Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Pólitískur rétttrúnaður og rasismi

Pólitískur rétttrúnaður og rasismi

Á Facebook í morgun birti Gunnar Smári Egilsson athyglisverðan samanburð á tölfræði um stöðu blökkumanna í Bandaríkjunum annars vegar og stöðu innflytjenda í Frakklandi hins vegar.

Að hans eigin sögn er þetta áhugavert vegna þess að „við erum vön að meta veika stöðu svartra í Bandaríkjunum út frá aldalangri kerfisbundinni mismunun en erum síðan hvött til þess af umræðunni að meta stöðu múslima í Evrópu út frá eðliskenningum. Veik félagsstaða þeirra á að vera þeim sjálfum að kenna; lífsviðhorfum þeirra eða trú.“

Meðal þess sem kom fram í samantekt Gunnars Smára er að svartir eru um 13% Bandaríkjamanna en 40% af þeim sem sitja í fangelsi en ekki nema 9% frönsku þjóðarinnar eru múslimar en þó eru 70% franskra fanga úr þeirra hópi. Jafnframt eru franskir múslimar ólíklegri til að vera vel menntaðir og vera í vinnu en bæði Frakkar almennt og svartir Bandaríkjamenn.

Án þess að ætla að leggja Gunnari Smára orð í munn, þá reikna ég með að hann sé að reyna að færa rök fyrir því að slæm félagsleg staða þeirra geri þá ginnkeyptari fyrir öfgafullri hugmyndafræði og sé því hluti skýringarinnar á því af hverju ungir menn í Evrópu fremji slík voðaverk sem við höfum orðið vitni að. Það er hins vegar líka rétt, eins og bent var á í athugasemdum, að þetta er nákvæmlega það sem þeir sem gjalda varhug við þeirri innflytjendastefnu sem verið hefur við lýði á Vesturlöndum undanfarna áratugi hafa alltaf sagt, að innflytjendur fremji fleiri glæpi en innfæddir.

En þá vaknar að sjálfsögðu spurningin hvort sökin sé samfélagsleg og kerfislæg eða hvort téðir innflytjendur sé einfaldlega verra fólk og glæpahneigðara en við á Vesturlöndum. Ég reikna fastlega með að viðkomandi hafi verið að gefa hið síðara í skyn, eða í það minnsta að margir sem hafa slíkar skoðanir geri það—að fólk frá öðrum löndum en Evrópu sé einhvern veginn þannig gert að það geti ekki aðlagast okkar samfélagi og því þurfum við að halda því úti.

Ég held að í þessum tveimur staðhæfingum kristallist umræðan um rasisma og „pólitískan rétttrúnað“. Ég trúi fyrri staðhæfingunni. Ég held að innflytjendur séu alveg samskonar fólk og við á Vesturlöndum en einhverjar ytri ástæður valdi því að tölfræðin er eins og hún er—þetta sé samfélagslegt vandamál og félagslegt og hafi ekkert að gera með eðli innflytjenda að gera. Ég treysti mér fyllilega til að færa fyrir þessari skoðun rök og ræða hana málefnalega—en aðalatriðið er að þetta er málefnaleg skoðun.

Það er líka staðreynd—alveg eins og að himininn sé blár—að það er rasismi að trúa seinni staðhæfingunni. Það er það sem orðið rasismi þýðir. Ef einhver trúir því að aukin glæpatíðni ákveðins þjóðfélagshóps sé best skýrð með því að það sé eðli þess hóps að vera glæpahneigður, þá er hann rasisti. Að neita því er að neita að orðið rasisti hafi skýrt afmarkaða merkingu—að það sé bara einhvers konar upphrópun, að það þýði í raun og veru „vondur“, „heimskur“, „ekki viðræðuhæfur“ eða eitthvað af því tagi. En svo er ekki. Rasismi er einfaldlega nafn yfir það að telja að fólk sem á yfirborðinu lítur öðruvísi út hafi aðra og neikvæða eiginleika en sá hópur sem maður tilheyrir sjálfur.

Ég velti þess vegna fyrir mér hvort sé verra fyrir umræðuna, þeir sem nota þetta orð, „rasisti“, eða þeir sem að neita að viðurkenna þessa staðreynd og hrópa „Rétttrúnaður, rétttrúnaður!“ í hvert sinn sem haft er orð á þessu, fremur en að gangast við skoðunum sínum og reyna að færa fyrir þeim rök—því á það skortir oft sárlega.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni