Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Tryggja gott aðgengi fólks að víni eða meðferð?

Tryggja gott aðgengi fólks að víni eða meðferð?

Ein mikilvægasta aðgerðin til að draga úr skaðlegum áhrifum og vandamálum tengdum neyslu áfengis og annarra vímugjafa er að takmarka aðgengi. Það er meðal annars gert með aðhaldsaðgerðum varðandi sölufyrirkomulag áfengis," segir velferðarráðuneytið í Stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 og í aðgerðaráætlun um að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Þetta er skýr niðurstaða rannsókna og sérfræðinga og að þessu er vonandi unnið af krafti. Eða hvað?

Í greinargerð á Alþingi með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, er ekki hægt að greina þessa vitneskju:

"Því hefur verið haldið fram að sú fjölgun útsölustaða sem samþykkt frumvarpsins er líkleg til að hafa í för með sér muni leiða til stóraukins aðgengis að áfengi sem aftur leiði til aukinnar áfengisneyslu. Ekki er ólíklegt að slíkt muni eiga sér stað með breyttri menningu, a.m.k. til að byrja með. Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju. Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu." 

"Ekki er ólíklegt ..." og  "Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist ..." ? Er þetta boðlegt? Í skýrslu um heildarbyrði heimsins vegna sjúkdóma kemur fram að áfengi er þriðji stærsti áhættuþáttur fyrir sjúkdóma og ótímabær dauðsföll í heiminum og stendur að baki 5,5% tapaðra góðra æviára. Er það ekki eitthvað til að taka alvarlega? Hvort ber að fylgja margsönnuðum rannsóknarniðurstöðum eða óábyrgum tilgátum?

Alþingismenn ættu ekki að eyða tíma sínum í að tryggja betra aðgengi landsmanna að áfengi og auka með því álag á heilbrigðisþjónustuna, heldur vinna að því sem segir í stefnunni: "Að tryggja aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggist á bestu þekkingu og kröfum um gæði." Sem sagt meðferð. Hvernig væri að setja kraft í þetta? 

Ergó: Það er viturlegt að takmarka áfram aðgengi að áfengi og bæta jafnframt aðgengi að þjónustu sem hjálpar fólki til að lifa heilsusamlegu lífi. Þar er svo sannarlega skýrt og klárt verkefni sem tiltölulega einfalt er að vinna að.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni