Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Ókeypis er allt það sem er best

Ókeypis er allt það sem er best

Hún er ef til vill ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hún er sífellt að gera mistök, sennilega í þriðja hverju spori. Einkenni hennar er þrautseigja, því þrátt fyrir viðstöðulaus vonbrigði gefst hún ekki upp. Sérkenni hennar er tilraunastarf og blygðunarlaus þráhyggja við að setja fram nýjar tilgátur, jafnvel þótt flestallar hafi verið afsannaðar. Ekki bara einu sinni heldur oft.

Andblær hennar er djörf og gáskafull gleði. Hún er ekki hrædd, hún þolir ekki kreddur og hlustar ekki á það sem oftast er sagt.

Stóra lauka rífur hún í sundur til að kanna hvort eitthvað fyrirfinnist inni í þeim en þar reynist ekkert nema frelsið allt. Hún dregur upp hnífinn og tálgar hugtökin, hún efast um allt og styðst ekki við fyrirframgefnar forsendur nema eftir ítarlega rannsókn. Hún hættir ekki að grafa.

Þrátt fyrir allt vilja margir ganga í augun á henni, skjalla hana jafnvel og óska eftir henni í lið með sér þótt hún sé ólíklegur fylginautur. Sumir draga um hálfgerðar myndir og bjóða henni kostakjör til að klára þær.

En eins og við vitum þá er hún ekkert til að hrópa húrra fyrir og er sjaldan á vinsældarlistanum. Það er hægara sagt en gert að draga hana þangað sem hún vill ekki fara því nafn hennar er gagnrýnin hugsun.

Hún er óhrædd og til þjónustu reiðubúin, í sjálfboðavinnu, því ókeypis er allt það sem er best.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni