Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Íslensk hnjáliðamýkt

Á fyrri hluta 15. aldar skrifaði Hannes Pálsson, hirðstjóri Noregs- og Danakonungs, langa skýrslu til konungs þar sem hann segir íslenska höfðingja mæta útlendum mönnum „af stakri hnjáliðamýkt“.
Þeir séu „heimskulega auðginntir með bænum, drykk og mútum en samt sem áður trúi hin einfalda og fátæka alþýða þeim og láti blekkjast.“
Hannes skrifar að þannig stuðli höfðingarnir „hvorki að nytsemi lands og þjóðar né skeyti nokkru þótt aðrir steypist í glötun og tortímingu, meðan þeir sjálfir gíni yfir áður óþekktum drykkjuskap og svalli, en við það gleðjist þeir mjög“.

Þessi orð Hannesar eru enn í fullu gildi um 600 árum síðar. Fátt hefur í rauninni breyst. Íslenskir pólitíkusar og „stök hnjáliðamýkt“ þeirra gagnvart stóriðjunni er gott dæmi.  Meginþorri orkunnar sem framleidd er í landinu er seld á hrakvirði (cheapest energy prices) til erlendrar stóriðju sem kemst upp  með að svindla arðinum úr landi með skattabrellum.  Ágóðinn fyrir þjóðarbúið er smánarlegur .

Þessi „staka hnjáliðamýkt“ birtist einnig í því að tækifærissinnaðar hagsmunahórur í pólitík ganga erinda þessara fyrirtækja og hljóta að launum góða, vel launaða stöðu á kontórnum hjá þeim.

Hin „staka hnjáliðamýkt“ birtist líka í því að hingað geta komið erlendir braskarar og keypt heilu orkufyrirtækin á kúlulánum – til sjö ára ef því er að skipta. Svo hösla þeir lífeyrissjóðina til að koma með restina sem upp á vantar.

Þessi „staka hnjáliðamýkt“  virðist grípa um sig í hvert sinn sem útlendingar veifa seðlabúnti með fyrirheitum um enn fleiri seðlabúnt fái þeir að reisa hér subbulegar stórverksmiðjur sem enginn annar vill, stórskipahafnir og olíuvinnslustöðvar eða fái aðgang að auðlindum landsins til fjarlægrar framtíðar.

Því skal engan undra þær áhyggjur sem uppi eru af stöðu Íslands í  hinum alræmdu TISA-viðræðum.  Mikið andskoti er maður nú hræddur um að hin landlæga, staka  hnjáliðamýkt eigi eftir að verða þjóðinni dýrkeypt í þeim efnum -  svona í ljósi sögunnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu