Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Á íslensku má alltaf finna sama svar

Á íslensku má alltaf finna sama svar

Núllsummuleikurinn

„Um það geta vissulega allir verið sammála, að þýzkir Gyðingar hafa verið miklu harðræði beittir og hafa fulla þörf fyrir hjálp. Alveg sérstaklega gildir þetta um börnin, sem verst þola erfiðleikana og hafa minnsta getu til að bjarga sér. En hins verður jafnframt að minnast, að möguleikar okkar til aðstoðar eru þeim takmörkum bundnir, að hjálpin verði ekki á kostnað þeirra einstaklinga hjá okkur, sem ekki eru síður þurfandi fyrir aðstoð. Þótt það sé gott og göfugmannlegt að hjálpa útlendu fólki, stendur hitt samt vafalaust nær, að hjálpa fyrst þeim, sem eru þess þurfandi hér.“

Svona hefst niðurlag greinar eða fréttar, það er óljóst – texta – sem birtist á forsíðu Tímans, 2. maí 1939, til varnar þeirri ákvörðun Hermanns Jónassonar forsætisráðherra að synja Katrínu Thoroddsen lækni um dvalarleyfi fyrir barn vina sinna, austurrískra gyðinga, sem hún sóttist eftir að taka í fóstur haustið þar áður. Faðir barnsins hafði þá þegar verið sendur í fangabúðir og móðirin verið boðuð en vildi koma barni sínu í skjól. Það tókst ekki. Katrín var ekki ein á ferð heldur sótti Friðarvinafélagið, fyrir hennar hönd og annarra, um dvalarleyfi fyrir tíu til tólf börn í sömu sporum. Ráðherrann synjaði þeim öllum. Og dagblaðið hans spilaði með. Á þessari fréttagrein má sjá hvað hefðin fyrir því er löng, meðal íhaldsafla á Íslandi, að gera samstöðu með ofsóttum útlendingum tortryggilega með því að stilla velferð aðkomufólks upp á móti velferð heimamanna, sem þurfi að velja. En líkindin milli orðfærisins þá og nú eru fleiri.

Og svarið er …

Framsetningarmáti þessara varna er raunar svo kunnuglegur að „líkindi“ er varla nothæft orð. Þeir sem flytja hliðstæðan málstað í dag, það er, verja að jafnaði brottvísanir flóttafólks og synjanir umsókna um vernd, setja málstaðinn fram með næstum alveg sama hætti og á fjórða áratug síðustu aldar. Engin Dyflinnarreglugerð var þá til staðar og raunar bara tvö ár síðan Ísland tók upp vegabréfaeftirlit yfirleitt. Þá mátti hins vegar spinna upp hliðstæðar fyrirstöður á staðnum: Hermann Jónasson spurðist fyrir meðal hinna Norðurlandanna, segir Tíminn, hvernig þau færu að með svona umsóknir. Það hafi verið að þeirra fordæmi sem hann sagði Friðarvinafélaginu að tryggja „að aðeins væri um bráðabirgðadvöl að ræða og að börnunum væri tryggt innflutningsleyfi til annars lands innan ákveðins tíma“. Félagið hafi ekki uppfyllt þetta skilyrði, enda illuppfyllanlegt á stríðstímum, og umsóknin því fallið, alveg Schengen-laust, á klæðskerasaumuðu tækniatriði.

Til að bíta höfuðið af skömminni, hefst þessi forsíðugrein Tímans, í maí 1939, á þeim orðum að umfjöllun um málið sé „einelti“ í garð forsætisráðherra. Ráðherrar Framsóknarflokksins voru með öðrum orðum lagðir í einelti, af fjölmiðlum, fyrir að vísa útlendingum í vísan dauða, hálfri öld áður en nokkrum hugkvæmdist að börn væru lögð í einelti á skólalóðum. Við búum í forvitnilegu tungumáli.

Gæskuskömmun

Frasinn um „góða fólkið“ er nýleg smíð, í þeirri kaldranalegu merkingu sem honum hefur verið gefin. Orðið „kommúnisti“ fól þó kannski í sér skylda ásökun þegar því var beitt sem hnjóðsyrði. Afstaðan að baki orðalaginu kemur í öllu falli skýrt fram í fréttatexta Tímans fyrir 76 árum síðan:

„Það vill því miður stundum henda,“ segir Tíminn, „þegar menn sýna mannúð, að þeim sé það nokkurt ánægjuefni að því sé veitt athygli af almenningi. Þetta kemur fram á ýmsan hátt og getur m.a. birzt þannig, að fólk, sem tekur barn til fósturs, vill heldur taka útlent barn en íslenzkt, sökum þess, að það vekur meiri eftirtekt. Hinsvegar er vitanlegt, að mörg börn, sem búa við óhæfileg kjör á ýmsan hátt, hafa verið og eru að alast upp hér á landi. Þessum hinum verðandi íslenzku þjóðarþegnum þarf að hjálpa og til þess eiga bæði velmegandi einstaklingar og það opinbera að gera sitt ítrasta. Slíkt er engu ómannúðlegra en að hjálpa Gyðingabörnum, en stendur okkur hinsvegar miklu nær.“

„… getur m.a. birzt þannig, að fólk, sem tekur barn til fósturs, vill heldur taka útlent barn en íslenzkt, sökum þess, að það vekur meiri eftirtekt.“

Nóg hefur kannski verið rætt um svona gæskuskömmun undanfarnar vikur. Ég held þó að hugsanlega megi draga fram eina forna hlið hennar: nokkrum árum fyrir umfjöllun Tímans kom út skáldsagan En flyktning krysser sitt spor eftir dansk-norska höfundinn Aksel Sandemose. Þar setur hann fram hugtakið Jante-lögin, sem hefur síðan bergmálað milli kynslóða á Norðurlöndum, þó að höfundurinn virðist nánast gleymdur. Heiti laganna vísar til smábæjar með þetta nafn, Jante. Með lögunum vill höfundurinn lýsa því sem hann segir kröfu allra smásamfélaga til meðlima sinna um að stinga ekki um of í stúf við hina. Lagagreinarnar eru tíu: Þú skalt ekki halda að þú sért spes, þú skalt ekki halda að þú sért klárari en við, og svo framvegis. En ekki síst: þú skalt ekki láta eins og þú sért betri en við. Lögunum fylgir, í framsetningu Sandemose, eitt hegningarákvæði: Þú heldur kannski að við vitum ekki sitthvað um þig …? Ef til vill væri ekki úr vegi að þessi bók kæmi einn daginn út í íslenskri þýðingu. Í öllu falli virðist eitthvað í ætt við Jante-lögin hafa legið að baki hugtakinu „góða fólkið“, ekki síður en fréttatexta Tímans 1939.

Þvættingurinn

Hvað þá með ráðherrann sjálfan? Hvernig svaraði Hermann Jónasson fyrir sig? Mál austurrísku barnanna ber á góma á Alþingi sex árum síðar, að stríðinu loknu. Haustið 1945 er Hermann meðal stuðningsmanna þingsályktunartillögu um að þeim Þjóðverjum sem Bretar fluttu frá Íslandi verði veitt ný dvalarleyfi á landinu og það með hraði. Andstæðingar tillögunnar vilja að fyrst verði rannsakað hverjir þeirra hafi verið virkir nasistar og hugsanlega átt hlut í njósnum eða annarri slíkri starfsemi á vegum þriðja ríkisins. Hermanni er hins vegar kappsmál að málið gangi sem hraðast fyrir sig, það þoli enga bið. Það er Einar Olgeirsson sem minnist á gyðingabörnin frá Austurríki í þessu samhengi, og sakar Hermann um kynþáttahyggju. Hermann svarar:

„Það hefur verið sagt hér, að ég hafi sýnt ákaflega mikla óbilgirni með því að leyfa ekki austurrískum börnum að flytja hingað til landsins. Það má náttúrulega alltaf deila um þá hluti. En svo mikið er víst, að samkvæmt þeim upplýsingum, sem við höfum aflað okkur, sem um þetta mál höfum fjallað, höfðu Íslendingar leyft fleiri flóttamönnum Gyðinga landsvistarleyfi, ef miðað er við fólksfjölda, heldur en nokkur önnur Evrópuþjóð. Og það var sennilega ekki af öðrum ástæðum en þeim, hve mörgum flóttamönnum hafði verið leyft að koma hingað til landsins, konum, mæðrum og börnum, að þetta leyfi var ekki veitt. Það má náttúrulega alltaf um það deila, hvar eigi að setja takmörkin fyrir þessum leyfum. Og það er vitað mál, að hér var tiltölulega margt af landflótta Gyðingum þá, og við Íslendingar höfum vissulega tekið okkar skerf af því að leyfa þeim landvist.“

Veruleikinn

Samkvæmt færslunni um Ísland í uppflettiritinu Encyclopedia of the Jewish Diaspora bjuggu fimmtán gyðingar á Íslandi árið 1936. Frá árinu 1939 tók Ísland á móti flóttafólki en færra fólki þó, samkvæmt sömu heimild, en nokkurt annað Evrópuríki – miðað við fólksfjölda. Aftur á móti kemur fram að Ísland átti, á þessum tíma, Evrópumetið í fjölda brottvísana flóttafólks – miðað við fólksfjölda. „Einhverju flóttafólki var bjargað, flestu fyrir tilstilli Hendriks Ottóssonar,“ segir í ritinu. Sem er önnur og lengri saga.

Með öðrum orðum lítur út fyrir, á meðan ekki hefur komið fram heimild um annað, að Hermann Jónasson hafi bullað sig út úr klípunni. Það hefur létt velviljuðum blaðamönnum lífið, auðveldað þeim að forðast þann skandal að, sem forsætisráðherra, meinaði Hermann nokkrum íslenskum fjölskyldum að forða nokkrum útlenskum börnum undan morðóðum föntum. Að hann hefði getað sagt já en valdi að segja nei.

Það er ekki nógu gott. Og það er ekki lengra síðan en svo að hefðu börnin lifað væru þau um áttrætt í dag. Við skulum vera á varðbergi, ef einhver skyldi, einn daginn, vilja grípa til svipaðra mælskubragða frammi fyrir hliðstæðum áskorunum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu