Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Guð blessi Ísland. Helgin 4. – 6. október 2008.

Guð blessi Ísland. Helgin 4. – 6. október 2008.

 

Í tilefni 1. maí og ekki síður umræðunnar undanfarna daga tók ég saman örfáa punkta úr óbirtu handriti mínu um sögu og þróun verkalýðsfélaganna.

 

Um stefnu „frelsisbyltingarinnar“ sem ræst var þegar ríkisstjórn Davíð Oddssonar mátti m.a. lesa í Morgunblaðinu 16. apríl 2004: „Samstaða hefur myndast um að brýnasta framfaramál Íslendinga er að knýja fram hagræðingu og samlegðaráhrif þjóðinni til heilla. Máttur kapítalismans verður að sönnu seint skilinn til hlítar. Hann getur umbreytt heilu samfélögunum á undraskömmum tíma. Kapítalisminn er fær um að leysa úr læðingi óheftanalegan sköpunarkraft. Naglföst hugmyndakerfi milljónahundraða standast ekki framrás hans.

 

Auðhyggjan á rætur sínar í sammannlegu frumafli sem megnar að umsteypa viðteknum viðmiðum. Og kollsteypa viðmiða er ein mikilvægasta forsenda framfara. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þannig verði byltingar á sviði vísindalegrar þekkingar. Umbreytingarkraftur auðhyggjunnar hefur birst Íslendingum á undanliðnum árum.

Íslenska „frelsisbyltingin“ hefur á skömmum tíma kallað fram ný viðmið og aðrar leikreglur. Nýjar samsteypur fyrirtækja rísa enda „umbreytingarskeið“ hafið í íslensku viðskiptalífi, hagræðingarkrafan hljómar hvar sem komið er; fjölmiðlar flytja endalausar fréttir af peningum og tilfærslu á valdi fjármagnsins. Drifkraftar kapítalismans eru heillandi birtingarmyndir mannlegrar reisnar.“

Sjáið þið ekki veisluna

Íslensk stjórnvöld fengu allnokkrar aðvaranir um að ef þau breyttu ekki um kúrs færi illa. Ríkisstjórnin hafði þá tekið úr sambandi íslenskar eftirlitsstofnanir eftir ósk Viðskiptaráðs þrátt fyrir aðvaranir ráðherra vinaríkja okkar. Samkvæmt frelsisbyltingunni hafði ríkisstjórnin lítið eða jafnvel ekkert hlutverk í hagstjórninni, viðskiptalífið átti að sjá um þann þátt.

Ummæli sem Árni M. Mathiesen þáv. fjármálaráðherra viðhafði á Alþingi þ. 17. mars 2007 hafa gjarnan verið notuð þegar fjallað er um hið mikla andvaraleysi sem einkenndi viðhorf  stjórnvalda gagnvart því hvert stefndi í efnahagsmálum Íslands. „Hér er fólk að tala sem sér bara ekki til sólar, það bara sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu....... Háttvirkur þingmaður sem hér galar fram í tekur meira mark á greiningardeildunum úti í heimi en verkalýðshreyfingunni, það er alveg augljóst, og hún sér ekki til sólar........ Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“

Ríkissjóður axlaði skuldbindingar Glitnis í lok september 2008 við það féll lánshæfismat ríkisins og um leið bankanna með þeim afleiðingum að fjármögnun bankanna varð erfiðari og truflaði starfsemi þeirra. Skömmu eftir yfirtökuna stöðvaði Evrópski seðlabankinn fyrirgreiðslu við Glitni og Landsbanka Íslands. Ástæða þessa var m.a. sú að bankarnir höfðu notað skuldabréf hvor annars til að sækja fjármagn til evrópska seðlabankans. Talið er að þáv. seðlabankastjóra hefðu orðið þarna mjög alvarleg mistök. Aðgerðaleysi bankans gagnvart gjaldeyrisskorti og falli krónunnar rýrði traust á bankanum jafnt innanlands sem utan. Bankastjórn Seðlabankans naut þannig ekki lengur trausts í stjórnmálalífi þjóðarinnar og í fjármálaheiminum. Kröfur um uppsögn seðlabankastjóra tóku að heyrast, traust væri forsenda þess að Seðlabankinn gæti náð fullnægjandi árangri við þessar aðstæður.

Föstudagurinn 3. október.

Tryggvi Þór Herbertsson efnahagsráðgjafi Geirs H. Haarde forsætisráðherra sagði í viðtali við fréttaveitu Reuters 3. október, „að ekki væri unnið sérstaklega að björgun bankanna, enda standi íslensku bankarnir mjög vel. Hins vegar þyrfti að treysta gjaldeyrisstöðuna og markaðinn til þess að liðka fyrir viðskiptum.“ Á sama tíma sagði Tryggvi Þór við Bloomberg, „að ekki stæði til að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.“ Aðrar heimildir sögðu hins vegar að unnið hefði verið að því að ná mjög stórri lántöku fyrir ríkissjóð erlendis. Erindrekar Seðlabankans hefðu fundað beggja vegna Atlantshafsins í lok september í þeim tilgangi.

Þessar fréttir þóttu mótsagnakenndar og forysta aðila vinnumarkaðsins var því strax á varðbergi þegar Tryggvi Þór efnahagsráðgjafi setti sig í samband við framkvæmdastjóra og stjórnarformenn fjögurra stærstu lífeyrisjóða landsins seinni part föstudagsins 3. okt. og fór fram á að þeir mættu samstundis á fund í Stjórnarráðið. Strax eftir fund forsvarsmanna lífeyrissjóðanna með ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra var ákveðið að kalla saman um 200 manns úr forystu samtaka á vinnumarkaði í Karphúsið ásamt framkvæmdastjórum og stjórnarformönnum lífeyrissjóðanna. Á fundinum var samþykkt að verða við beiðni ríkisstjórnarinnar um að kanna til hlítar hvort og þá á hvaða forsendum mætti losa erlendar eignir lífeyrissjóðanna og flytja þær heim.

 

Í minnisblaði sem aðilar vinnumarkaðsins lögðu fram á föstudagskvöldið á fundi með ráðherrum var sett fram það álit að ríkisstjórnin væri ásamt stjórn Seðlabankans komin til enda á leið afskiptaleysis og mistaka. Það sem Ísland þyrfti nú fyrst og fremst væri öguð efnahagsstjórn ríkisfjármála, þetta álit aðila vinnumarkaðsins hefði ítrekað komið fram fyrr á árinu. Þessi afstaða forsvarsmanna lífeyrisjóðanna og aðila vinnumarkaðsins leiddi til harkalegra átaka í upphafi fundarins og greinilegt að ráðherrum fannst fulltrúar atvinnulífsins ganga freklega fram og alltof of langt inn á verkefnasvið ríkisstjórnarinnar.

Laugardagurinn 4. október.

Forsvarsmenn aðila vinnumarkaðsins áttu fund með ríkisstjórninni á laugardagsmorgni þar sem kynnt var niðurstaða vinnufundarins. Lífeyrissjóðirnir áttu um 500 milljarða í erlendum gjaldmiðlum, en helmingur þess fjármagns var fastur í langtímafjárfestingum. Það var sett sem grundvallarskilyrði af hálfu aðila vinnumarkaðsins og forsvarsmanna lífeyrissjóðanna að bankarnir, fjármálastofnanir og fjárfestingarfélög kæmu einnig að málinu og myndu flytja heim a.m.k. jafnmikið fjármagn og lífeyrissjóðirnir.

Þess var krafist að ríkisstjórnin ásamt Seðlabankanum legðu fram ítarlega skýrslu um hvernig ríkisstjórnin myndi ábyrgjast þessa fjármuni og hvernig ætti að verja þeim. Jafnframt var ítrekuð sú krafa frá fundum með ríkisstjórninni fyrr á árinu að teknar yrðu upp viðræður um stöðuna á vinnumarkaðinum og þar sem lögð yrðu upp leiðandi markmið til nokkurra ára. Það stæði ekki til af hálfu aðilavinnumarkaðsins og forsvarsmanna lífeyrissjóðanna að vera þátttakendur í enn einni „skyndireddingunni“. Þessi afstaða virtist koma ráðherrum í opna skjöldu og fundurinn varð þannig ákaflega stuttur.

Það liðu ekki margar klukkustundir þar til ráðherrarnir höfðu skipt um skoðum og boðuðu til fundar kl. 15.00 laugardagseftirmiðdaginn. Skilaboðunum fylgdu tilkynning frá ríkisstjórninni að vinnan að tillögum um lausn vandans yrði að hefja strax því plaggið yrði að vera tilbúið fyrir opnun fjármálamarkaða mánudagsmorguninn 6. okt.

Sunnudagurinn 5. október.

Upp úr hádeginu á sunnudag lágu fyrir útlínur og forsendur samninga milli atvinnulífs og stjórnvalda í kjölfar þess fóru forsvarsmenn lífeyrissjóðanna og aðila vinnumarkaðsins á fund ríkisstjórnar og Seðlabanka.

Í skilaboðum aðila vinnumarkaðsins til ríkisstjórnarinnar kom m.a. fram að það þyrfti að koma fleira til en heimflutningur erlendra eigna lífeyrissjóðanna ef takast ætti að efnahagslífinu á flot. Ef einungis væri farið út í þá aðgerð eina myndi það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir allan almenning í landinu. Ráðandi skammtímahugsun stjórnmálamanna væri þannig fullkomið glapræði og myndi draga niður lífskjör í landinu til langframa. Efnahagsráðgjöfum ríkistjórnarinnar var svara fátt.

Þegar skilaboðunum hafði verið komið á framfæri sat þessi 200 manna hópur úr forystu aðila vinnumarkaðsins í Karphúsinu og beið eftir svörum ríkisstjórnarinnar. Sú bið varð löng og tilgangslaus og ekkert heyrðist frá ríkisstjórninni.

Mánudagurinn 6. október.

Í gögnum sem hafa komið fram þá var á mánudagsmorgun 6. okt. ljóst orðið að ekki yrði hægt að bjarga Landsbankanum og Glitni. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að vinna við neyðarlögin var kynnt á ríkisstjórnarfundi að morgni 6. október sem hófst kl. 8:30.

Í hádegi mánudagsins eiga Davíð Oddsson seðlabankastjóri og Heiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings samtal um lán til Kaupþings. Heiðar Már segir að „Frágangur þessi var allur óvenjulegur þar sem Seðlabanki Íslands millifærði einfaldlega 500 milljónir evra til Kaupþings mánudaginn 6. október eftir samtal um lánveitinguna milli mín og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans. Engin lánaskjöl voru undirrituð og Seðlabankinn gekk ekki frá veðsetningu FIH bankans til sín. Það var svo ekki fyrr en á næstu dögum á eftir að Seðlabankinn fór fram á það við okkur að við gengum frá lánaskjölum og veðsetningu FIH bankans vegna lánveitingarinnar. Það gerðum við stjórnendur Kaupþings að sjálfsögðu eins og um hafði verið rætt en þá var búið að millifæra lánsfjárhæðina í heild sinni til Kaupþings.“

Síðar kom í ljós að verðmæti FIH var fjarri því sem haldið var fram og tæpur helmingur umrædds láns, um 35 milljarðar króna, sé tapaðist. Árni Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, lýsti lánveitingunni þannig í bók sinni um bankahrunið og afleiðingar þess að Seðlabankinn hafi „látið Kaupþing hafa allan gjaldeyrisforðann sem þeir voru með hér heima þannig að það voru engir peningar eftir í Seðlabankanum.“

Hreiðar Már segir : „að stjórnendur Kaupþings hefðu talið að 500 milljón evra lánið frá Seðlabankanum hefði verið nægilega stór fyrirgreiðsla til að gera Kaupþingi kleift að standa að sér ástandið sem geisaði á fjármálamarkaði á þessum tíma. Það sem við vissum ekki þá var að ríkisstjórn Íslands myndi síðar þann dag beita sér fyrir samþykkt neyðarlaga á Alþingi Íslendinga. Neyðarlögin, sem settu innistæðueigendur fram fyrir aðra kröfuhafa, kipptu fótunum endanlega undan rekstri alþjóðlegra banka á Íslandi og eftir að þau voru samþykkt seint um kvöldið er óumdeilt að mínu viti að ekki var lengur raunhæft að reka alþjóðlegan banka, sem sótti fjármögnun sína til alþjóðlegra markaða, frá Íslandi. Ég held að við öll getum verið sammála um að slíkur banki á ekki raunhæfa möguleika.“

Guð blessi Ísland

Hvað varðar hinn stóra fund forystu atvinnulífsins þá gerðist ekkert og engin skilaboð af neinu tagi komu frá ríkisstjórninni. Það var svo kl. 16:00 á mánudag 6. okt. að Geir H. Haarde forsætisráðherra kom fram í Sjónvarpi og ávarpaði þjóðina. Geir sagði í ávarpi m.a. : „Miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur.“ Hann lauk ávarpi sínu með orðunum „Guð blessi Ísland.“ Á sama tíma var lagt fram frumvarp að neyðarlögum á Alþingi, sem meðal annars veitti ríkinu heimild til að taka yfir fjármálastofnanir í vanda. Fjármálaeftirlitið tók yfir Landsbankann, síðan Glitni 7. október og Kaupþing aðfararnótt 9. október.

Það er vart komist hjá því að draga þá ályktun að ríkisstjórnin hafi á föstudag og fram á laugardag staðið í þeirri trú að hægt væri að halda áfram á sömu braut og ná erlendum eignum lífeyrisjóðanna til þess að fá enn eitt „fixið“. Þar má vísa til ummæla Tryggva Þórs efnahagsráðgjafa Geirs H. Haarde forsætisráðherra og þeim ummælum sem fram komu á fundunum. Erlendir seðlabankar voru búnir að loka á Ísland, norrænu þjóðirnar búnar loka lánaleiðum nema þá í gegnum AGS og þegar atvinnulífið og lífeyrissjóðirnir settu niður hælana og sögðu hingað og ekki lengra var spilið endanlega búið. Gauti Eggertsson prófessor í hagfræði við háskóla í Bandaríkjunum hefur bent á að stærsti kostnaðurinn við Hrunið var að Seðlabankinn lánaði bönkunum hundruð milljarða án nokkurra haldbærra veða í hinum svokölluðu ástarbréfaviðskiptum. Það er ekki nokkurt dæmi þekkt í sögu seðlabanka heimsins um viðlíka tap sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Ljóst er að ef aðilar vinnumarkaðsins hefðu farið að óskum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde þá hefðu um 250 milljarðar er eigum sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna farið sömum leið og væru jafnvel inn á aflandsreikningum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu