Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Yfirlýsing

Yfirlýsing

Undanfarið hef ég verið að undirbúa ljósmyndasýningu sem stóð til að setja upp í Listasafni Reykjanesbæjar á Ljósanótt. Þótti mér mikill heiður að þessu tækifæri enda er Ljósanætursýning Listasafnsins jafnan fjölsóttasta sýning ársins.  Ætlaði ég þar að sýna afrakstur 10 ára vinnu sem fólst í því að ljósmynda þá stórbrotnu náttúru sem Reykjanesskaginn hefur að geyma.  Vil ég þakka Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa bæjarins, innilega fyrir að bjóða mér þetta tækifæri. Ennfremur  vil ég þakka henni þann áhuga, stuðning og ekki síst virðingu sem hún hefur ávallt sýnt mér og verkum mínum.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa nú samþykkt að gera okkur bæjarbúa að tilraunadýrum í lýðheilsutilraun Thorsil og annarrar stóriðju í Helguvík.  Það er rosalega dapurt að sjá á hvaða vegferð bæjarfulltrúar meirihlutans eru, ekki síst vegna þess að suma þeirra studdi ég í síðustu kosningum. Studdi, vegna þess að einhverra hluta vegna trúði ég því að þetta væri fólkið sem kæmi með nýjar áherslur en myndu ekki taka við og halda uppi úreltri hugmyndafræði fyrrverandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins og gera heimabæinn minn að verksmiðjubæ með ásýnd 19. aldar iðnvæðingar þar sem eiturspúandi stóriðjuverksmiðjur í bakgarðinum gnæfa yfir allt. Ekki trúði ég því að þetta væri fólkið sem væri til í að taka áhættuna með heilsu bæjarbúa og spilla lífsgæðum þeirra til þess eins að geta hugsanlega barið sér á brjóst og sýnt bata í rekstri bæjarsjóðs fyrir næstu kosningar. Ekki trúði ég því heldur að þetta væri fólkið sem væri tilbúið að lítilsvirða 40 ára uppbyggingu í hesthúsahverfinu á Mánagrund.

En svona er ég nú slæmur mannþekkjari. Mér skjátlaðist hrapallega en auðvitað ætti maður að vita af reynslunni að þegar peningaöfl og pólitíkusar dansa saman á náttúran og umhverfið aldrei séns.  

Í ljósi þessa hef ég satt best að segja engan áhuga á því  lengur að taka þátt í menningarstarfi á vegum Reykjanesbæjar.  Ég kæri mig ekki um að leggja nafn mitt og verk mín við þá sóðalegu og neikvæðu  ímynd sem verið er að skapa um heimabæinn minn.

Að vel ígrunduðu máli hef ég því ákveðið að segja mig frá umræddu sýningarverkefni í Listasafni Reykjanesbæjar og geri það hér með.

Reykjanesbæ, 06.06.2015.
Ellert Grétarsson,
náttúruljósmyndari og íbúi í Reykjanesbæ.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni