Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Og þess vegna eru alltaf stríð

Og þess vegna eru alltaf stríð

Margir sjá sér hag í að hefja stríð enda alltaf talsverðir ætlaðir eða raunverulegir hagsmunir að baki. Sama gildir oftast um önnur vopnuð átök þótt stundum kvikni þau á örskammri stundu og virðist fullkomlega óskipulögð. Skiljanlega er mikill munur á því hvort fólki finnst vopnuð átök eiga rétt á sér eða ekki. Mesti munurinn á stríði og róstum er svo fólginn í mannfalli og annarri þjáningu mikils fjölda fólks sem er alltaf fylgifiskur stríða en í minna mæli og stundum hverfandi í öðrum vopnuðum átökum.

Ég ætla að setja fram tilgátu í þremur liðum.

  1. Eina leiðin til að hefja stríð, skærur, róstur, uppreisnir og óeirðir er að sækja hermenn og byssufóður, uppreisnarmenn og andófsfólk  í hópa með óuppfylltar grunnþarfir.
  2. Eina leiðin til að hefja ítrekað stríð á sama svæðinu er að venja fólk við óuppfylltar þarfir.
  3. Eina leiðin til að forða átökum er að uppfylla grunnþarfir fólks, virða það og elska.

Þetta er svo sem ekki byltingarkennd tilgáta.

Fólk sem fær ekki svalað líkamlegum grunnþörfum sínum og þörfum fyrir öryggi og að tilheyra hópi er örvæntingarfullt.

  • Ef það fær ekki vatn, svefn og mat er það reiðubúið að gera nánast hvað sem er til að tryggja sér og afkomendum sínum aðgang að slíku, enda liggur lífið við.
  • Ef það hefur ekki þak yfir höfuðið, getur ekki borgað reikningana sína eða fær ekki lyf til að hjúkra barninu sínu kemst fátt annað að, en sá aukaþróttur sem er til staðar er líklegt eldsneyti í uppreisnir og jafnvel stríð.
  • Ef  fólk er utangarðs og upplifir að það tilheyri ekki hópi sem virðir það og elskar er oft greiður aðgangur fyrir bæði stríðsæsingamenn og andófsöfl. 

Margir hafa lært um þarfapíramíða Maslows einhvern tímann á skólagöngunni eða séð vitnað til hans oftar en tárum taki, ég ætla hér með að bætast í þann hóp. Píramíðinn er reyndar ekki hugmynd Maslows, sú myndgerð er seinni tíma smíð, en hugmyndin er að raða þörfum okkar upp í stigveldi. Ef við getum ekki fullnægt þeim þörfum sem eru í neðsta laginu komumst við ekki upp í það næsta. Að geta ekki fullnægt þörfum okkar á fyrstu lögunum fjórum, grunnþörfunum, hvetur okkur (eða rekur) til athafna. Ef við erum svöng leitum við að mat og svo framvegis.

Ég skrifaði grein í fyrra sem vék að angistinni sem fylgir því að geta ekki aflað sér matar á Íslandi í dag, hér er brot úr henni:

"Þeir sem hafa ekki reynt það skilja það ekki, og þeir sem þekkja það sjá ekki leið út úr því. Angist mánaðamótanna. Við erum ekki að tala um angistina sem fylgir því að eiga ekki fyrir skuldunum. Hún er þó feikinóg hjá mörgum til þess að leggjast í bælið. Nei, við erum að tala um að geta ekki keypt mat. Að hafa engin úrræði önnur en einn matarpoka á viku frá hjálparstofnunum. Áður var auðvelt að ná í mat úr gámum en útsjónarsemi verslunareigenda í að verja þá fer vaxandi. Við erum líka að tala um að eiga hvergi höfði sínu að að halla. Loks erum við að tala um að sama hvað maður gargar hátt í eymdinni, þá heyrir það enginn."

Óöryggi gerir okkur snælduvitlaus

 

Við svona aðstæður kemst ekkert annað að. Örvæntingin verður algjör og áhugi á hverju því sem áður átti hug manns allan deyr drottni sínum. Ferðalög? Kringluferð? Líkamsrækt? Leikhús? Hahaha, ekkert er fjarri mér. Og svo kemur reiðin. Reiðin út í alla sem leyfa sér að tala um samfélagið, gefa manni góð ráð (hysjaðu upp um þig brækurnar), alla sem eiga pening. Hvað þykjast þau vita?

Margir íbúar þessa lands eru í þessari stöðu. Þeir hafa ekki öruggt þak yfir höfuðið og eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. En ríkisstjórnin okkar er ekki á þeim buxunum að hvetja til andófs. Auðvitað ekki. Í staðinn treystir hún á að fólkið sem hún er að sliga  sé of vanmáttugt til að reisa hönd yfir höfuð sér.

Reynsla undangenginna ára hefur sýnt að svo er ekki. Hérlendis, eins og erlendis, gerir manneskja í öng hvað sem er til að bæta aðstæður sínar. Ef engan mat er að fá, þá stelur hún. Ef ríkisstjórnin hindrar hana í að fá þak yfir höfuðið þá rekur hún ríkisstjórnina frá völdum.

Það er engin hætta á að íslenska ríkisstjórnin hafi það að markmiði sínu að hefja byltingu. Það eru miklar líkur á að með aðgerðaleysi sínu í þágu okkar sem búum hérna og erum ekki rík af efnislegum auðæfum þá geri hún það samt.

Vegna þess að nú kunnum við að hefja byltingu. 

En það sem fólk vill auðvitað, langt umfram það að hefja byltingu, er að fá grunnþörfum sínum fullnægt. Ríkisstjórn sem skilur ekki örvæntingu og angist á ekki heima á valdastóli. Við erum með þannig ríkisstjórn. Þar ræður fólk sem hefur aldrei nokkurn tímann þekkt skort. Sem finnst skortur bara eitthvað sem talað er um í skýrslum frá Sameinuðu þjóðunum um fólk í Fjarrilíu.

Ríkisstjórnin er fólk sem hefur fengið þörfum sínum fullnægt.

Búsáhaldabyltingin kenndi okkur að það er hægt að hrinda ríkisstjórnum úr sessi. En ef við ætlum að koma í veg fyrir síendurtekið uppreisnarástand í landinu vísar Abraham Maslow ríkisstjórninni veginn þegar hann segir:

Secrecy, sensorship, dishonesty, and blocking of communication, threaten all the basic needs.

Heyriði það ríkisstjórn. Leynd, ritskoðun, óheiðarleiki og höft á tjáningu og skoðanaskiptum ógna því að við fáum grunnþörfum okkar fullnægt. Það má vera að ykkur þyki þetta ekkert merkilegt. Ef svo, þá eruð þið á enn meiri villigötum en ég hélt. Ef svo er, þá fallið þið í gryfjuna og aukið hættuna á að ný saga verði skráð: Og þess vegna eru alltaf uppreisnir ... á Íslandi.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni