Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hin hreina orka og hreina ál

Hin hreina orka og hreina ál

Stjórnarþingmenn og ráðherrar okkar halda því að okkur að Íslandi beri siðferðileg skylda til þess að framleiða eins mikið af hreinni orku og mögulegt sé. Þessu er haldið að okkur á sama tíma sem fyrir liggur að t.d. Bandaríkjamenn urða árlega bjórdósum sem samsvarar því magni af áli sem þyrfti til þess að endurnýja allan flugflota Bandaríkjanna fjórum sinnum.

 

Ef Bandaríkjamenn myndu endurvinna álið sem er í bjórdósunum, sparaði það orku sem samsvarar allri orkuframleiðslu Íslendinga. Það segir okkur að öll orkuframleiðsla Íslendinga sem fer til álveranna og reyndar helmingi meira en það, endar á ruslahaugum Bandaríkjanna. Jú það er rétt ál er oft kallað rafmagn í föstu formi, því rafmagn er svo stór þáttur í framleiðslu áls.

 

Þetta er kallað hrein orkuframleiðsla og hrein málmur í kynningarefni álveranna þessa daga og íslenskir ráðherrar taka undir.

 

Lítum á annað dæmi. Evrópubúum hefur með takmörkuðum árangri verið bent á að þeir gætu sparað umtalsvert meiri orku en fjölgun íbúa og aukin tæknivæðing framkallar á hverju ári með því að slökkva hreinlega á tækjabúnaði sínum eins og t.d. sjónvörpum sínum í stað þess að „svæfa“ raftækin með fjarstýringunni. Með fjarstýringunni eru tækin sett í biðstöðu, einungis slökkt á hluta þeirra (skjánum) þar til þau eru endurræst með fjarstýringunni.

 

Ef við viljum gera okkur grein fyrir hvaða orkutölur er verið að tala um þá jafngildir öll orkuframleiðsla Íslands í dag orkunotkun „svæfðra“ raftækja Bandaríkjamanna. Það er á meðan ekki er verið að nota þau. Það er verið að henda þessari orku.

 

Evrópubúar eru um 750 millj. en Bandaríkjamenn um helmingi færri. Ef Evrópubúar myndi slökkva á tækjum sínum í stað þess að láta duga að setja þau í biðstöðu með fjarstýringunni þá myndi sparast orka sem samsvaraði allri þeirri raforku sem Íslandi gæti mögulega framleitt með því að virkja hvert einasta vatnsfall og öll háhitasvæði landsins.

 

Fyrir stuttu var fundaði forsætisráðherra Íslands með kollega sínum frá Bretlandi. Í fréttum breskra fjölmiðla kom fram að þeir hefði rætt um að Ísland yrði varaaflsstöð fyrir Evrópu.

 

Ef við tökum saman þær tvær stærðir, sem um er fjallað hér ofar, þá er ekki ólíklegt að Evrópubúar hendi jafnmiklu af bjórdósum sínum og Bandríkjamenn og tækjanotkun þeirra sé svipuð. Við erum að ræða um ál sem myndi duga fyrir alla flugframleiðslu í heimi.

 

Það liggur þannig fyrir að þó við myndum slökkva á allri stóriðju hér á landi og virkja allt sem hönd á festir hér á landi, jarðvarma, vatnsföll, vindinn og sjávarföllin. Þá myndi það ekki duga til þess að framleiða þá orku sem fer á öskuhauga Evrópu og Bandaríkjanna í formi notaðra bjórdósa ásamt því sem fer í að halda sjónvörpum þeirra tilbúnum svo hægt sé að fá mynd á skjáinn nokkrum sekúndum fyrr en ef slökkt hefði verið á tækjunum.

 

Ágæti lesandi þá eigum við eftir að tala um þá orku sem færi í að framleiða nýtt ál í stað þess sem urðað er á hverjum degi. Og risanámurnar þar sem álbáxíðið er sótt. Með öðrum orðum að í dag endar 80% af orkuframleiðslu Íslendinga á öskuhaugum nágrannalanda okkar.

 

Náttúruperlur landsins draga hingað ferðamenn sem skapa gjaldeyristekjur sem samsvara samanlögðum tekjum okkar af stóriðjunni og sjávarútveginum. Ferðaþjónustan hefur á undanförnum árum skapað 8.000 ný störf og verið meginundirstaða fjárfestinga í landinu.

 

Við hljótum að spyrja ef franskt iðnaðarfyrirtæki tekur það upp hjá sjálfu sér að hætta við verksmiðju norður við Húsavík vegna mengunar. Hvað með Íslendinga sjálfa?

 

Af hverju hamast stjórnmálamenn við að draga mengunarvalda til lands sem hingað til hefur þótt vera það hreint á heimsvísu að hingað sæki ein milljón ferðamanna til þess að skoða hið hreina Ísland. Land með viðkvæmt norðurhjara vistkerfi, hreint loft og vatn.

 

Þetta er í raun alveg furðulegt og sérlega í ljósi þess að nýlega er afstaðin heimsráðstefna um loftslagsmál þar sem utanríkisráherra ásamt forsætisráherra lögðu ofuráherslu á að draga úr loftmengun. Reyndar kom fram á loftslagsráðstefnu í Þjóðmenningahúsinu fyrir nokkrum dögum að ræðurnar sem íslensku ráðherrarnir fluttu í París hafi ekki birtar hérlendis og þeir tali allt öðruvísi hér heima.

 

Ég afþakka því hér með boð ráðherra okkar og stjórnarþingmanna um að senda fleiri náttúruperlur á öskuhaugana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni