Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Ísland, vinnutími og tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar: Aðgerða er þörf

Ísland, vinnutími og tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar: Aðgerða er þörf

Í erlendum fjölmiðlum hefur undanfarin ár verið rætt um það sem kallað hefur verið fjórða iðnbyltingin, en þar er átt við framþróun í tækni og sjálfvirknivæðingu sem byrjuð er að eiga sér stað, og tilheyrandi áhrif þessar þróunar á vinnumarkaðinn um allan heim. Þessi umræða hefur að mörgu leyti snúist um hver áhrif þróunarinnar verði á störf framtíðarinnar – þá hvort og hversu mörg störf muni hverfa, hvaða störf eigi að koma í staðinn, og í þessu samhengi hvort þurfi að bregðast við þessum breytingum (sjá t.d. hér). Umræðan erlendis er á margan hátt farin að snúast um hvort ríkisvaldið verði að bregðast við, en líka hvernig ríkisvaldið verði að bregðast við.

Það er ekki af ástæðulausu sem fólk hefur velt þessum breytingum fyrir sér, vegna þess að áhrifin geta orðið mjög mikil: Mörg störf eru talin munu verða fyrir áhrifum af þessari tækniþróun, og mörg eru jafnvel talin munu hverfa. Áhrifin af því geta svo aftur orðið mikil, enda er starf og vinna ein leið til að dreifa auði – við fáum greitt fyrir að vinna vinnu, og þökk sé því getum við eignast eignir. Skipulag vinnumarkaðarins getur raskast vegna þessara breytinga. Sum störf eru nú þegar tekin að hverfa vegna þessara breytinga, og fyrirtæki eru byrjuð að spretta upp sem sérhæfa sig í sjálfvirknivæðingu.

Til að setja möguleg áhrif þessar fjórðu iðnbyltingar í skiljanlegra samhengi, þá má nefna að þegar Ísland gekk í gegnum sína seinni iðnbyltingu milli um 1900 og 1940 – með vélvæðingu í sjávarútvegi og landbúnaði, ásamt rafvæðingu – þá varð mikil þéttbýlismyndun á Íslandi, nýjar iðngreinar urðu til, sjávarútvegurinn varð mikilvægari, búsetuhættir gjörbreyttust, stéttarfélög fóru að myndast, ríkisvaldið varð öflugra, og svo framvegis. Þetta voru miklar breytingar þar sem mjög margt gekk á og um margt var togast í samfélaginu, enda margt að breytast og finna varð annað skipulag fyrir margs konar gangverk samfélagsins. Það er auðvitað ómögulegt að segja hver áhrifin af fjórðu iðnbyltingunni verða og hvort þau verða jafn öfgafengin og fyrrnefnd áhrif seinni iðnbyltingarinnar, en ljóst er að það munu þó verða allmikil áhrif. En við munum þurfa að kljást við þessar breytingar og við verðum að undirbúa okkur fyrir þær, hverjar svo sem þær verða.

Umræðan um fjórðu iðnbyltinguna er á suma vegu ný hér á Íslandi –við höfum ekki rætt þessi mál mikið undanfarin ár – en nú undanfarið hefur verið breyting á, því lífleg umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarna daga, aðallega þá um skýrslu sem forsætisráðherra Íslands lét setja saman (#). Það er vel, því það er mikil þörf á að ræða hvernig íslenskt samfélag ætlar sér að nýta þessa tækni sér til framdráttar. Enda, ef af verður, eru mikil tækifæri í þessari nýju tækni fyrir okkar samfélag til að umbylta hér vinnumarkaðnum, og þá einkum hvernig gæðunum sem á vinnumarkaðnum skapast er útdeilt. Einnig eru mikil tækifæri til að hugsa um annars konar gæði sem geta orðið af þessari þróun, gæði sem eru ekki efnisleg (hlutir og peningar), heldur félagslegum gæðum. Ekki er vanþörf á.

Hvað er fjórða iðnbyltingin?

Fjórða iðnbyltingin er röð tækninýjunga sem ýmist er komin til sögunnar, er að verða til, eða ætlað er að muni koma til. Þarna undir falla ýmiss konar gervigreind, sjálfstýring kerfa, ný efni, nýjar aðferðir við að tákna og vinna með gögn, hraðvirkari tölvur og nettengingar, geta tölva til að læra (upp að vissu marki) og margt fleira.

Að einhverju leyti erum við nú þegar farin að sjá afleiðingarnar af þessum tækninýjungum í formi sjálfkeyrandi bíla (þótt takmarkaðir séu), þrívíddarprentun, öflugri vélmenna, nanótækni og margs fleira. Möguleikarnir eru æði margir og þeim mun fjölga enn meira eftir því sem líður á. Mögleikarnir gætu stigmagnast eftir því sem fleiri kerfi eru samtengd og geta deilt upplýsingum sín á milli.

Eitt af því sem mikið er spáð í, eru möguleikar til aukinnar sjálfvirkni í atvinnulífinu. Þegar tæki geta orðið deilt upplýsingum, unnið hratt úr upplýsingum, spáð fyrir um atburði, og tæki geta sjálf tekið vissar ákvarðanir, eða jafnvel keyrt á milli staða, þá er hætt við að minni not séu fyrir mannshöndina – vélarnar sjá um verkin fyrir okkur. Hver áhrif þess verða er óljóst, en hætt er við að þau verði mikil.

Hvaða máli skiptir þetta?

Þessar breytingar skipta miklu máli vegna þess að þær geta raskað skipulagi vinnumarkaðarins, og geta leitt af sér nýjar kröfur til fyrirtækja og vinnandi fólks. Í Bretlandi, sem dæmi, er það mat endurskoðunarskrifstofunnar pwc að allt að 30% starfa muni víkja fyrir sjálfvirkni fyrir árið 2035, og að um 44% þeirra sem búi við litla menntun verði fyrir miklum áhrifum vegna aukinnar sjálfvirkni (#). Jafnvel þótt áhrifin verði bara helmingurinn af því sem spáð er, þá er það svo mikið að bregðast þarf við með undirbúningi.

Í skýrslunni sem forsætisráðherrann lét gera er metið hver áhrifin verða á Íslandi. Hér á Íslandi er talið að meira en helmingur starfa muni verða fyrir áhrifum af sjálfvirknivæðingu (breytast mikið, eða jafnvel hverfa), en aðeins 14% starfa muni verða fyrir litlum áhrifum. Þetta er vissulega spá, en þetta eru háar tölur og því full ástæða til að velta fyrir sér hvað skuli gera. Á myndinni má sjá hver áhrifin geta orðið á vinnumarkaðinn í heild sinni, eins og hann lítur út í dag. Myndin er fengin úr skýrslunni, bls. 31.

En áhrifin gætu orðið flóknari en þessi mynd gæti gefið tilefni til, vegna þess að áhrifin af sjálfvirknivæðingunni gætu orðið ólík eftir störfum: Talið er að störf í framleiðslu gætu orðið fyrir mestum áhrifum (57% gætu breyst mikið, eða horfið), því næst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (60%), smáverslun (27%), rekstri gististaða og veitingarekstri (61%), landbúnaði (73%) – og svo framvegis (sjá bls. 33 í skýrslunni). Þessi listi er eftir stærð viðkomandi starfsgreina í hagkerfinu. Mörg störf eru líkleg til að breytast verulega.

Áhrifin verða líka mismunandi eftir menntun og kyni. Eins sjá má af myndinni, sem einnig er úr skýrslunni góðu (bls. 35), þá munu áhrifin af sjálfvirknivæðingunni verða mest á þá hópa sem búa við grunnmenntun, næstmest á þá sem búa við starfs- og framhaldsmenntun, en minnst á þá sem hafa háskólamenntun. Áhrifin verða líka meiri á karla en konur. Hafa verður í huga að laun fylgjast að með menntun, og þannig eru líkur á að áhrifin verði meiri á störf sem borga lægri laun.

Í skýrslunni er einnig fjallað um áhrif á fólk eftir aldri, en áhrifin eru talin munu verða mest á yngsta aldurshópinn (15-24 ára), en minni á þá sem eru eldri (25-54 ára annars vegar og 55-74 ára hins vegar).

Í stuttu máli: Áhrifin verða aðeins meiri á karla en konur, mun meiri á þá sem búa við grunnmenntun en háskólamenntun, og mun meiri á yngstu kynslóðina. Áhrifin munu geta falist í því að störf hverfi, og alls óljóst hvers konar störf koma í staðinn, ef þá einhver koma í staðinn í öllum tilvikum. Áhrifin geta líka orðið til að auka misskiptingu í samfélaginu enn frekar, því verr launuð störf kunna frekar að hverfa en betur launuð, auk þess sem áhrifin verða frekar á yngsta aldurshópinn sem allajafna er að byggja upp sitt líf til frambúðar og á minni auð.

Þetta er ástæðan fyrir því að margir hafa orðið hugsi yfir þessum breytingum undanfarin ár, einkum erlendis. Ljóst er að bregðast þarf við, svo ekki verði skortur á störfum (sem er okkar helsta leið til að dreifa auði), ekki verði skortur á hæfu starfsfólki til að vinna þau störf sem skapast (en í skýrslunni er bent á að svo gæti orðið á Íslandi), og almennt verði stöðugleiki raunin í gegnum þessar umbreytingar, fremur en óstöðugleiki og vandamál – í þessu samhengi má vel minna á hve erfiðar breytingar íslenskt samfélag gekk í gegnum í seinni iðnbyltingunni. Til að stöðugleiki og jöfnuður verði raunin, þá þarf ríkið að leika mikilvægt hlutverk í þessum breytingum.

Hvernig við eigum að bregðast við?

Í öllu falli er ljóst að við verðum að gera eitthvað, fremur en ekkert. Þetta kann að virðast vanmæli, en á Íslandi er ríkjandi hugmyndafræði og ládeyða sem leiðir af sér aðgerðarleysi og skeytingarleysi – ef við förum leið aðgerðarleysisins, og látum “markaðinn ráða”, eins og er í tísku nú um stundir, þá verður ójöfnuður og atvinnuleysi vissra hópa raunin (einkum meðal yngstu hópanna og þeirra sem hafa minni menntun). Þetta kann að virðast augljóst, en það er það ekki í ljósi þeirra hugmynda sem eru ríkjandi í íslensku samfélagi í dag. Við verðum að bregðast skynsamlega við.

Ég hef í fjölmörgum öðrum pistlum rætt um vinnustundir á Íslandi, áhrif þeirra og til hvaða aðgerða við eigum að grípa til að fækka vinnustundum í samfélaginu sem við búum í (#, #, #, #). Ég tel að í ljósi þess að nú sé í augsýn tækni sem getur aukið sjálfvirkni mjög mikið, þá ættum við að beina athygli okkar að nýtingu sjálfvirknivæðingarinnar í þágu þess að fækka vinnustundum, á meðan við einnig bætum menntakerfið okkar til að mennta fólk til að fylla þau störf sem myndast, en jafnframt að við hugum að því að nýta ríkisvaldið meira til að auka jöfnuð í gegnum skattkerfið.

Ég vil hér eingöngu beina sjónum mínum að vinnu og vinnustundum, en síður menntakerfinu, enda tel ég að annað fólk sé færara til að leggja fram hugmyndir um hvernig þarf að breyta menntakerfinu til að takast á við þessar breytingar. Auk þess, þá tel ég að tækifærin séu einna mest fólgin í fækkun vinnustunda hér á Íslandi.

Aukin sjálfvirkni ætti vel að geta fækkað vinnustundum á Íslandi, en með því getum við aukið félagsgæði í okkar samfélagi – notið meiri frítíma með vinum, fjölskyldu og til áhugamála. Til að þetta geti orðið raunin, þá ættum við að grípa til nokkurra aðgerða:

1. Stofna samvinnuvettvang stéttarfélaga, Alþingis og ráðuneyta, og hagsmunafélaga atvinnurekenda, auk félagasamtaka sem hafa á dagskránni breytingu vinnumarkaðarins. Markmið þessa samvinnuvettvangs væri að vinna að endurbótum á vinnumarkaðnum til að tryggja að sjálfvirknivæðingin nýtist sem best, tryggja upplýsingaflæði, og vinna að löggjöf sem gagnast öllum aðilum vinnumarkaðarins og almenningi. Höfuðmarkmið þessa samvinnuvettvangs væri að tryggja atvinnu, tryggja að skipting gæðanna eflist þrátt fyrir sjálfvirknivæðinguna, og beinlínis ýta undir aukna framleiðni á Íslandi. Jafnframt væri unnið að því að nýta hina auknu framleiðni til að gera fólki kleift að vinna færri vinnustundir með markvissum aðgerðum.

2. Samþykkja strax frumvarp um 35 stunda vinnuviku sem liggur fyrir á Alþingi (#), en markmiðið með samþykkinu er að fá vinnumarkaðinn til að aðlagast strax færri vinnustundum, jafnvel þótt vinnustundunum á öllum vinnustöðum muni ekki fækka strax. Vinnumarkaðurinn mun á næstu árum og áratugum þurfa að aðlagast breytingum sem þessum hvort eð er, og raunar margs konar öðrum breytingum líka – þannig að það er skynsamlegt að undirbúa sig fyrir þessar breytingar sem fyrst. Auk þessa, þá myndi samþykki frumvarpsins ýta undir að fyrirtæki nýti sér hina nýju tækni – tækni sem meðal annars er farin að birtast í sjálfsafgreiðslu hérlendis.

3. Fjölga frídögum sjálfkrafa eftir því sem framleiðni eykst, t.d. ef framleiðni eykst um hálft prósent yfir visst tímabil, þá fjölgi frídögum um einn fyrir þetta tímabil. Heppilegast væri að bæta við frídögum þannig að þeir kæmu niður á föstudögum. Þetta mætti tryggja með lögum, svo sem með því að breyta lögum um 40 stunda vinnuviku (#).

4. Tryggja rétt fólks til að velja sér starfshlutfall. Sem stendur er réttur fólks á Íslandi til hlutastarfs heldur takmarkaður, og raunar mjög undir atvinnurekandanum kominn – þannig var það t.d. löglegt þegar visst fyrirtæki hérlendis sagði upp starfsmönnum sínum sem unnu hlutastarf, jafnvel þótt sérstakur samningur væri í gildi sem hefði átt að verja þessa starfsmenn (#). Úr þessu þarf að bæta, þannig að fólk hafi lögbundinn rétt til að velja sér starfshlutfall og að erfitt sé fyrir atvinnurekendur að neita fólki um starfshlutfall að sínu vali, auk þess sem erfitt sé að segja fólki upp sérstaklega sem vinnur hlutastarf. Sérstök réttindi í þágu fólks sem vinnur hlutastarf eru t.d. bundin í lög í Hollandi og í Þýskalandi, en að vísu með meiri takmörkunum í seinna landinu.

5. Hætta nú þegar við hækkun eftirlaunaaldurs, og heldur miða við að nýta hina aukna framleiðni til að lækka eftirlaunaaldur, auk þess að veita eldra fólki lögbundið svigrúm til að fækka vinnustundum. Einnig væri heppilegt að innleiða kerfi þar sem yngra fólk leysir það eldra af hólmi, hægt og rólega, yfir visst tímabil, að hollenskri fyrirmynd.

6. Endurskoða skattkerfið til lengri tíma, til að tryggja að aukin framleiðni, og þar af leiðandi aukinn hagnaður vissra gerða atvinnustarfsemi, skili sér til samfélagsins í heild sinni, en ekki eingöngu fámenns hóps fyrirtækja eða einstaklinga. Skattlagninguna mætti t.d. nýta til að styrkja innviði landsins til lengri tíma, auka þjónustu hins opinbera, efla styrkjakerfi hins opinbera, efla söfn og almannarými, og til að stuðla að auknum jöfnuði tekna og eigna meðal borgaranna.

Saman myndu þessar aðgerðir styrkja vinnumarkaðinn, draga úr líkunum á atvinnuleysi og því að sumir vinni mikið á meðan sumir vinna lítið eða ekkert, auk þess að tryggja að vinnustundum fækki. Ekkert af þessu er óvinnandi vegur, en það þarf að bregðast við fyrr en síðar. Vegna þess að um er að ræða breytingar sem snerta svo mörg svið atvinnulífsins – og raunar mannlífsins –, og vegna þess að um er að ræða breytingar sem munu hefja innreið sína á næstu árum, þá er nauðsynlegt að við grípum til aðgerða sem allra fyrst.

Framtíðin er núna – grípum tækifærið

Tíminn líður. Þegar næsta kynslóð nýfæddra barna verður komin í grunnskóla verður sjálfvirknivæðingin byrjuð að hafa áhrif á daglegt líf okkar enn meira en nú er. Þess vegna þarf að byrja strax að huga að aðgerðum. Það er ekki nóg að skrifa skýrslu, eða fá skrifaða skýrslu, það þarf líka að efna til samstarfs um framkvæmdir, og hefja aðgerðir, en þar ætti ríkið að vera í forystu, enda er ríkið sameiginlegur vettvangur okkar allra. Stéttarfélögin ættu líka að láta í sér heyra, enda hafa þau mikilla hagsmuna að gæta í þágu sinna umbjóðenda. Stéttarfélögin ættu að hafa fólk á sínum snærum sem útbýr aðgerðaáætlanir um sjálfvirknivæðingu.

Framtíðin er svo að segja núna. Við verðum að grípa tækifærið sem í aukinni sjálfvirkni felst til að vinna minna, svo við getum notið fleiri frístunda, svo við getum sinnt sjálfum okkur betur og til að tryggja að vinnumarkaðurinn gegni áfram sínu hlutverki án skakkafalla. Það er til mikils að vinna fyrir framtíð okkar samfélags. Við erum í oddastöðu sem sveigjanlegt og framsækið samfélag – við þurfum bara að nýta okkur möguleikana.

***

Mynd: Vélmenni möndlar með glervarning, fengin héðan.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu