Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það er ljótt að nauðga

Það er ljótt að nauðga

Það er ljótt að stela. Það er ljótt að stríða. Það er ljótt að tala illa um aðra. Það er ljótt að segja ósatt.

Börn taka þessi skilaboð inn með móðurmjólkinni. Flest þeirra alla vega. Síðustu ár hefur einnig verið vakning í því að kenna ungum börnum um þeirra einkastaði. Að engum leyfist að snerta þau nema með þeirra samþykki og að líkaminn sé þeirra einkaeign.

En gleymist ekki að láta fylgja með þessum þörfu skilaboðum að önnur börn eigi líka sína líkama? Að þessi regla snýst ekki bara um ,,þig'' heldur líka alla ,,hina''. Það er nefnilega ekki nóg að kenna börnum að bera virðingu fyrir sjálfum sér. Það þarf að kenna þeim að bera virðingu fyrir öðrum í leiðinni.

Á meðan börnin okkar eru lítil og saklaus viljum við trúa því að þau séu heiðarlegar, samúðarfullar, vingjarnlegar og hamingjusamar litlar sálir. Það sem meira er; við gerum í raun ráð fyrir því. Ekkert foreldri langar til að uppgötva að barnið þess sé undirförult, dónalegt, skorti samkennd eða sé óvinsamlegt í garð annarra. Auðvitað ekki. En ef sú staða kemur upp að eitthvað af þessu eigi við barnið okkar þá þurfum við að horfast í augu við vandamálið og tækla það. Það hjálpar engum, og allra síst barninu, að stinga hausnum í sandinn og vona að vandamálið hverfi að sjálfu sér.

Svo vaxa börnin okkar upp og öryggi þeirra er okkur áfram alltaf efst í huga. Hætturnar í umhverfinu minnka ekki neitt, þær bara breytast. 

Foreldrar eru duglegir að vara stálpaðar dætur sínar við hættunni sem fylgir því að vera í partíum, að drekka of mikið, að vera úti að kvöldlagi, sérstaklega á fáförnum stöðum. Haldiði hópinn, passið drykkina ykkar, ekki þiggja far með ókunnugum...

Öll þessi ráð og aðvaranir snúast í rauninni bara um eitt; passaðu þig á nauðgurum.

Og nú verð ég bara að taka því að karlmenn rísi upp á afturfæturnar við þennan lestur og hvæsi: ,,konur nauðga líka''. Það veit ég fullvel en staðreyndin er sú að flestar nauðganir eru framkvæmdar af karlmönnum á konum og karlmönnum og ég tala hér út frá því.

Hvar eru þessi föður- (og móður)legu ráð til drengjanna okkar: ekki drekka svo mikið að þú missir dómgreind þegar kemur að kynlífi. Ef þú verður var við kynferðislega áreitni í garð konu/karlmanns stattu með sjálfum þér og konunni/karlmanninum. Ekki taka þátt í neinu sem skaðar aðra manneskju, andlega eða líkamlega. Samfarir við meðvitundarlausa eða rænulitla manneskju sem getur ekki spyrnt við fótum er nauðgun. Nauðgun er glæpur.

Þessi skrif mín eru ekki um nauðganirnar í Hlíðunum. Það mál hvorki vil ég né treysti ég mér til að fjalla um á opinberum vettvangi. En efni þessa pistils hefur legið á mér eins og mara í langan tíma og Hlíðarmálið og umræðan á netinu í kjölfarið er það sem fékk mig loks til að setjast niður og reyna að koma þessu frá mér.

Í athugasemdarkerfi einhvers netmiðilisins las ég frásögn karlmanns af því þegar hann á yngri árum, ásamt 4 félögum sínum, tók upp í bílinn dauðadrukkna unga stúlku. Þeir keyrðu svo á afvikinn stað og þrír af þessum fimm ungu mönnum ætluðu sér að nauðga stúlkunni. Tveir neituðu að taka þátt og sem betur fer var ódæðið ekki framið. Ekki í það skiptið. En hvað hefði gerst ef þessi tveir hefðu fylgt straumnum? Látið undan félagslega þrýstingnum? Hópnauðgun hefði átt sér stað. Og þessar kringumstæður eru svo sannarlega ekkert einsdæmi

Í leyndum og ljósum krókum og kimum þjóðfélagsins okkar liggur í loftinu á einhvern hátt, óáþreifanlegt samþykki fyrir nauðgunum. Eða á ég kannski að segja fyrir nauðgurum?

Þau eru óteljandi dæmin um að fórnarlamb nauðgara hrökklist úr skóla, úr bæjarfélagi, úr landi og ótrúlegt en satt; úr fjölskyldum. Fjölskylda, vinir, íþróttafélög, bæjarfélög... samfélagið allt reisir skjaldborg í kringum þann brotlega. Margir láta það ekki nægja heldur snúast markvisst gegn brotaþola og níðast á honum, í sumum tilfellum bæði líkamlega og andlega. Að lokum sér brotaþoli sér sér ekki annað fært en að flytja á brott og reyna að byggja líf sitt upp á ný annars staðar. Oft reynist ,,annars staðar'' ekki nóg. Í dag er auðvelt að elta fólk upp í gegnum netið og ofbeldið og útskúfunin heldur áfram. Því miður enda sumir á að taka líf sitt með einum eða öðrum hætti.

Það er ekki mikill munur á þessum aðferðum og þeim sem er beitt þar sem Sharia lögin ráða ríkjum og konur eru grýttar til bana fyrir þær sakir að hafa verið nauðgað. 

Þurfum við ekki að fara að horfast í augu við það að nauðgarar eru ekki allir með horn og hala eða eldspúandi nasir? Hinn napri sannleikur er sá að þú gætir staðið frammi fyrir því einhvern daginn að eiga vin, son, bróðir eða barnabarn sem er ákærður fyrir nauðgun. Og þó að hann sé vinur þinn, sonur, bróðir eða barnabarn er það ekki sjálfgefið að hann sé saklaus. Reyndar eru meiri líkur á því að hann sé sekur. Og þú ert á engan hátt að hjálpa viðkomandi að snúa frá villu síns vegar og verða að betri manni með því að ráðast gegn þeim sem hann braut á eða afneita hryllingnum sem hefur átt sér stað. 

Foreldar, talið við drengina ykkar. Leggið inn orðin sem gætu að lokum haft úrslitaáhrif í ákvarðanatöku á örlagaríku augnabliki;

Kynmök eða aðrar kynferðislega athafnir án samþykkis allra hlutaðeigandi eru nauðgun.

Það er ekkert til sem heitir ,,of seint að hætta við.'' Ekki einu sinni þó samfarir séu hafnar.

Það er ljótt að nauðga

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu