Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Blekkingarleikur Sambands sveitarfélaga

Blekkingarleikur Sambands sveitarfélaga

Samband sveitarfélaga hefur hafið markvissar aðgerðir til að draga úr trúverðugleika kennara og gildis krafna þeirra. Sambandið virðist hafa greiðan aðgang að sumum fréttastofum sem birta áróður þess nokkurnveginn á þykkniformi án nokkurra tilrauna til greiningar eða skoðunar.

Nú er frétt á Rúv um að ekki halli á kennara í launakjörum. Þeir séu á nákvæmlega réttum stað. Vísað er í gögn frá Sambandinu.

Ég bendi fréttamönnum á að taka nú þessi gögn til skoðunar. Hér er aðstoð:

Það er rétt að laun kennara hafa hlutfallslega fylgt launum annarra frá 2013 til dagsins í dag. Það er það sem Salek snýst um. Það er það sem Gylfi Arnbjörns á við þegar hann segir að kennarar hafi fengið „sitt“.

Við það má reyndar bæta að hugmyndin er sú að kennarar séu eftirleiðis og til frambúðar nákvæmlega á þessum stað í launum.

Þess vegna eru kennarar að berjast.

Hér eru nokkrar staðreyndir sem vert er að hafa í huga:

Frá því Halldór Halldórsson tók við formennsku í Sambandi sveitarfélaga árið 2006 og fram til ársins 2013 rýrnuðu kjör kennara um á annan tug prósentna. Þessu má fletta upp í skýrslum OECD. Þetta er óumdeilt.

Launin voru fyrir frekar lág. Vegna þess að árið 2004 setti ríkið lög á kjarabaráttu kennara og fyrirskipaði að launabætur til þeirra mættu ekki „ógna stöðugleika“ á vinnumarkaði. Það hefur semsagt verið rekin sú stefna á Íslandi í meira en áratug að kennarar megi ekki fara fram fyrir neinn annan í launaröðinni. Þetta er eitt þeirra atriða sem veldur því að fólk fæst ekki lengur í kennslu.

Það er samt ekkert í reglunum um að kennarar megi ekki dragast afturúr. Þess vegna stóðu þeir uppi árið 2013 komnir 10-15% aftur fyrir sjálfa sig. Þá var samið. Halldór Halldórsson segir að þeir hafi síðan hækkað um 20%.

Inni í þeirri tölu er afsal kennsluafsláttar hjá elstu kennurunum. Hún hefur verið reiknuð upp á u.þ.b. 10%. 

Hin „veglega launahækkun“ sem Sambandið talar um er því ekki nema að hálfu leyti launahækkun. Hún er að hálfu leyti sala réttinda og aukin vinna. Þessi aukna vinna á sinn þátt í því að kennarar hrynja nú niður í áður óþekktum mæli undan álagi.

Eftir þetta kynntu menn til sögunnar Salek. Samkvæmt því á að sjá til þess að frá 2013 - 2019 verði tryggt að allir launþegar á Íslandi verði hlutfallslega komnir aftur á þann stað sem þeir voru árið 2013!

(Lesið þetta síðasta aftur)

Það á semsagt að setja kennara aftur á þann stað sem þeir voru eftir rýrnunina frá 2006-2013.

Sveitarfélögin ætla semsagt að koma út í gróða sem nemur afsali kennsluafsláttar. .

Kennurum hefur í tvígang verið boðið að skrifa upp á þetta með samningi. Þeir hafa tvisvar neitað. Þeir ætla ekki aftur þangað sem þeir voru.

Sveitarfélögin gættu þess í tilkynningu sinni að sýna aðeins hlutfallslegar launabreytingar og þau ræddu aðeins um dagvinnulaun. Ástæða þess er einföld.

Frá því í mars 2014 hafa heildarlaun grunnskólakennara nálgast grunnlaunin með fordæmalausum hraða. Síðasti samningur var hagræðingarsamningur og kennarar eru nú neyddir til að vinna ýmis störf án greiðslu sem áður var greitt fyrir. Árið 2014 höfðu kennarar 14,1% af heildarlaunum af yfirvinnu. Tveimur árum seinna var sama tala 9,6%. 

Til samanburðar er sama tala hjá ríkisstarfsmönnum lægst 18% (hjá BHM) og hæst 51,5% hjá hjúkrunarfræðingum. Hjá ríkisstarfsmönnum innan ASÍ er talan 43,2%.

Heildarlaun kennara voru í mars að jafnaði 525.254 kr. Á myndinni með þessari færslu má sjá þróun heildarlauna síðan 2014. Þar eru kennarar bornir saman við ríkisstarfsmenn BHM, ASÍ, BSRB, hjúkrunarfræðinga og þá sem kjararáðsfólkið náði yfir (athugið að þetta er fyrir síðustu hækkun á launum þeirra).

Ef myndin prentast vel sést að fólk innan ASÍ hefur lægstu heildarlaunin. Þá koma tvær samfléttaðar línur. Það eru grunnskólakennarar og ríkisstarfsmenn innan BSRB. Það er enginn marktækur munur á launaþróun þessara hópa. Þar töluvert ofar koma háskólamenntaðir starfsmenn ríkis. Loks trónir á toppnum kjararáðsfólkið.

Athygli vekur að grunnskólakennarar eru áberandi nær launalægsta hópnum en hópunum þar fyrir ofan.

Meðallaun í landinu staðfesta að þetta á ekki aðeins við um ríkisstarfsmenn. Kennarar eru langt fyrir neðan meðallaun.

Slagurinn nú snýst um það eitt að koma í veg fyrir það að gerð verði samfélagssátt um það að þarna skuli laun grunnskólakennara vera, ekki aðeins til 2019 – heldur hér eftir. Það er markmið Salek.

Samband sveitarfélaga heldur því ekki fram að laun kennara séu nógu há. Þau gæta sín á því. Það er nefnilega auðvelt að afsanna það. Við eigum gögn frá OECD sem sýna að grunnskólakennaralaun á Íslandi eru afkáralega lág. 

Sambandið heldur því bara fram að þau eigi að vera lág. Þau séu bara á sínum stað.

Ég held að allir sjái að þetta er óverjandi afstaða – og ég skora á blaðamenn og fréttamenn að blása burt moðreykinn. Þessi gögn eru öll fullkomlega aðgengileg. Það er fráleitt að rýna ekki í þau og hleypa Sambandinu, sem ber einna mesta ábyrgð á því að heilu skólarnir eru rjúkandi rústir í dag, að með órýndan áróður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu