Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Gamma(r) og innviðir - einkakapítalið hérlendis vill komast í innviðina og sér þar feita möguleika

Gamma(r) og innviðir - einkakapítalið hérlendis vill komast í innviðina og sér þar feita möguleika

Nú í vikunni kom út skýrsla frá fyrirbæri sem heitir GAMMA og ku vera verðbréfafyrirtæki. Í skýrslunni er verið að fjalla um nauðsyn þess að fjárfesta í innviðum á Íslandi, því sem á ensku er kallað ,,infrastructure“. Með því er átt við öll helstu burðarkerfi samfélagsins, vegir, rafmagns og orkudreifing og þess háttar.

Rómaveldi og Járnfrúin

Í skýrslunni, sem er 52 blaðsíðna löng og fallega myndskreytt, er farið yfir sviðið í þessum málum hérlendis.  Meðal annars er vísað allt aftur til Rómaveldis og innviðauppbyggingar þess í Evrópu, en Rómverjar lögðu grunninn að vegakerfi álfunnar, til þess að geta stundað heimsvaldastefnu sína (Imperíalisma).

Í skýrslunni er einkavæðingin í Bretlandi á dögum Margaret Thatcher, 1979-199, rifjuð upp og sagt að hún sé fyrirmyndin að álíka aðgerðum í mörgum öðrum löndum. En óhætt er að segja að aðgerðir hennar séu mjög umdeildar og hefur það verið nefnt að hennar ,,prógram“ hafi leitt til aukinnar misskiptingar í Bretlandi. Hér á landi á ,,Járnfrúin“ enn dygga stuðningsmenn á hægrivæng stjórnmálanna.

Í frétt um þessa skýrslu í Fréttatímanum er sagt að Gamma álíti það rökrétt (lógískt) að ríkið selji eignir sínar til einkaaðila. Í skýrslunni er rökin fyrir einkavæðingunni  meðal annars þau að það sé miklu meiri sveigjanleiki hjá einkaaðilum, sem byggi fyrir lægri kostnað og að einkaaðilar geti hafið verkefni með miklu sneggri hætti, en ef um opinbera aðila væri að ræða. Vitnað til nokkurra verkefna í Noregi og Svíþjóð, sem þó hafa sennilega öll farið í gegnum þinglega/opinbera meðferð áður en þau voru hafin.

Hið brennandi hús – óskhyggja ESB-andstæðinga?

Árið 2009 sótti Ísland um aðild að ESB. Sú vegferð var langt á veg komin veturinn 2012, þegar ákveðið var að leggja þá vinnu til hliðar vegna kosninga sem fram fóru vorið 2013. Það var gert til þess að ESB-málið væri ekki að ,,þvælast fyrir“ innanlandsmálunum.

Eftir þessar kosningar komst Sigmundur Davíð og kompaní til valda. Allir vita jú að það fólk hatar ESB eins og pestina og lýsir Evrópu gjarnan sem ,,brennandi húsi“ – líkt og um sanna óskhyggju sé að ræða. Við skulum svo sannarlega vona að Evrópa verði aldrei aftur brennandi hús, líkt og gerðist 1939-1945!

Þetta sama fólk er líka fulltrúar hagsmunaafla sem byggja nánast alla sína afkomu á einokun og engri samkeppni og því að Íslandi verði haldið fyrir utan ESB.

Að frysta ESB-málið, með hjálp afturhaldsmanna eins og Jóns Bjarnasonar, voru mikil mistök. Það eru miklir hagsmunir í því fólgnir fyrir Ísland að klára þetta mál, enda virtist Bjarni Benediktsson meira að segja vera kominn á þá skoðun um tíma, þegar hann lofaði þjóðaratkvæði um málið á seinni hluta kjörtímabilsins, sem lauk núna með ,,Hrekkjarvökukosningunum.“

Bannað að hugsa um ESB!

En auðvitað var Bjarni bara að slá ryki í augu kjósenda, það stóð aldrei til að hafa þessa atkvæðagreiðslu og hún afskrifuð með einhverjum óskilgreindum ,,pólitískum ómöguleika.“ Þar skorti verulega á hinn pólitíska kjark. Það sem Bjarni Benediktsson þarf að læra af þessu er að menn eiga ekki að lofa því sem þeir geta ekki staðið við. Vonum að svo verði.

En af hverju er ég að tala um ESB í sambandi við þetta? Jú, með aðild að ESB-myndu Íslendingar frá aðild að byggðastefnu og styrkjakerfi ESB. Þar er meðal annars veitt fjármagni, til dæmis 50% ríkið og 50% ESB, til inniviðaframkvæmda. Meðal annars vegagerðar, en hér á landi er vegakerfið hreinlega á köflum komið að hruni, vegna álags. Þá er það einnig lífshættulegt á köflum, m.a. hinar hræðilegu einbreiðu brýr.

Gott dæmi um land sem notið hefur ríkulega af þessu kerfi ESB er Pólland. Allt frá því að landið gekk í ESB árið 2004 (Austurstækkunin) hefur gríðarlegu fé úr sameiginlegum sjóðum ESB verið veitt til innviðaframkvæmda. Og á árunum 2014-2020 fær Pólland tæpa 83 milljarða Evra til uppbyggingar; allt frá vegum og umhverfisvænum samgöngum,  til netvæðingar og grænnar orku og rannsókna og þróunar. Þetta er um 10.800 milljarðar ÍSK, eða um 6-7 sinnum þjóðarframleiðsla Íslands.

Lítil ríkistjórn – engin afskipti

En þetta má ekki leyfa Íslendingum að hugsa um, hvað þá að taka afstöðu til. En er inni í myndinni að hleypa íslenskum ,,gömmum“ að kötlunum? Hér skal okkur haldið utan við ESB, hvað sem það kostar og okkur skal ekki einu sinni líðast að hugsa um málið.

Kannski er það bara þannig að okkur Íslendingum verður smám saman stýrt í átt til þess sem kallað er ,,small-government“ (lítil ríkisstjórn) og er blautasti draumur frjálshyggjumanna. Ríkisstjórn sem skiptir sér sem minnst af hlutum og lætur einkaaðila vera eftirlitslausa og sér um lítið annað en að halda uppi lögum og reglu og sjá um landvarnir. Það myndi væntanlega fela í sér lægri skatta og aukna kostnaðarþátttöku almennings á flestum sviðum, s.s. menntun og heilsugæslu.

Er það framtíðin sem við viljum?

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni