Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kennarar í herklæðum?

Í gærkvöldi var haldinn aðalfundur Kennarafélags Reykjavíkur (KFR). Hann var býsna vel sóttur og voru á staðnum einn eða fleiri kennarar frá næstum öllum grunnskólum borgarinnar. 

Á fundinum vógu salt tvö sjónarmið um áframhaldandi stefnu í málefnum grunnskólans í borginni. Annað sjónarmiðið er það að ekki sé tilefni til stórra vendinga, í gangi séu hlutir sem þoki okkur öllum í rétta átt og best sé að halda áfram á sömu braut. Hitt sjónarmiðið er það að tími róttækra breytinga sé runninn upp.

Skemmst er frá því að segja að seinna sjónarmiðið varð ofan á með afgerandi hætti. 

Á fundinum var samþykkt harðorð ályktun (sem ég hef ekki séð birta enn) sem að hluta til lýsir vantrausti í garð kennaraforystunnar og að hluta til vantrausti í garð hins opinbera.

Á fundinum var ennfremur það vald tekið frá stjórn KFR að velja einhliða þingfulltrúa á næsta aðalfund Félags grunnskólakennara (FG). Þeir fulltrúar skulu valdir á félagsfundi þar sem hver sem er getur boðið sig fram. 

Loks voru laus þrjú embætti stjórnarmanna í KFR. Þau komu öll í hlut hinna róttækari frambjóðenda. Þeir sem töluðu fyrir því að fylgja áfram þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið hingað til hlutu ekki brautargengi.

Frá mínum sjónarhóli séð er farinn að þrengjast mjög hringurinn utan um kennaraforystuna og verulega er farið að molna úr grundvelli þeirrar vinnu sem nú á sér stað milli hennar og sveitarfélaganna. Kennaraforystan talar hreinlega ekki fyrir hönd hins almenna kennara. Sú stefna sem mörkuð hefur verið og reynt er að fylgja er ekki sú stefna sem hinn almenni kennari aðhyllist. Þær afurðir sem komið hafa út úr samstarfi þessara aðila síðustu misseri hafa oftar en ekki verið missmíð, hafi þeim á annað borð ekki verið vísað frá með öllu. Háværum kröfum um endurnýjun umboðs kennaraforystunnar í vetur var hafnað af hálfu forystunnar sjálfrar, nú starfar hún í raun ekki í umboði neins nema að forminu til.

Einn vandi er auðvitað sá að meðan þessi mál eru ekki tækluð grefur um sig meiri óánægja og meiri róttækni. Eins árs griðasamningur er lítils virði ef ekkert uppgjör á sér stað og engin ný stefnumörkun.

Það má raunar segja að þótt friður ríki á yfirborðinu séu kennarar byrjaðir að setja á sig herklæðin. Sem er ekki skrítið. Nóg er búið að berja á þeim, nú síðast í lífeyrismálunum.

Það segir svo sína grátlegu sögu að einn allra frambærilegasti frambjóðandinn á fundinum í gær dró framboð sitt til baka á síðustu stundu. Hann hefur ákveðið að yfirgefa kennslu. 

KFR er aðeins eitt aðildarfélag FG. Niðurstöður fundarins í gær eru þó vel marktækar. Nú er það umhugsunarefni fyrir aðra stjórnarmenn KFR (en kosið er um hluta stjórnar á víxl) ef afgerandi niðurstaða aðalfundarins er á skjön við þá stefnu sem þeir sjálfir hafa fylgt og ætla að fylgja áfram. 

Ekki má gleyma því að í aðgerðum síðasta vetrar stóðu hin formlegu félög kennara á hliðurlínunni og fylgdust með. Endurteknar aðgerðir kennara voru sjálfsprottnar í grasrótinni. Þúsundir kennara notuðu nútíma samskiptatækni til þess að ráða ráðum sínum og grípa til aðgerða. 

Hingað til hefur hið opinbera komist upp með að tækla þessi mál í náinni samvinnu við hina umboðslitlu kennaraforystu. Menn hljóta samt að vera farnir að finna fyrir hnúajárnunum gegnum silkihanskana. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu