Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að lesa í hörðum stólum

Að lesa í hörðum stólum

Skyndilega eru allir að tala um heimanám, í kjölfar þessarar ágætu greinar.

Og ég er sammála mörgu í þessari grein – en hvorki hún né umræðan í kjölfar hennar tekur hins vegar á vandanum, enda er niðurstaðan í grófum dráttum ósköp einföld: heimanám er vont. En málið er hins vegar ekki alveg svona einfalt.

Heimanám sem slíkt er ekki endilega vont, heimilin eru ekkert verri staður en hver annar til að sinna námi – og það krefst ekki allt nám þess að kennarinn sé til staðar, stundum getur hreinlega verið truflun að honum. Það sem er vont er þegar það er krafist alltof mikillar vinnu af börnum (sem og fullorðnum) – það býr til leiða og skilar útbrunnum nemendum.

En vandinn er fyrst og fremst kerfislægur og snýr m.a. að aðstöðu og umgjörð; aðstaðan er oftast einhvern veginn svona: 2 x 40 mínútna kennslustund, ein kennslustofa, einn kennari og 20-30 nemendur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum yfir daginn, kennarar fá nýja bekki inn til sín og nemendur nýja kennara - og undir lok dags eru krakkarnir búnir að fá nóg af öllum þessum kennurum og kennararnir örugglega oft líka búnir að fá nóg af öllum þessum nemendum.

Og þessi fornaldarlega umgjörð hentar bara ekkert sérstaklega vel fyrir sumar gerðir náms.  Hörð borð og harðir stólar í 30 manna hópi hentar afleitlega til lesturs og ekkert sérstaklega vel til ritgerðaskrifa. Það mæta nefnilega sjaldnast allir nemendur með fartölvur og afskaplega vafasamt að krefjast þess, þar sem nemendur og foreldrar eru misefnaðir.

Aðstaðan í skólum er heldur oft ekkert glæsileg utan kennslustofunnar. Tölvustofur eru venjulega til staðar en það er venjulega slegist um þær, það komast ekki margir fyrir á bókasafninu og það eru oft skelfilega fáir staðir á göngum og holum til að sitja á, annars staðar en á gólfinu.

Svona er þetta í flestum framhaldsskólum – og var í grunnskólum þegar ég var nemandi þar, ég veit að þetta hefur verið brotið upp sums staðar með góðum árangri – en örugglega ekki alls staðar.

Þessi staðlaði tímarammi er líka oft til óþurftar – ég hef kennt í framhaldsskóla og veit að suma daga væri best fyrir alla að taka hálfan dag frekar en 80 mínútur í verkefni dagsins, í sama rými, en aðra daga væri best að taka kortér saman og leyfa svo öllum að fara og klára sín verkefni þar sem þeim hentar.

Ég man nefnilega ágætlega að þegar ég var í menntaskóla þá fannst mér heimanámið ekki vera kvöð af því það var heimanám – kvöðin var að þurfa að vera svona djöfull lengi í skólanum. Heimanámið, að lesa og skrifa og reikna þar sem mér hentaði, var ekkert svo slæmt sem slíkt – ef maður hefði bara getað farið heim um hádegi til þess að klára það, ekki undir lok eðlilegs vinnudags þegar starfsorkan var löngu búin (og þar að auki kominn tími til að sinna mikilvægari hlutum eins og vídjóglápi, eigin lestri, fótboltasparki og hangsi með vinum).

Þess vegna fannst mér eitt það jákvæðasta við að byrja í háskóla vera hvað viðveran var í raun sáralítil – miðað við grunn- og framhaldsskóla – og þótt það væri miklu meira heimanám var líka miklu meiri tími til að stunda það.

Svo bætist auðvitað við þversögnin sem kveður á um einstaklingsmiðað nám – í 20-30 manna hópum, þar sem kennari hefur aldrei nema fáeinar mínútur á hvern nemanda – það er ósköp einfalt reikningsdæmi með 80 mínútna kennslustundir. Um leið er iðullega gerð krafa á námsmat og einkunnir – og þar verða kennarar að gæta jafnræðis, sem þýðir örugglega stundum að sumir nemendur ná iðullega að klára námsefnið á skólatíma og aðrir ekki.

Ég tek fram að þetta þarf ekki að vera svona, það væri æskilegt að breyta mörgu í skólakerfinu. En það er ekkert sérstaklega frjó nálgun að ákveða bara að sleppa heimanámi, heimanám er bara brot af námi barna og oft birtingarmynd kerfisins sem er til staðar.

Persónulega held ég að hugmyndir um einstaklingsmiðað nám séu frábærar – en það þarf að gjörbylta skólakerfinu til þess að þær gangi almennilega upp. Persónulega held ég að það þurfi að gera tvennt, fyrst og fremst; að breyta hlutverki kennara á þann veg að þeir séu meiri mentorar – kennarar og nemendur eigi að hafa ágætlega þægilegt aðgengi hvor að öðrum á þar tilgreindum starfstíma – en bekkir og kennarar eiga ekki að vera fastir í sama litla rýminu mestallan daginn, eins og raunin er núna. Það er forneskja og hvetur hvorki til sköpunar né náms. Það væri örugglega ágætt að halda einhverjum sameiginlegum tíma, sem getur farið í fyrirlestrarhald (bæði kennara og nemanda), umræður og annað sem hentar vel að gera saman í hóp. En það er svo miklu fleira sem hentar að gera annað hvort í einrúmi eða smærri hópum – en það þarf að skapa umhverfi sem hvetur til þess, ekki umhverfi sem gerir það hreinlega erfitt í framkvæmd.

 

E.S.: Eitt aukaatriði við umræðurnar sem spunnust, sem fór óstjórnlega í taugarnar á mér, var að heimanám væri einhver sérstök kvöð á foreldra. Það fer nefnilega í mínar fínustu þegar nám barna er skoðað út frá hagsmunum fullorðinna – og álagið af heimanámi lendir fyrst og fremst á krökkunum, ekki foreldrunum, þótt þeir séu mögulega stöku sinnum beðnir um aðstoð.

 

Það var vissulega ósjaldan á forsendum jafnræðis til náms – en þótt jafnræði til náms, óháð menntun foreldra, sé göfugt og jákvætt markmið þá er ekkert endilega sniðugt að nota það sem ástæðu fyrir því að foreldrar – og öll sú fjölbreytta þekking sem þeir kunna að búa yfir – komi ekkert að menntun barna þeirra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu