðvituð ákvörðun um að bjarga grunnskólanum. Það þurfa allir að leggjast á árarnar og axla ábyrgð. Stærsta verkefni okkar kennara í því verki er að hefjast strax handa við að þétta raðirnar, komast að ábyrgri og réttlátri niðurstöðu um framtíð starfsins okkar – og fela nýju fólki það verk að hrinda framtíðarsýn okkar í framkvæmd.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni