Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Lífið getur ekki bara verið steik

Lífið getur ekki bara verið steik

Fyrir allmörgum árum hringdi kona nokkur á besta aldri í vinalínu og lét þessi fleygu orð falla: ,,Ég verð svo þunglynd þegar ég opna ísskápinn og sé kjötfarsið.'' 

Hver nákvæmlega ástæðan fyrir þessum orðum var er óráðin gáta, en mikið afskaplega hafa þessi orð setið í mér og mér þykja þau ekki síður merkileg en samlíking Sölku Völku hans Laxness hér um árið á lífinu og saltfiski.

Ég er sannfærð um að þunglyndisleg orð kjötfarskonunnar voru ekki meint á þann veg að hana langaði frekar í steik og að kjötfarsið sem slíkt gerði hana dapra. Miklu heldur að í hennar augum táknaði fjandans kjötfarsið í ísskápnum enn einn tilbreytingarlausan dag í gráum hversdagsleikanum.

Og maður minn hvað tilbreytingarleysið getur alveg drepið niður húmorinn. Vinna, borða, sofa. Borða, vinna, sofa. Hversdagurinn er nokkurn veginn þannig. Mögulega hægt að troða smá kynlífi þarna með endrum og sinnum. Sérstaklega ef þú átt ekki börn. Og alveg sama þó við minnum okkur reglulega á að ekki séu allir svo heppnir að hafa vinnu til að mæta til, mat til að borða, rúm til að sofa í eða einhvern til að deila því með, þá erum við mannleg og getum orðið óskaplega þreytt á blessaðri rútínunni. En sannleikurinn er sá að til að kunna að meta steikurnar sem lífið færir okkur þá verðum við að gleypa í okkur kjötfarsið. Ef við fengjum safaríka steik flesta daga vikunnar myndi okkur hætta að hlakka til að setjast að borðum og njóta. Við þurfum Yin og Yang í lífið. Gott og slæmt. Hlátur og grátur. Við þurfum að upplifa erfiðleika til að kunna að meta farsæld.

Að því sögðu þá er ég ekkert sérstaklega hrifin af kjötfarsi sjálf. En það er hægt að poppa það upp. Til dæmis með því að innbyrða kjötfarsið í bolluformi í góðra vina hópi. Rauðvín gengur líka með öllu. Hægt er að gera gott úr flestu. Og best er að hlæja að því í dag sem þú grést yfir í gær. Um þetta mun þessi bloggsíða fjalla. Hlátur og grátur. Kjötfars og steik.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni