Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Reykjanesfólkvangur í ruslflokki

Reykjanesfólkvangur í ruslflokki

Myndirnar hér að neðan eru teknar á fögru sumarkvöldi við Austurengjahver í Krýsuvík.  Umhverfi hversins er afar litríkt og fallegt þar sem rauðbrennt grjót kallast á við bláan hveraleir.  Myndin að ofan er einnig frá Austurengjahver,  sem er nýjasta viðbótin í orkunýtingarflokki rammaáætlunar samkvæmt tillögum að 3ja áfanga.  Þar með hafa þrjú svæði af fjórum innan Reykjanesfólkvangs verið sett í þann flokkinn – ruslflokk. Aðeins Trölladyngja er eftir í biðflokki.  Allt Krýsuvíkursvæðið verður því virkjað samkvæmt þessu.


Hvernig má það vera að friðlýstur fólkvangur fái slíka útreið?  Því miður var friðlýsingin háð þeim takmörkunum að jarðhitavinnsla var undanskilin.   Í rauninni kvað hún á um að svæðið yrði fólkvangur og útivistarsvæði þangað til annað kæmi í ljós.  Menn hafa alltaf horft til jarðhitans í Krýsuvík – margir hverjir með græðgisglampa í augunum.

Krýsuvíkursvæðið er afar vinsælt útvistarsvæði, stutt frá mesta þéttbýli landsins og náttúrufegurð þess dregur að sér fjölda ferðafólks. Margir leggja leið sína að hverasvæðinu í Seltúni, sem nú stendur til að virkja en það er eitt þeirra svæða sem sett var í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.

Á næstu mynd er horft yfir Krýsuvík frá suðri til norðausturs.  Sveifluhálsinn til vinstri. Fjærst er Kleifarvatn, Grænavatn til hægri og Gestsstaðavatn til vinstri. Framan við það er Krýsuvíkurheimilið. Rauði liturinn sýnir fyrirhugaðan borteig samkvæmt deiliskipulagsstillögu HS Orku. Rauði hringurinn til hægri sýnir staðsetningu Austurengjahvers. Sú hugmynd HS Orku að gera þetta svæði innan Reykjanesfólkvangs að virkjanasvæði er algjörlega galin, gegnsýrð af virðingarleysi gagnvart náttúrunni í bland við siðleysi græðginnar. 


Mér er hulin sú ráðgáta hvers vegna verkefnastjórn rammaáætlunar og svokallaðir faghópar hafa komist að því að náttúra Reykjanesskagans sé einskis virði nema undir orkuvinnslu. Ég skil það ekki enda þekki ég svæðið mjög vel eftir að hafa farið um það þvert og endilangt fótgangandi síðasta áratuginn eða svo með myndavél í hönd. 
Annað hvort eru þessar ákvarðnir teknar af miklu þekkingarleysi á svæðinu eða verið er að fórna Reykjanesskaganum til að verja miðhálendið.

Nýlega birtist í Stundinni ítarleg umfjöllun um Krýsuvíkursvæðið með fjölda ljósmynda, sjá hér:
http://stundin.is/frett/vilja-breyta-folkvangi-i-virkjanasvaedi/

Bendi einnig á síðasta bloggpistil þar sem ég sýni á korti það sem hægt væri að kalla Tortímingarplan rammaáætlunar á Reykjanesskaga, sjá hér.
http://stundin.is/blogg/hellisbuinn/tortimingarplani/

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni