Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Femínistar hafa rangt fyrir sér og Evrópusambandið er stórhættulegt!

Femínistar hafa rangt fyrir sér og Evrópusambandið er stórhættulegt!

Stuðaði fyrirsögnin þig? Varstu pirraður/pirruð? Ef skoðun ein og sér gerir þig reiða/n ættir þú kannski að endurskoða lífsgildin þín. Sjálfur er ég ekki saklaus þegar kemur að þessu. Hver hefur ekki lent í því að hafa rúllað niður í tímalínuna sína á facebook og allt í einu birtist pistill eða grein þar sem fyrirsögnin er stuðandi eða staðhæfir eitthvað sem þú ert algjörlega ósammála? Vanalega opnar maður greinina til þess eins að gera sig hneykslaðan á skoðunum greinahöfundar og oftar en ekki láta í ljós skoðun sína á kommentakerfinu (ef boðið er upp á það) í upplýsandi og yfirveguðum rökræðum.

Þetta hegðunarmunstur á sér stað alltof oft á veraldarvefnum og hefur undirritaður gerst það mikil kjáni að hafa tekið þátt í tiltekinni hegðun. En hver væru rétt viðbrögð í fullkomnum heimi? Í fullkomnum heimi myndir þú rúlla í gegnum tímalínuna þína og sjá einhvern facebookvin þinn deila grein eða pistli með fyrirsögn (sem í þessum heimi myndi stuða þig) og líta á þetta sem áskorun á þín gildi og þína vitneskju um tiltekið málefni. Það er nefnilega ekki hollt fyrir hug né hjarta að halda það fast í skoðun að ekkert getur haggað við henni.

Ólíkt því sem íbúar veraldarvefsins virðast halda, þá eru rökræður ekki einhverskonar keppni. Þú færð ekki stig eins og í MORFÍS eða þú vinnur hana með því að hækka röddina (caps lock í skriflegu tilviki). Rökræður eru leit að sannleikanum, eða leit að leiðinni að sannleikanum. Til þess að nálgast sannleikann þarf maður bæði að sýna viðmælendanum og rökræðunni þá virðingu að láta rökræðuna ekki fara í algjöra vitleysu. Hluti af þeirri virðingu er að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og skoðunum, jafnvel þótt að þær virðast í fyrstu vera algjörlega út úr þessum heimi.

Þá endurtek ég spurninguna: stuðaði fyrirsögnin þig? Jú, femínistar geta haft rangt fyrir sér (þeir geta haldið því fram að Brendan Rodgers sé að gera góða hluti fyrir Liverpool) og Evrópsambandið gæti mögulega reynst hættulegt að einhverju leyti. Ekki láta hugmyndir eða skoðanir stuða þig, taktu þeim sem áskorunum, hver veit nema einhver af þessum skoðunum láti þig endurskoða gildin þín.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu