Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Næsta ríkisstjórn ætti að setja sér gildi

Hvernig væri að næsta ríkisstjórn setti sér gildi  fyrir stjórnartíð sína? Hún gæti til dæmis valið 12 gildi fyrir tímabilið. Það gæti verið lýðræði, jöfnuður, mannréttindi, frelsi, friðsemd, sjálfbærni, traust, jafnrétti, réttlæti, virðing, heiðarleiki og réttlæti.

Lýðræði og jöfnuður eru dýrmætið sem aldrei má glatast því þau fela í sér vald almenning og visku. Jöfnuður er megingildið á næstu árum því heimsbyggðin veit að ójöfnuður, stéttarmunur ríkra og fátækra verður ekki liðinn lengur eða að 1% mannkyns eigi auðlindir, land og fjármagn en 99% fátt sem er einhvers virði. Það er óbærilega óréttlátt.

Lýðræði er jöfnuður

Bil milli manna, gjár milli stétta, fljót milli hópa er ber að brúa. Ójöfnuður hentar alls ekki í lýðræðisríki. Verkefnið er að þróa aðferð sem veitir öllum aðgang og útilokar engan. Verkefnið er að skapa samfélag þar sem borgari finnur til þegar brotið er á öðrum. Jöfnuður lýtur meðal annars að kjörum og launum, aðstæðum og tækifærum.

Jöfnuður er grunngildi mannréttinda, það er víðtækt hugtak og felur í sér bann við mismunun.

Jöfnuður er ástandið sem lýðræðið á að skapa. „Hér ríkir jöfnuður“ merkir einnig að mál séu afgreidd af sanngirni en ekki eftir duttlungum eða hagsmunatengslum.

Vinna þarf grunnvinnu áður en ákvörðun er tekin, gögnum og upplýsingum er safnað og unnið úr þeim af fagfólki. Efnið er síðan lagt fyrir þjóðina með opnum gagnagrunnum á Netinu sem hver og einn getur leitað í til að sannreyna. Markmiðið er að laða fram visku fjöldans, ekki að telja henni trú um eitthvað eða koma af stað múgsefjun, heldur visku. Markmiðið er að mynda kjöraðstæður sem opna fyrir visku þjóðarinnar í stað þess að flytja áróður sem ýtir undir fávisku.

Viskan vill jöfnuð en heimskan hefur engan áhuga á honum. Viskan vill lýðræði, viskan vill samvinnu. Viskan vill ekki fáræði karla, heldur lýðræði og samráð allra hópa og rökræður. Allt sem fáræðið forðast og hatar er líklegt til að vera kjörorð visku fjöldans. Það er vissulega vandasamt að móta þær aðstæður þar sem viska fjöldans blómstrar – en hvaða aðra visku er réttlætanlegt að efla?

Lykilorð visku fjöldans er jöfnuður milli hópa. Hvernig verður honum náð?

Ef til vill mætti bæta við tveimur orðum í orðabókina. Fjölræði ríkir þar sem fólk er skrafhreifið og málin eru mikið rædd (stundum vegna gleði). Fáræði ríkir þar sem fólk er fámált og málin lítið rædd (stundum vegna ótta). Jöfnuður getur aðeins orðið hjá þjóð sem þorir að tala saman og óttast ekki niðurstöðuna. Jöfnuður fæst aðeins þar sem allir stefna á hann, þar sem eiginhagsmunir lúta í lægra haldi fyrir lönguninni til að rétta öðrum hönd.

Vissulega eru mörg verkefni framundan sem leysa þarf áður en jöfnuði er náð. Hvernig má til að mynda tryggja að jaðarhópar samfélagsins fái aðgang og rödd sem hlustað er á? Hættan er ævinlega sú að ákveðinn hópur meti eigin viðmið ofar öðrum. Hópurinn öðlast völd og hættir að hlusta á aðrar raddir en við það dregur um leið úr öllum jöfnuði. Jöfnuður er markmið sem ævinlega þarf að stefna að þótt því verið ef til vill aldrei náð alveg.

Hvert samfélag þarf að stefna að réttlæti og jöfnuði og leita sífellt nýrra leiða til að nálgast þessar hugsjónir. 

Næsta ríkisstjórn ætti að setja sér megingildi sem birtast í öllum stefnum og ákvörðunum. Nefna mætti fleiri megingildi eins og ábyrgð, skyldurækni, gagnsæi, heilindi og víðsýni. "Ráðherra hefur í huga að skyldur hans eru fyrst og fremst við almenning," segir í siðareglum ráðherra og þar af leiðandi er jöfnuður ef til vill æðsta gildið - eða hvað?

Gangi ykkur  vel.

Tengill

Siðareglur ráðherra

Siðareglur alþingismanna

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu