Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Greindur hundur

Greindur hundur

Fyrir rúmum tíu árum síðan upplifði ég þá óþægilegu tilfinningu að ég væri sú eina á plánetunni Jörð (a.m.k. á Íslandi) sem ekki vissi svolítið; nefnilega að íslenski hundurinn á það til að gelta mikið.

Eftir að við ákváðum að stækka fjölskylduna og taka að okkur sex mánaða hvolp fór ég fljótlega að tilkynna vinum, vandamönnum og vinnufélögum að brátt yrði fjölgun í fjölskyldunni. Fólk hafði mismikinn áhuga á efnistökum þessarar tilkynningar. Sumir voru yfir sig hrifnir, sumir minna hrifnir, aðrir sýndu samúð og svo voru nokkrir sem horfðu á mig algjörlega gjörsneyddir áhuga. Brá jafnvel fyrir hryllingi í svipnum. Þar til ég sagði að hvolpurinn væri alíslenskur. Þá lyftist brúnin á mínu fólki og það sagði á innsoginu: en þeir gelta svo mikið jiiiiii heldurðu að þú verðir ekki geðveik?!

Í fyrstu lét ég mér fátt um finnast. En þegar viðbrögðin voru þau sömu hjá hverjum einasta manni fóru að renna á mig tvær grímur. Afhverju vissu ALLIR að íslenska hundagenið var svona hávær nema ég? Hvernig gat svona almenn vitneskja hafa farið fram hjá mér?

Þetta er mér enn hulin ráðgáta, en það get ég svarið að geltið eitt og sér hefði ekki verið vandamál. Í rúm tíu ár hef ég verið í sambúð með hundi sem heitir Viddi og fékk mjög snemma á lífsleiðinni viðurnefnið vitleysingur. Fljótlega kom í ljós að blessunin hans Viddi er með ADHD, einhverfu, aðskilnaðarkvíða (frá mér) og áráttukennda hegðun. Viddi er líka misþroska og þjáist af sjálfskipuðu heyrnarleysi (selective hearing) og léttum alzheimer.

Hann fnæsir af vandlætingu eins og gamall, geðstirður karl, geltir af sér feldinn ef sunginn er afmælissöngurinn eða orð notuð sem byrja á há-vaff (hvað, hvenær, hver, hvernig..), blundar með heimilisköttunum tveimur í sófanum í mestu makindum en tjúllast þegar hann kemur auga á þá út um gluggann. (Í alvöru Viddi? Þú kannast náttúrlega ekkert við þessa tvo?).

Hann eltir mig hvert fótmál innanhúss. Líka á klósettið. Leggst fyrir utan dyrnar og andar þunglega inn um rifuna á milli gólfs og hurðar þar til ég hef lokið erindum mínum. Hann horfir spenntur á mig hafa fataskipti (hver myndi ekki gera það?) því hann þekkir ,,göngutúrafatnaðinn''. Það er hálf ömurlegt að sjá glampann hverfa úr augunum og eyrun leggjast niður þegar fataval mitt þóknast honum ekki.

Hann er alltaf jafn hissa þegar hann er skammaður, þó að það sé fyrir sama brot og átti sér stað 10 mínútum áður. Þegar hann er rekinn út úr eldhúsinu þá leggst hann fyrir utan, teygir úr fótunum og lætur klærnar ná inn fyrir dyrnar. Á þann hátt finnst honum hann allavega stjórna einhverju. Stundum (oft) er Viddi sendur í ,,bæli'' í refsingarskyni. Bæli er hans skammakrókur. Þá lötrar hann af stað á hraða skjaldbökunnar, stoppar mörgum sinnum á leiðinni og lítur til okkar eins og til að vera viss um að okkur sé nú örugglega alvara.

Viddi er óþekka og illa uppalda barnið okkar sem við eigum fullt í fangi með og skyggir á hina ofurhlýðnu fóstursystur sína Eyju, sem er hógvær blanda af labrador og border collie. Lífið væri vissulega auðveldara og friðsælla ef Viddi væri ekki inn í myndinni. Það verður þó að viðurkennast að myndin sú væri bæði daufari og minna spennandi án hans.

Boðskapur þessarar sögu er einfaldlega þessi; áður en þið ákveðið að fá ykkur hund, kynnið ykkur þá tegundir og finnið út hvað hentar ykkar fjölskyldu. Látið ekki sakleysileg andlit blekkja ykkur. Og munið að þau eru öll englar þegar þau sofa

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu