Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að vera eða vera ekki píkan þín

Að vera eða vera ekki píkan þín

Konur hafa löngum þurft að þola að vera minnkaðar niður í einingu líffræði sinnar. Fyrr á tímum voru oft einkenni reiði og vonleysi yfir því að hafa ekki möguleikann á því að nýta hæfileika sína úti í samfélaginu túlkuð sem sjúkdómurinn hystería. Sá var talinn stafa frá leginu og gera konur órökvísar á þann hátt að þær stjórnuðust eingöngu af tilfinningum. Enn má heyra sömu undirliggjandi retórík meðal fólks, að margt í hegðun kvenna sé órökrétt og tilfinningalegt þvaður, en þá gleymist að hugmyndir kynjanna um heiminn mótast af upplifunum. Hugmyndir karla hafa jafnan talist vera normin í hugmyndasögunni og hugmyndir kvenna því séðar sem rangar eða slæmar þegar þeim er líkt við hugmyndir karlsins – en eru kannski bara öðruvísi og byggðar á annarri heimssýn og upplifun, upplýsingum um þann raunveruleika sem mætir konum á hverjum degi.

Enn er nóg að vera “hysterísk” yfir

– launamunur kynjanna minnkar allt of hægt, kynbundið ofbeldi er daglegt brauð, tabúin stjórna umræðu og kynda undir fordómum og konur fá færri tækifæri og möguleika í atvinnulífinu en karlmenn. Og samt er hrópað að við höfum þegar náð jafnrétti!

Það var góð tilfinning að taka sér kvennafrí 24. október kl. 14.38. Sjálf stóð ég á kosningabás í Mjóddinni og fleygði bæklingunum sem ég var að deila út í gólfið og æpti upp yfir mig að nú væri nóg komið og strunsaði í burtu – symbólískt reyndar þar sem ég hef ekki þáð eina einustu krónu fyrir starfið undanfarna mánuði, en þó valdeflandi.

Píratar eru uppteknir af því að lýsa upp öll myrk horn. Í skugganum þrífst spillingin og óréttlætið eins og myglan og því þarf sólarljós upplýsingar, gagnsæis og lýðræðis til að hrekja þær á brott. Við viljum afmá launaleynd og stuðla að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllu starfsfólki aðgengilegar nákvæmar og réttar upplýsingar um launakjör alls starfsfólks. Kjóstu sólarljósið 29. október.

 

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu