Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Drengskapur meirihluta fjárlaganefndar

Drengskapur meirihluta fjárlaganefndar

Í Kastljósi og Spegli kvöldsins (12.09.16) komu Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar og Guðlaugur Þór Þórðarson varaformaður og kynntu fyrir okkur nýja skýrslu sem meirihluti fjárlaganefndar samdi. Í skýrslunni eru háfleygar lýsingar á aðdraganda Hrunsins þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri og Geir Haarde forsætisráðherra sköpuðu stórkostleg tækifæri fyrir Steingrím J. og helstu embættismenn íslenska ríkisins til þess að afla íslensku samfélagi hundruð milljarða hagnað.

Þeir sköpuðu þetta m.a. með því að gríðarlega góðu svigrúmi fyrir bankana að flytja inn allt þetta ódýra lánsfé og steypa þjóðinni í stórkostlega skuldir og svo maður tali nú ekki um að skapa tækifæri fyrir  Icesavereikningana . Þessir framámenn íslensks samfélags virtu að vettugi allar aðvaranir frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og ráðherrum helstu nágrannaþjóða okkar.

Þessu glæsilega tækifæri klúðraði Steingrímur J. og ríkisstjórn Jóhönnu S.  algjörlega að mati meirihluta fjárlaganefndar, reyndar með aðstoð mikils meirihluta Alþingis sem samþykkti t.d. aðgerðir í samningum ríkisins og í Icesave-samningum, þar á meðal var nánast gjörvallur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins.

Guðlaugur Þór og Vigdís Hauksdóttir og meirihluti fjárlaganefndar hafa samið lýsingu á því hvernig þessir helstu embættismenn íslenska ríkisins með aðstoð útvalinna lögmanna fylgdu vísvitandi og meðvitað þessari aðgerð sem Steingrímur J. á að hafa skipulagt gegn íslensku samfélagi.

En svo komust Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson í valdastólana og þau ásamt meirihluta fjárlaganefndar björguðu okkur frá öllum þeim skaða sem Steingrímur J. og Jóhanna leiddu yfir íslenska þjóð m.a. með því að handvelja útlendan seðlabankastjóra og skipta út forsvarsmönnum Fjármálaeftirlitsins, allt gjörspillt fólk sé litið til þess sem Vigdís Hauksdóttir lýsti í Kastljósinu í kvöld.

En það var reyndar eftirtektarvert að þau enduðu bæði erindi sín í kvöld með þeim orðum að ítreka að þau væri ekki með neitt skítkast í garð alls þessa fólks, heldur væru þau bara ásamt meirihluta fjárlaganefndar í góðmennsku sinni og drenglyndi einungis að sýna íslendingum hversu dugleg þau væru. Það væri þeirra síðasta tækifæri eins og Vigdís sagði réttilega svona rétt fyrir kosningar.

Í skýrslu RNA kemur hins vegar fram að þegar íslenska bankakerfið hrundi í október 2008 voru sett neyðarlög sem gerðu eignir allra hluthafa í bönkunum að engu og þeir töpuðu þúsundum milljarða króna. Lögin tryggðu hins vegar að allar íslenskar innistæður nytu forgangs og eignir úr þrotabúum bankanna færðar inn í nýju bankanna sem innistæður. Þeir sem höfðu lánað íslensku bönkunum, mest þýskir bankar, töpuðu nokkur þúsund milljörðum króna en áttu möguleika að fá brot af þeirri upphæð til baka þegar þrotabúin yrðu gerð upp.

Á þessum tíma var útilokað að átta sig á hvert virði lána til íslenskra fyrirtækja og heimila sem færðar voru yfir til nýju bankanna væri. Óháðir aðilar voru ráðnir til að meta eignirnar og á grunni þess mats hófust samningar við kröfuhafanna um að taka við eignarhlutum í nýju bönkunum, enda átti ríkið ekki fyrir þeim eignum sem voru færðar með handafli yfir í nýju bankanna. Íslensk fyrirtæki og heimili fengu mörg hundruð milljarða króna niðurfellingu á skuldum sem þau gátu ekki borgað. En þá fyrst gat íslenskt atvinnulífið og heimili hafið endurendurskipulagningu og uppbyggingu á rekstri. Allt er þetta gert í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu