Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Alþingi og lánsveðsmálin

Alþingi og lánsveðsmálin

Það voru margar fjölskyldur sem gripu til þess ráðs fyrir hrun að kaupa íbúð með aðstoð ættingja og vina um lánsveð til þess að eiga fyrir útborgun við kaup á fyrstu íbúð. Þegar ákveðið var að fara 110% skuldaleiðréttingaleiðina árið 2011 voru þau alvarlegu mistök gerð að miða einungis við þau lán sem hvíldu á íbúð viðkomandi, en ekki taka með í útreikningana lán sem voru á lánsveðum. Sú ákvörðun varð til þess að viðkomandi fjölskylda fékk enga leiðréttingu á lánum sínum.

Með lánsveði er átt við að einstaklingur hafi fengið veð að láni, yfirleitt hjá einhverjum nákomnum, vegna kaupa á fasteign. Lánsveðið hvílir þá á íbúð mömmu og pabba, afa og ömmu eða öðrum ættingjum, en afborganir af láninu er hins vegar greitt af þeim sem lánið tók. Þannig að það er þekkt um hvaða lán er að ræða.

Þessi ákvörðun leiddi til að umræddar fjölskyldur hafa verið í stórkostlegum vandræðum. Í þeim tilfellum sem lántakandinn kemst í þrot þá er gengið að íbúð mömmu og pabba eða afa og ömmu. Eitt er að missa sína eigin eign en miklu verra og sárara er að valda öðrum tjóni. Þetta hefur valdið fjölskylduharmleikum og á næsta örugglega eftir að valda fleiri harmleikum.

Þegar fjármálastofnanir tóku að afskrifa lán samkvæmt svokallaðri 110% leið - það er, lækka lánin niður í það að vera 110% af verðmæti eignar, þá tók sú regla ekki til lánsveða. Það var og er hróplegt ranglæti. Eftir mikla baráttu lánsveðseigenda tókst að fá þingheim árið 2012 til þess að taka á málinu og það náðist þverpólitísk sátt um málið, en það tókst ekki að ljúka málinu fyrir þingslit og kosningar. Vitanlega gengu allir útfrá því að þar sem þverpólitískt samkomulag hefði náðst, að málið yrði afgreitt strax fyrstu dögum nýs Alþingis. En það hefur enn ekki gerst.

Í síðustu viku var á Alþingi spurst fyrir um stöðu lánsveðsmálsins, og það sem stendur hér ofar rakið. Spurt var um hvers vegna ekki væri búið að ganga frá þessu og hvað núverandi ríkisstjórn ætlaði að gera. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í svari sínu að allt væri rétt sem fram kæmu í fyrirspurninni. Margir hefðu setið eftir í erfiðri stöðu vegna lánsveða og ekki notið sömu úrræða og aðrir.

Bjarni hélt áfram og sagði að ljóst væri að umrætt samkomulag við lífeyrissjóðina hefði falið í sér að ríkið tæki á sig stærstan hluta kostnaðarins og talaði um óútfylltan tékka í þessu sambandi. Þetta er hreinlega rangt hjá Bjarna. Ég sat fundi þar sem farið var yfir niðurstöðu vinnuhóps fjármálaráðuneytis og Landsambands lífeyrissjóða vegna lánsveða sem urðu útundan þegar reiknuð voru staða skuldugra heimila og lagfæring í gegnum 110% leiðina árið 2011.

Í niðurstöðu vinnuhópsins kom fram að búið væri að taka saman lista um hvaða heimili hefðu ekkert fengið út úr 110% leiðréttingunni sakir þess að hluti lána vegna húsnæðiskaupa viðkomandi fjölskyldu var á lánsveðum. Þau lán höfðu verið tekinn út fyrir sviga í útreikningum sem varð til þess að þessi heimili fengu engar úrbætur. Staða þeirra var og er ákaflega slæm þar sem þau reyndu að halda lánum á lánsveðum í skilum, en réðu af þeim sökum ekki við lánin sem voru á þeirra eigin eign. Niðurstaða vinnunefndarinnar var sú að endurtaka útreikningana sem gerðir voru 2011, en taka þá inn í dæmið öll lán viðkomandi fjölskyldu sem voru sannarlega vegna húsnæðiskaupa og allt sem væri umfram 110% væri fellt niður.

Þegar hér var komið greip Fjármálaeftirlitið inn í vinnu nefndarinnar og benti á að þessi leið væri ólögleg og FME myndi ekki staðfesta þessa niðurstöðu. Það var ekki eins og Bjarni heldur fram að stjórnir lífeyrissjóðanna hefði staðið gegn þessari lausn. Lögmenn allra aðila settust niður og fundu lausn sem stenst lög og Stjórnarskrá, hún var sú að 15% af þessum kostnaði myndi lenda á viðkomandi lífeyrissjóð, þá myndi lánsveðslausnin ekki leiða til skerðingar á réttindum. Þetta veit Bjarni og allir þáverandi þingmenn

FME og fjármálaráðuneytið féllust síðan á þessa niðurstöðu. Þannig fór málið fyrir stjórnir þeirra lífeyrissjóða sem voru með lánsveðslán og málið afgreitt. Þaðan fór málið til Alþingis og þar náðist þverpólitísk sátt um að afgreiða það. Þetta var á lokadögum þingsins og málið frestaðist eins rakið er hér framar. Í dag er ljóst lánsveðhópurinn hefur minnkað minnkað og þá um leið kostnaðurinn við að standa við fyrri loforð, en það eru enn í dag nokkur heimili og fjölskyldur sem eiga við mikinn vanda að stríða vegna þessa óréttlætis.

Bjarni sagðist í ræðu sinni á Alþingi í síðustu viku ekki hafa á móti því að farið yrði í það að skoða stöðu lánsveðshópsins. Hins vegar væri flækjustigið orðið gríðarlegt vegna þess tíma sem liðinn væri. Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá Bjarna, allar stærði eru þekktar og vitað um hvaða lán er að ræða þannig að það er ákaflega einfalt að ljúka málinu.

Í síðustu kosningabaráttu var lofað að setja allt að 300 milljarða í skuldalækkun heimilanna, og minnka skuldir heimilanna þannig um allt að 20%. Það sem fór í „Leiðréttinguna“ var hins vegar einungis 80 milljarðar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram skýrslu á Alþingi um hvert 80 milljarðarnir fóru. Þar stendur að tekjuhæstu 30 prósent landsmanna séu með yfir 64% af öllum íbúðalánum. Þessi hópur fékk 51 milljarð króna af þeim 80 milljörðum sem fóru í „Leiðréttinguna“.

Það er þannig gott svigrúm til þess að taka fram gögn vinnunefndarinnar, þau eru í Fjármálaráðuneytinu, og ljúka lánsveðsmálinu. Sá sem það gerði myndi hafa af því mikinn sóma.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni