Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að sameina kosti Vigdísar og Ólafs Ragnars

Að sameina kosti Vigdísar og Ólafs Ragnars

Síðustu tveir forsetar lýðveldisins hafa haft sína kosti og galla eins og aðrir. Vigdísi Finnbogadóttur tókst vel upp við að laða fram það besta í þjóðinni með sjálfstæði sínu og dugnaði og áherslu á tungumálið, menningararfinn og náttúru. Hún var leiðtogi á sínu sviði, góð fyrirmynd og velgjörðarmaður íslenskra hagsmuna.

Ólafur Ragnar hefur reynst umdeildari í embætti en arfleifð hans verður samt ekki síðri en Vigdísar.  Hans verður minnst fyrir það afrek að brjóta alræði stjórnmálaflokkanna á bak aftur með því að færa almenningi vald til að stöðva Alþingi þegar það fetar of fjarri vilja kjósenda. Það er ekki að ástæðulausu sem forsetaembættið er það embætti sem almenningur treystir einna best af stofnunum ríkisins. Nú segjast 57% bera traust til forsetans en einungis 17% segja það sama um Alþingi. Ólafur kveður Bessastaði með sóma.

Nú er óskandi að fram komi frambjóðandi sem getur sameinað þessa kosti Vigdísar og Ólafs, einhver sem þekkir menningararfinn, er bæði þjóðlegur og viðsýnn en jafnframt óhræddur við að takast á við Alþingi og erlenda andstæðinga íslenskra hagsmuna.

Ég er sannfærður um að Andri Snær Magnason yrði slíkur frambjóðandi. Andri er vinsæll rithöfundur sem hefur verið þýddur á um 35 tungumál og þrívegis hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin. Hann er frumlegur talsmaður nýsköpunar og fjölbreyttrar verðmætasköpunar og hefur verið óhræddur við að takast á við alþjóðleg stórfyrirtæki til að verja íslenskar náttúruperlur og fjárhagslega hagsmuni íslenskra skattgreiðenda. Málflutningur hans hefur að mínum dómi átt stærstan þátt í því að náttúruvernd nýtur orðið almenns stuðnings í samfélaginu, enda hlaut hann viðurkenningu ungra sjálfstæðismanna fyrir nýstárlega nálgun í umræðu um stóriðju og náttúruvernd. Andri hefur að auki staðið utan flokkakerfisins og var byrjaður að tala um mikilvægi synjunarvalds forsetans nokkru áður en Ólafur Ragnar beitti því fyrst árið 2004.

Það fer ekki hver sem er í föt þeirra Ólafs Ragnars og Vigdísar. En ég er sannfærður um Andri Snær Magnason býr yfir hæfileikum og mannkostum sem gera honum það kleift. (En svo það fari samt ekki á milli mála þá er ég ekki að biðja hann um að klæðast teinóttum og tvíhnepptum jakkafötum eða kóngabláum, ermavíðum 90´s kjól. Ég er að biðja hann um að fara í forsetaframboð).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni