Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Brexit: Breskir kjósendur voru blekktir

Brexit: Breskir kjósendur voru blekktir

Fáar þjóðir en Bretar hafa fengið jafnmikla sérmeðferð (og sérúrræði) innan ESB, frá því að þeir gengu í sambandið árið 1973. Þeir héldu pundinu og þurfa því ekki að taka upp Evru þegar hún var tekin í gagnið, fengu að hafa sinn eigin seðlabanka og geta því ákveðið sitt eigið vaxtastig (sem er að sjálfsögðu haft á pari við Evrópu, annað væri viðskiptalífinu dýrt) og þeir þurftu ekki að taka þátt í Schengen-samstarfinu um landamæramál. Þeir fengu líka undanþágur (opt-out) vegna mannréttindamála og samvinnu um dómsmál. Um allar þessar undanþágur má lesa hér.

"Gulla-gull"

Þeir hafa því verið einskonar „gulla-gull“ innan sambandsins. En samt verið hundfúlir innan þess. Hinn almenni Breti hefur getað háttað lífi sínu nákvæmlega eins og hann hefur viljað á þessum tíma; keypt það sem hann vill í matinn, valið sér breskan, franskan eða þýskan bíl, farið óhindrað í öll ferðalög, fengið sína heilsugæslu og menntun (sem Bretar stjórna sjálfir) og þess háttar.

Þá hafa Bretar einnig notið víðtækra styrkja úr allskyns sjóðum ESB, meðal annars dreifbýlisstyrkja. Og nú þegar landið hefur samþykkt að ganga út úr ESB, þá fara að renna tvær grímur á menn, því það er alls ekki vitað hvað er í boði í staðinn. Útgöngusinnar eru ekki með neitt plan og það eina sem bíður Breta næstu mánuði og jafnvel ár er óvissa og óöryggi. Og það fílar viðskiptalífið og fjárfestar alls ekki, það er eitur í þeirra beinum.  

Alheimsáhrif

Málið hefur áhrif um allan heim, já alla leið til Ástralíu (hluti af breska samveldinu), sem hefur haft mikil viðskipti við ESB, einmitt í gegnum Bretland. Og í áhugverðu viðtali á BBC, sagði háttsettur maður innan viðskiptalífsins á Indlandi (sem er eitt af hraðast vaxandi hagkerfum heims og hluti af breska samveldinu sem gömul nýlenda Breta) að það væri alls ekki hátt á forgangslistanum að gera samninga við Bretland eftir „Brexit“ – miklu mikilvægara væri að gera samninga við ESB, sem væri meira en fimm sinnum stærri markaður en sá breski.

Það sem virkilega hefur áunnist með Brexit er að kljúfa þjóðina í herðar niður. Hugtakið ,,United Kingdom“ á ekki lengur við, heldur miklu frekar sundrað konungsveldi (Divided Kingdom). Íbúar Skotlands, N-Írlands, London og ungt fólk (undir 40 ára) eru dæmi um hópa sem allir eru hundóánægðir með niðurstöðuna, enda nokkuð ljóst að boðað verði til kosninga um sjálfstæði Skotlands á næstu misserum. Þá hefur spurningin um sameiningu Írands einnig fengið byr undir báða vængi. Jafnvel hafa heyrst raddir um að London skeri frá Englandi til að geta verið í ESB.

Öfgaöflin græða

En hverjir græða á þessu? Jú, öfgaöfl og flokkar yst til hægri í Evrópu, allt frá Svíþjóðardemókrötum, stuðningsmanna Marin Le Pen í Frakklandi og Geert Wilders í Hollandi, til nýnasista í Grikklandi og ,,Kremlarforingjans“, Pútíns. Hann á enga ósk heitari en að sá veikari Evrópu og veikara ESB. Þannig getur hann betur haldið áfram uppteknum hætti og ástundað einræðistilburði sína, til að mynda að innlima landsvæði (eins og Hitler og Stalín gerðu), eins og dæmið frá Krímskaga sannar. Við skulum heldur ekki gleyma hinu utanríkispólitíska flóni Donald ,,they love me“ Trump, sem sagði í Skotlandi (þar sem hann vara að vígja golfvöllinn sinn) að Brexit væri frábært. Öll héruð í Skotlandi kusu að vera áfram í Evrópusambandinu!

Beint í dúpu laugina

Niðurstaðan úr Brexit er í raun þessi: Bretar kusu að henda sér út í djúpu laugina, án þess að hafa hvorki kút né kork. Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir höfðu, en nú vita þeir ekkert hvað þeir fá í staðinn. Enginn veit það. Á tímum þegar atvinnuástand hefur sjaldan verið betra í Bretlandi! Og í þokkabót sagði einn farsælasti leiðtogi Íhaldsmanna, David Cameron, af sér forsætisráðherraembætti. Sem vann einn stærsta og mesta kosningasigur í sögu flokksins í síðustu kosningum. Hann vildi vera áfram í ESB, en tapaði og tekur því pokann sinn. Sem er í sjálfu sér eðlilegt. 

Einnig mun hann hætta sem formaður flokksins og við tekur því grimmileg valdabarátta á næstu vikum og mánuðum þar sem tekist verður á um formennskuna. Hver á þá að sjá um að græja Brexitið, sem ESB vill drífa í gang?

Blekkingar út-sinna

Og það versta er; breskir kjósendur voru blekktir af „út-sinnum“ með loforðum sem þeir viðurkenna nú að þeir hafa enga möguleika á að uppfylla. Samanber þetta hér. Þetta er aðeins einn skammarbletturinn á þeirri lygataktík sem „út-sinnar“ beittu og er lýðskrum af verstu gerð. Svona leika menn sér að lýðræðinu til að þjóna eigin metnaði og valdagræðgi. Það veit ekki á gott. Spilað var á ótta og hræðslu, útlendingahatur og elsta ,,trixið“ í bókinni; ,,við gegn þeim“.

Þá er enginn fótur fyrir fullyrðingum á borð við að innflytjendur taki vinnu frá Bretum og lifi bara á bótum. Hið rétta er að fjölmargir innflytjendur vinna störf sem Bretar vilja ekki vinna og borga langtum meiri skatta heldur en þeir fá í bætur eða greiðslur frá breska ríkinu. Hvort tveggja hefur verið notað af „út-sinnum“ til þess að hræða fólk og vekja andúð á innflytjendum. Í þessu samhengi má svo benda á að milljónir Breta eru ,,innflytjendur“ í öðrum Evrópulöndum, sjálfsagt flestir að vinna, en sumir kannski á bótum líka. Þetta mun hafa alvarleg áhrif fyrir þá. Þeir munu missa ýmis réttindi og fríðindi sem fylgja ESB.

Óbreytt ástand hér heima

Fyrir áhugafólk um stjórnmál og efnahagsmál í Evrópu og víðar verða næstu mánuðir mjög áhugaverðir, hvernig spilast úr þessu öllu saman. En hefur þetta áhrif hér á Íslandi? Á umræðu um Evrópumál? Erfitt að segja, en það sem er á hreinu eru að ráðandi öfl munu gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að kæfa umræðuna, enda stjórna sterkir sérhagsmunir hinna fáu (á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar) sem þrífast best án aðildar að ESB og í skjóli spillts landbúnaðar og kvótakerfis því að Íslendingar fá ekki að taka rökræna afstöðu til Evrópu og ESB. Og svo segja menn að ESB sé ólýðræðislegt!

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni