Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ekki einu sinni skran

Ekki einu sinni skran

Eitt af lykilorðum þessa söguskeiðs, ef ekki lykilorðið sjálft, er innovation, sem hefur á íslensku verið þýtt sem nýsköpun, orðskrípi sem virðist gefa til kynna að sköpun, ein og sér, feli ekki í sér neitt nýtt eða í það minnsta ekki nógu nýtt. Hingað til hefur heimurinn aðeins verið skapaður, nú er kominn tími á að nýskapa hann …

Hvað um það – þó að þetta orð sé notað af hvaða skransala sem telur sig geta grætt á að virðast vera í sterku miðilssambandi við Steve Jobs og hafa komið höndum yfir galdrasápuna sem breytir úthverfabílskúrum í kínverskar risaverksmiðjur og hippum í harðstjóra – þó að orðið sjálft sé fyrst og fremst hugmyndafræðilegt álfaryk, þá er það frekar góðkynja að því leyti sem það felur í sér loforð um uppfinningar. Kapítalisminn kúgar, arðrænir, hrekur fólk af heimilum til sjálfsmorða, framleiðir styrjaldir, hnatthlýnun og mismunun, svo fátt eitt sé talið – en í þessu orði, nýsköpun, skín þá samt í gegn bjarta hliðin, loforðið um það sem fórnir annarra skila þeim lánsömu: að þetta batterí hvetji til uppfinninga sem geri líf þeirra sem njóta notalegra.

Hver man ekki eftir slögurum á við járnbrautarlestir, ljósaperur, sporvagna, einkabíla, farþegaflug, þvottavélar, fartölvur, snjallsíma, bikiní, gosdósir, gervisykur og Arla skyr? Í bandarískum fátækrahverfum standa auglýsingaskilti sem minna á að aspirín getur slegið á hungur fyrir minni pening en matur – og afsakið, þetta átti ekki að vera svona kaldranalegt, það sem ég á við er að uppfinningar eru frábæra hliðin á þessu undarlega og mannskæða hagkerfi okkar. Þær hrökkva kannski skammt en þær eru eina hugsanlega réttlætingin á öllu ruglinu. Og helsta slagorð kapítalismans um þessar mundir, nýsköpun, er loforð um uppfinningar: ef við fáum að græða, segja þeir sem þegar hafa grætt, fáið þið einn daginn eitthvað ennþá betra en iPhone. Þannig hljómar díllinn, samfélagssáttmálinn sem enginn skrifaði undir frekar en venjulega.

Þeir sem lofa uppfinningum kalla sig frumkvöðla. Orðsifjarnar þekki ég ekki fyrir víst en það hljómar eins og þeir kveði þá eitthvað nýtt, frekar en hafa eftir gamlar vísur eingöngu. Það væri frábært. Góð vísa verður seint of frumkveðin.

Nú lítur hins vegar út fyrir að nokkur hópur fólks skreyti sig með öllum þessum orðum án þess að ætla að gera neitt nýtt. Án þess að finna neitt upp. Þvert á móti, þá eru frumkvöðlar búnir að hella bensíni yfir nokkur tæki sem voru smíðuð fyrir löngu síðan, virka vel og skipta svo miklu máli að jafnvel sjálfstýrðir bílar frá Google munu blikna í samanburði. Íslenskir frumkvöðlar vilja taka yfir rekstur heilbrigðiskerfisins og hóta, að öðrum kosti, að kveikja í því.

Látum liggja á milli hluta hversu marga það mun drepa að hafa val, eins og lagt hefur verið til, um „gull, silfur og bronsþjónustu“ í heilbrigðiskerfinu – og hversu kerfisbundið lífárin verða sneidd af ákveðnum samfélagshópum til að færa þau öðrum. Geymum spurninguna hver myndi gerast líffæragjafi innan skipulags þar sem líffærin rata eftir einstefnugötu, upp tekjustigann, hvaða bronsmeðferðarsjúklingur fellst á að deyja til að gefa kvalara sínum í gulldeildinni hjartað eða lifrina úr sér. Leggjum líka til hliðar rannsóknirnar sem sýna að á Íslandi er einkarekstur óhagkvæmari en opinber rekstur, og allt annað sem við vitum: að enginn græðir á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu nema efri lög Sjálfstæðisflokksins.

Merkilegra en allt þetta er hugsanlega sú andlega gjaldþrotayfirlýsing sem þessi hugmynd felur í sér: ef íslenskir athafnamenn hafa ekkert betra við tíma sinn og peninga að gera en hóta íkveikjum til að murka úr okkur sem mest þegar við liggjum veikust fyrir, þá er engin ástæða til að leyfa þeim lengur að athafna sig. Samningurinn sem við skrifuðum aldrei undir var hugsanlega afleitur til að byrja með, en þarna er hann nú samt: að þau megi brjóta það sem brotnar en gleðji okkur á móti með nýstárlegu skrani við og við. Án draumsins um skranið er ekkert eftir og tímabært að afturkalla leyfið. Segja skýrt, eins og við börn í frekjukasti: nei, þið fáið ekki meira.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu