Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

​Þess vegna líður okkur svona

Botninum er náð. Íslenskt lýðræði er ónýtt, eyðilagt af fáeinum toppum í ríkisstjórnarflokkunum og þeirri meðvirku og samábyrgu hjörð sem þá umkringir.

Sigurður Ingi er formlega orðinn forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa lýst því yfir úr ræðustóli Alþingis að aflandsviðskipti væru í góðu lagi, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa varið Sigmund Davíð með því að segja að það væri „svo flókið að eiga peninga á Íslandi“ og að „einhvers staðar þyrftu peningar að vera“.

Með þessum gjörningi er búið að troða nýju siðferðisviðmiði ofan í kokið á þjóðinni með valdi og ég hef aldrei skammast mín jafnmikið fyrir að vera Íslendingur.

Meiri reiði en árið 2009

Það sem ég gerir mig reiðari núna en árið 2009 er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að sleppa af hólmi, eftir allt saman, tímabundið; hann er tilbúinn í slaginn í næstu kosningum, þá verður hann búinn að safna kröftum og liði og kemur fílefldur til baka, búinn að fá að hangsa inni á þingi á fullum launum frá okkur í marga mánuði og beita sér sem áframhaldandi formaður Framsóknarflokksins á bakvið tjöldin.

„Ég minni á: Bjarni Ben. hefur ekki beðist afsökunar á neinu í sínum gjörðum heldur ítrekað auðsýnt gríðarlegan hroka í þessu ferli.“

Ég minni á: Enginn í stjórnarliðinu hefur fordæmt hegðun eða gjörðir Sigmundar Davíðs.

Ég minni á: Bjarni Ben. hefur ekki beðist afsökunar á neinu í sínum gjörðum heldur ítrekað auðsýnt gríðarlegan hroka í þessu ferli.

Auðmýkt? Engin. Hvergi. Aldrei.

Ekki hjá neinum af 38 liðsmönnum meirihlutans.

Hvernig gat þetta gerst?

Getur einhver svarað því?

Horfðum við ekki öll á sama Kastljós-þáttinn?

Þetta gat gerst vegna þess að 38 þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru tilbúnir að gera ALLT sem þurfti til að halda völdum.

Ég skil það – upp að vissu marki. Þetta fólk er í stjórnmálum til að hafa áhrif … og þá er sannarlega best að vera í ríkisstjórn. En maður kaupir ekki völd sín svona dýru verði. Til að halda völdum þurftu allir þingmenn og ráðherrar að ganga gegn eigin samvisku og annaðhvort verja Sigmund Davíð eða þegja þunnu hljóði í marga, marga daga og gerast samsekir í þögn sinni.

Eigum við að telja upp brot Sigmundar í þessu máli?

Hann á aflandsfélag með konu sinni, á sama tíma og fjölmargar þjóðir heims ásamt OECD reyna að berjast gegn þessum mjög svo vafasömu viðskiptaháttum, sem almennt eru taldir meiriháttar ógn við efnahag heimsins. Hann skráir ekki félagið í hagsmunaskráningu þingmanna. Hann gerir hentuga eignabreytingu á félaginu, daginn áður en nýjar reglur taka gildi sem hefðu krafið hann skýrt um það. Hann talar upp krónuna og hvetur landsmenn til að treysta henni, en gerir það ekki sjálfur í verki. Hann tekur ákvarðanir sem tengjast föllnu bönkunum sem hafa bein, jákvæð fjárhagsleg áhrif á umrætt félag. Félagið er kröfuhafi í föllnu bankana – um það vissi enginn neitt.

Og rúsínan í pylsuendanum er þessi: Hann lýgur blákalt að blaðamanni þegar hann er spurður út í aflandsfélög og Wintris. Hann lýgur meira að segja á flókinn hátt – segist jamm og jú og líklega, ef hann man rétt, kannski hafa tengst þessu Wintris í gegnum fyrirtæki sem hann vann hjá eða var í stjórn hjá … eða bara í gegnum verkalýðsfélögin. Eða eitthvað.

„Ólafur Ragnar Grímsson sýndi okkur svart á hvítu hversu lífsnauðsynlegt það er að eignast nýja stjórnarskrá.“ 

Botninum er náð. Hvers vegna? Vegna þess að í siðmenntuðum löndum, þar sem sómi er talinn skilyrði í pólitík, væri Sigmundur Davíð alveg horfinn af sviði stjórnmálanna. Hann hefði sagt af sér embætti forsætisráðherra (sómasamlega, með ávarpi), hann hefði sagt af sér sem formaður Framsóknarflokksins, hann hefði sagt af sér þingmennsku og einfaldlega farið af sviðinu með skottið á milli lappanna.

Í siðmenntuðum löndum þar sem lýðræði og sómi er einhvers virði hefðu samflokksmenn hans haft djörfung til að segja sína skoðun, opinberlega, í stað þess að veita honum blessun sína. Það er á þeirra ábyrgð sem Sigmundur Davíð lifir enn góðu lífi innan íslenskra stjórnmála og mun áfram hafa sín áhrif.

Nýja stjórnarskráin verður að ráða úrslitum

Og yfir öllu þessu trónir forseti vor. Ólafur. Á meðan ég fagna brottför Sigmundar (sjáum til hversu varanleg hún verður) er líka brýnt að hafa þetta í huga:

Ólafur Ragnar Grímsson sýndi okkur svart á hvítu hversu lífsnauðsynlegt það er að eignast nýja stjórnarskrá. Það gengur einfaldlega ekki að það sé duttlungum háð hvort forsetinn er beinn þátttakandi í stjórnmálaákvörðunum og hvort hann rekur sína eigin utanríkisstefnu eða ekki.

Ég mun halda áfram að berjast fyrir því að ríkisstjórn Sigurðar Inga verði skammlíf og mæta niður í Austurvöll. Við ráðum alveg við hin „mikilvægu verk“ sem þessi stigamannastjórn er stofnuð utan um, án þess að þurfa á einhverri meintri náðargáfu Bjarna Benediktssonar eða Sigurðar Inga að halda.

Enginn er ómissandi – en það sem er ómissandi er ný stjórnarskrá með skýrum leikreglum fyrir okkur öll og ekki síst fyrir forsetaembættið.

Þess vegna liggur þetta ljóst fyrir: Ég mun kjósa þann til forseta sem setur nýja stjórnarskrá þjóðarinnar í forgang.

Þangað til einfaldlega verðum við að halda áfram að mótmæla, í dag þegar kosið er um vantraustið á Alþingi, á laugardag kl. 14 og áfram, alla daga. Á Austurvelli er venjulegt fólk, alls konar fólk sem einfaldlega getur ekki hugsað sér að spilltir stjórnmálamenn stjórni landinu.

Mótmælum. Tökum með okkur vin eða tvo. Tökum með okkur læti og einurð. Tökum með þetta óþol sem við finnum fyrir í brjóstinu, kraumandi eins og eitur. Annars liggjum við áfram á botninum um ókomna tíð – vitandi það innst inni að það var brotið gegn siðferðiskennd okkar svo um munaði.

Við vitum það nefnilega öll.

Þess vegna líður okkur eins og okkur líður. Þess vegna líður okkur svona.

 

Þessi pistill var fyrst birtur á Stundinni þann 8. apríl 2016.

 

http://stundin.is/pistill/thess-vegna-lidur-okkur-svona/

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni