Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Sannleikur Frosta

Það að tónlistarsmekkur tiltekins útvarpsþáttastjórnanda á X977 sé ólíkur annarra, meðal annars margra kvenna og dómnefnd Íslensku tónlistarverðlaunanna, er viðbúið og eðlilegt. Í því samhengi er alveg rétt sem hann bendir á, að kynin eru ólík að mörgu leyti, m.a. þegar kemur að tónlist. Munurinn er þó ekki sá sem hann heldur fram, að karlar séu einfaldlega betri tónlistarmenn vegna þess að þeir séu meira í tónlist (vegna hormóna) eða séu líffræðilega betur gerðir fyrir trommuleik en konur. Munurinn er sá að reynsla þeirra af heiminum er ólík og vegna þess getur það vel verið að þau búi til mismunandi tónlist og hafi mismunandi smekk á tónlist. Þetta hefur sennilega ekki neitt með líffræði eða hormóna að gera heldur hefur samfélag okkar í árþúsundaraðir komið mismunandi fram við kynin, sem við minnumst sérstaklega í dag á alþjóðlega kvennadaginn. Svoleiðis hefur áhrif á háttalag og upplifanir og sá reynsluheimur mótar menninguna og listsköpun.

Frá árdögum mannkyns hafa hugmyndir karlmanna verið álitnar sem norm eða hlutlægar staðreyndir um alla skapaða hluti. Vísindin voru lengst af eingöngu byggðar á normum sprottnum frá sjónarhorni karlsins og enn eru mörg fræðasvið óþarflega karllæg. Kenningar og listgreinar hafa t.d. lengi verið dæmdar út frá sjónarhorni karla og það hafði þær afleiðingar að konur og þeirra sköpun og hugmyndir voru settar til hliðar, dæmdar til að sitja í skugga listanna og vísindanna. Merkilegar vísindakenningar kvenna hafa oft verið yfirséðar og hunsaðar vegna þess að þær voru dæmdar út frá karllægri hugmyndafræði sem fáir efuðust um þangað til að kynjasjónarmið fóru að banka upp á eftir aðra femínísku bylgjuna sem hófst í kringum árið 1960.

Listasagnfræðingurinn Linda Nochlin spurði í grein árið 1971 af hverju svo fáar listakonur teljist til merkra listskapara og svarið sem hún gefur er að listin var dæmd út frá karllægum gildum og fáum konum hlotnaðist möguleikinn á að leggja fyrir sig listsköpun til að byrja með. Þetta á enn við á flestum eða öllum sviðum lista og menningar, því miður.

Það að umræddum þáttastjórnanda finnist lag tónlistarkonunnar Hildar Kristínar Stefánsdóttur vera verra heldur en hin popplögin sem voru tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna er hans huglæga mat og hans huglæga mat er byggt á hans upplifunum. Það getur vel verið að hennar tónlist tali almennt meira til kvenna heldur en karla en það að hann skilji ekki hvers vegna hennar lag var valið popplag ársins gerir þá ákvörðun ekki ranga. Það hversu lélegt eða ágætt honum sjálfum finnst lagið vera er aukaatriði. Það sem er svo ótrúlegt er að hann skuli leyfa sér að draga þá ályktun út frá sínum smekk að hann endurspegli einhvers konar almennan sannleika um Íslensku tónlistarverðlaunin og tónlistarmenninguna okkar, það er PC-væðinguna sem hann nefnir. Að fyrst lagið sé ekki besta lagið í hans huga, þá hljóti það að hafa verið valið á annarlegum forsendum. Hér gerir hann sig sekan um það sem margir karlar á undan honum hafa gert, að sjá ekki og vera ekki meðvitaður um hvernig hans staða hefur mótað hans upplifanir og hvernig ólík staða annarra mótar þau, þeirra smekk og skoðanir á gerólíkan hátt. Sumir kalla það forréttindablindu þó það orð sé vissulega óþægilega gildishlaðið og kannski frekar til þess fallið að fá fólk til að skammast sín en að hvetja til meðvitundar.

Við konur erum hins vegar vel æfðar í því að vera meðvitaðar um að okkar skoðanir eru ekki sannleikur um neitt, enda sýnir það sig að konum er tamdara að nota orðalag eins og “mér finnst” og “frá mínum bæjardyrum séð”. Þetta er að mörgu leyti góður eiginleiki og vitnar um ígrundun og varkárni í alhæfingum, en getur auðvitað verið dragbítur þegar þeirra skoðanir eru gjaldfelldar af öðrum vegna þess að svo margir fyrirvarar fylgja þeim. Margir karlar eru hinu megin á skalanum og gerast því gjarnan fyrr sekir um svona gjaldfellingu. Þeirra skoðun er ekki, frekar en kvenna, sannleikur um neitt. Þeir mættu í meira mæli vera meðvitaðir um það og nýta fyrirvarana áðurnefndu.

Við erum öll í miklum mæli afleiðingar aðstöðu okkar í heiminum og hvernig menningin mótar okkar líffræðilegu forsendur og því kenna félagsvísindin okkur að það hjálpar að vera meðvituð um hver sú menning og aðstaða sé til að komast nær einhverskonar heildarskilningi.

Mér finnst popplagið hennar Hildar besta popplagið í ár. Ég býst ekki við því að allir séu sammála mér og tel ekki mitt álit vera neinskonar staðreynd um heiminn eða íslenska tónlist almennt, en gladdist þó þegar ég heyrði að svo margir í dómnefndinni höfðu verið á sama máli. Smekkur okkar er eins og önnur skilningarvit félagsmótaður. Meira að segja matarsmekkur okkar er mótaður af umhverfi okkar og getum við vel vanist á að líka vel við mat sem okkur þótti ógeðslegur í upphafi. Þetta á jafn vel við um smekk okkar á tónlist sem og öðrum listgreinum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni