Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hraðpeningar

Hraðpeningar

Dólgakapítalistar eru hættulegastir allra kapítalista. Það voru til dæmis dólgakapítalistar sem rændu og rupluðu öllum auðæfum Rússlands, þegar Sovétríkin hrundu í kringum 1990. Þetta eru gaurarnir sem kallast „ólígarkar“ í dag og lifa enn góðu lífi á þeim auðæfum sem þeir sölsuðu undir sig.

Náskylt þessu fyrirbæri eru íslenskir pilsfaldakapítalistar. Þetta eru menn sem vilja komast í almannfé í skjóli kapítalisma og einkaframtaks. Það er gjarnan gert í yfirskyni einhverra góðra hluta, til dæmis menntunar.

Í Fréttablaðinu þann 7.júní síðastliðinn birtist grein frá einum af þessum pilsfaldakapítalistum, sem vill óður og uppvægur komast í almannafé til þess að sukka með það. Í skjóli menntunar. Hversu lágt er hægt að leggjast?

Þessi pilsfaldakapítalisti lýsir því í greininni hvernig hann hefur grátbeðið núverandi menntamálaráðherra að láta sig fá pening í eitthvað sem hann kallar ,,einkaskóla“.

En það versta er að þessi pilsfaldakapítalisti fékk fyrir nokkrum misserum séns til þess að reka þennan blessaða ,,einkaskóla“ á kostnað ríkisins (les: almennings) en klúðraði því gjörsamlega.

En það stoppaði hann ekki í að moka milljónum á milljónir ofan, ofan í eigin vasa! Upplýsingar um það má finn í allskonar fréttum sem birtust um málið og eru þær á internetinu.

Þetta er náttúrlega snilldarleg viðskiptahugmynd: Að fá ,,þjónustusamning“ frá ríkinu, fullt af monní og geta svo kannski bara farið að spila golf á Flórída, eða gera eitthvað annað skemmtilegt. Hver veit? En hugmyndin er gjörsamlega siðlaus og fellur því flöt.

Þessi skóli (sem var lokað) kenndi sig við hugtakið ,,hraða“ en mesti hraðinn var sennilega á peningunum ofan í vasa þess sem stjórnaði þessum skóla.

En nú er enginn hraði á neinum peningum í vasa þess sem var á toppnum. Og það er viðkomandi ekki ánægður með og vill því endurtaka leikinn. Komast í kjötkatla ríkissjóðs! Og grenjar utan í menntamálaráðherra, vill fá aukinn hraða á fjárstreymið frá ríkinu. Eins og hann lýsti í grein sinni, sem lesa má á vefsíðunni visir.is. 

Sumt er bara svo glatað, heimskulegt og hallærislegt að það nær ekki nokkurri átt. Því verður að stoppa slíka vitleysu í fæðingu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu