Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Einstakar náttúruminjar eyðilagðar

Einstakar náttúruminjar eyðilagðar

Skammt vestan við Bláa lónið og Svartsengi er að finna magnaðar gosminjar frá Reykjaneseldum á 13. öld.  Þetta eru Eldvörp, röð gosgíga sem teygja sig 10 kílómetra frá norðaustri til suðvesturs eftir sprungustefnunni sem einkennir eldstöðvarnar á vestanverðum Reykjanesskaganum.

Í jarðsögu Íslands hafa sprungugos flest orðið undir jökli og skilið eftir móbergsmyndanir eins og hina áhugaverðu móbergshryggi en slíkar jarðmyndanir finnast hvergi annars staðar. Fátíðari eru gígaraðir sem myndast hafa á Nútíma eða eftir að ísaldarjöklarnir hurfu. Eldvörp eru eins konar smækkuð útgáfa af Lakagígum, frægustu gígaröð landsins og eru þau á náttúruminjaskrá.  Gígarnir eru lítt snortnir en ekki var óalgegnt á árum áður að jarðminjum af þessum toga væri mokað í burtu og efnið notað sem undirlag í vegi og húsgrunna. Mikil verðmæti felast þessvegna í því að eiga slíka perlu tiltölulega ósnortna  í nágrenni við þéttbýlið með tilliti til möguleika í ferðaþjónustu og útivist.

Ljóst er orðið fyrir löngu síðan hvað bæjaryfirvöld í Grindavíkurbæ og HS Orka ætla sér að gera við Eldvörpin. Sú siðlausa eyðilegging sem þar er í vændum á sér varla hliðstæðu.  Bæjaryfirvöld hafa nú þegar ákveðið sig enda er alkunna þóknunarsemin og þrælslundin þar á bæ þegar HS Orka á í hlut. Deiliskipulag vegna rannsóknarborana í Eldvörpum hefur verið auglýst undanfarið en umsagnarfrestur rennur út í dag. Þar er gert ráð fyrir fimm risastórum borteigum nánast ofan í gígaröðinni. Geta þessir borteigar hver um sig orðið allt að 7500 fermetrar að stærð. 

Fróðlegt er að kynna sér álit Skipulagsstofnunar á þessum framkvæmdum en þar segir m.a:
„Stofnunin er sammála því sem komið hefur fram í framlögðum gögnum um mikilvægi óraskaðra og lítt raskaðra svæða eins og Eldvarpasvæðisins til útivistar og ferðamennsku í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Ljóst er að áhrif af gerð borplana og borun verði neikvæðari því nær sem farið er Eldvarpagígaröðinni og að eðli málsins samkvæmt verða umhverfisáhrif meiri eftir því sem fleiri holur verða boraðar og fleiri borplön útbúin.“

Einnig:

„Hvað varðar áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á aðra umhverfisþætti þá telur stofnunin að áhrif þeirra á jarðmyndanir verði staðbundið talsvert neikvæð, vegna rasks á eldhrauni en umfang þeirra áhrifa fer eftir því hvort að unnt verður að byggja borplön beint ofan á óhreyft hraun eða hvort þarf að raska því. Skipulagsstofnun telur að áhrif á gróður verði staðbundið talsverð neikvæð þar sem um er að ræða nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu.“

Hér er hægt að lesa nánar um um Eldvörpin og skoða myndir af þessari stórbrotnu náttúruperlu, sem senn verður lögð í rúst í boði HS Orku og Grindavíkurbæjar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni