Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Langamma mín á Vaðbrekku

Langamma mín á Vaðbrekku

Ég náði ekki að kynnast henni langömmu minni henni Ingibjörgu sem bjó á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal enda var ég bara eins árs þegar hún lést. Ég heyrði bara sögur um hversu mikill kvenskörungur hún var. Eins og margar konur á hennar tíma eignaðist hún allmörg börn og voru það heil tíu stykki sem hún fæddi, klæddi og ól upp. En þá er ekki öll sagan sögð. Þannig var nú ástandið á einum bænum í nágreninu að foreldrarnir þar gátu ekki alið barnið sitt en ástæðuna fyrir því veit ég ekki. En hún Ingibjörg tók að sér eitt barnið þeirra í fóstur, enda gat hún ekki setið hjá aðgerðarlaus. Þau á Vaðbrekku voru ekki rík, ekki heldur fátæk, en þau bættu í barnaskarann því að það var það rétta í stöðunni.

Þessar sögur eru ekki einsdæmi. Ég hef heyrt aðrar sögur hvernig Íslendingar standa saman og sjá til þess að fólk deyji ekki úr sulti. Ég heyrði meðal annars sögu að norðan að þegar fyrirvinnan féll frá á einum bænum tóku nærsveitungar sig til og færðu ekkjunni mat og föt fyrir börnin. Þetta er það Ísland sem ég vil búa í. Þetta verður vonandi framtíðarlandið mitt.

Nú horfum við upp á einn stærsta flóttamannastraum mannkynssögunnar. Menn, konur og börn flýja ómannúðlegt ástand í Sýrlandi. Bara venjulegt fólk eins og þú og ég. Enginn vill vera flóttamaður, við myndum eflaust telja það heimskulegt að sigla á míglekum dalli yfir Miðjarðarhafið en það er það sem þetta fólk þarf að gera til að öðlast betra líf. Líf sem í okkar augum er daglegt brauð. Ég er viss um að ef langamma mín væri á lífi í dag myndi hún örugglega taka flóttamönnum opnum örmum.

Endurvekjum þessa gömlu góðu Íslensku gestrisni. Tökum á móti flóttamönnum. Hjálpum þeim að öðlast friðsælt líf.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni