Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Mannshugurinn og alheimurinn

Mannshugurinn og alheimurinn

Mannshugurinn er líkur alheiminum. Sérhver persóna fær hann að gjöf án þess að gera sér grein fyrir hversu dýrmæt gjöfin er.

Líking birtist á hugartjaldinu:

Stök manneskja liggur í hengirúmi milli trjáa undir berum himni. Hún sefur, hún vakir, það er skýjað og fuglar og flugvélar fara hjá. Hún sefur og vakir á víxl og virðir fyrir sér himinhnetti, sólarlag og sólarupprás. Eina nóttina hrekkur hún upp og öll vetrarbrautin blasir við ásamt öðrum þyrpingum, sólkerfum og stjörnuþokum. Allt iðar af hnöttum og ljósi, allt vex og hnígur, hrapar gegnum gufuhvolfið og jafnvel kulnaðar stjörnur senda óskiljanleg skilaboð.

Líkingin hverfur af  hugartjaldinu:

Eins er með mannshuga sérhvers einstaklings. Öll þróunarsagan býr í honum og þar eru að finna leifar af táknum og hugmyndakerfum sem berast um hugann og alheiminn og þar eru svarthol sem engin leið er að sækja heim. Þar eru einnig bjartar sólir og allt hverfur í skini þeirra um stund og þar eru óviðjafnanleg mynstur … allt þetta rúmast í mannshuganum, jafnvel leifar af gammablossa má finna í ískjörnum hugans og árhringjum staðreynda frá fyrri öldum.

Það er jafnlangt á milli elstu laga mannhugans eins og nýrrar reynslu og á milli tveggja sólkerfa í fjarlægum vetrarbrautum.  Aftur:

Það er jafnlangt á milli elstu laga mannhugans eins og nýrrar reynslu og á milli tveggja sólkerfa í fjarlægum vetrarbrautum. 

Mannshugur sérhvers einstaklings er dýrmætur, því þar er allt sem var, allt sem er og þar er allt sem verður í lífi persónu.

Líkingin birtist aftur:

Manneskjan í hengirúminu fær hugljómun sem lýstur líkt og elding um miðan dag. Hún stígur niður og veit að verkefnið er að ferðast um hugarheiminn, fræðast og gera athuganir eins og um alheiminn sé að ræða.

Hún finnur knýjandi þörf til að uppgötva hugræna þætti sem hafa áhrif án þess að neinn taki eftir því. Það er eins með mannshugann og nýmældar og –sannaðar þyngdarbylgjur alheimsins, það býr meira í honum er búist er við.

Verkefnið gagnvart alheiminum og mannshuganum er það sama en þó ekki aðeins að uppgötva heldur einnig að kveikja ný ljós sem veita innsýn … 

tökum flugið milli alheims og mannshugans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni