Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Besti 17. júní ever!

Besti 17. júní ever!

Nótt eina í janúar 1932 gerðu útgerðarmenn í Keflavík leit að Axel Björnssyni, formanni Verkalýðsfélags Keflavíkur, sem hann hafði þá dvalið í bænum til að stofna og skipuleggja undanliðið ár. Daginn áður hafði verkalýðsfélagið gripið til aðgerða og bannað löndun afla úr skipi sem lá við höfn, til að knýja útgerðarmenn til samninga við félagið. Axel hafði haft spurnir af því að menn vildu ganga í skrokk á sér fyrir þetta og dvaldi því hjá vini þessa nótt. 20-30 manna hópur, eins og sagt er frá í blöðum á þessum tíma, gerði leit að Axel – og fann hann. Með í för var hreppstjórinn á staðnum.

Axel lætur þau boð ganga að hann geti talað við mennina þegar morgni og símar opni á ný, hafi þeir tilboð að gera félaginu. Þeir segjast halda nú ekki. Fimm til sex manns ryðjast inn í herbergið til hans. Þeir hafa í hótunum, skipa Axel að klæða sig og koma með sér, færa hann um borð í bát og flytja þannig nauðugan til Reykjavíkur. Á leiðinni var Axel geymdur í lúkarnum. Í það minnsta hluta úr leið óttaðist hann að mennirnir ætluðu að drekkja sér, enda virðist það hafa komið til tals.

Þegar báturinn kom til lands í Reykjavík fór Axel rakleiðis til lögreglu og kærði mannránið. Mannræningjarnir, hins vegar, fóru á fund Dómsmálaráðherra og áttu við hann óformlegt kaffispjall. Þeir komust hindrunarlaust aftur til Keflavíkur. Síðar um árið voru þeir yfirheyrðir, eftir dúk og disk, en eftir því sem ég kemst næst dagaði málið uppi ákærulaust. Morgunblaðið skrifaði mikið um rétt „Keflvíkinga“ – eins og þeir væru allir sem einn fjármagnsins megin í deilunni – til sjálfsvarnar gegn „sósíalistabroddum“. Ríkið virðist hafa varið þann rétt, með sínu lagi.

Axel er langafi minn í móðurætt. Um málið var mikið skrifað á sínum tíma – þessari færslu fylgir skopmynd Spegilsins af atburðinum – en ég held þó að ég hefði ekki heyrt af því ef ekki væri fyrir fjölskyldutengslin. Sem er skrítið – og samt ekki: líklega er þetta aðeins eitt af aragrúa atvika úr sögu þessa lands sem kafna alla jafna í mærðinni, opinberu 17. júní sögunni af samstöðu þjóðarinnar og svo framvegis.

Ég er áreiðanlega ekki einn um að vera svolítið hrærður eftir gærdaginn, að mærðin hafi örlítið hnjaskast. Að nú hafi heyrst ögn hærra í fólkinu sem byggir þetta land en hvaða viðrini sem stóð í pontu þetta árið til að minna okkur á hversu mikið við eigum mannræningjum okkar að þakka. Ef við erum öll á sama báti, eins og þeir vilja gjarnan halda fram, siglir sá bátur að næturþeli á meðan sum okkar liggja bundin í lúkarnum. Svo að segja. Þessi mótmæli voru afar tímabær. Takk.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni