Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Siðferði, lagahyggja og lýðræði

Siðferði, lagahyggja og lýðræði

Það dylst líklega engum sem fylgst hefur með málsvörn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar undanfarnar vikur—og stuðningsmanna þeirra—að það sem kalla mætti „siðferðilega lagahyggju“ er mjög áberandi í þeirra málflutningi. 

Siðferðileg lagahyggja—sem væri raunar ofmælt að kalla fullburða siðfræðikenningu—er sú hugmynd að lög og reglur séu uppspretta siðferðis í mannlegu samfélagi. Sigmundur Davíð hefur til að mynda sagt að hann hafi ekki gert neitt rangt vegna þess hann hafi farið að lögum og greitt alla skatta. Þessi hugmynd kom svo enn skýrar fram í frægu viðtali við Fréttablaðið þar sem hann áréttaði að hann byggði sitt „siðferði á lögum og reglum“. 

Þessari lagahyggju fylgir svo gjarnan siðferðileg afstæðishyggja þegar lögin ná ekki yfir ákveðna hegðun. Dæmigert samtal við lagahyggjumann er því einhvern veginn svona, auðvitað fært í stílinn:

„Ég gerði ekkert rangt, þetta var allt samkvæmt lögum.“
„Það er aukaatriði. Þetta var siðferðilega rangt.“
„Það er þitt álit. Hver getur sagt hvað er rétt og rangt?“

Það er ekki að ástæðulausu að lagahyggjumaðurinn þarf að grípa til afstæðishyggju þegar siðferðileg álitamál sem ekki falla undir gildandi lög og reglur ber á góma, því siðferðilega afstæðishyggja er eina leiðin til réttlæta lagahyggju heimspekilega.

Það er vegna þess að lög eru mannasetningar og áður en lög hafa verið sett sem ná yfir tiltekna hegðun er ekkert sem grundvallar staðhæfingar um hvort hún sé rétt eða röng—og löggjafinn getur valið hvaða leið þá leið sem honum þóknast, því samkvæmt lagahyggju er ekkert rétt eða rangt utan laga. Siðferðið sprettur frá lögunum, ekki öfugt, og utan þeirra getur því ekkert verið rétt né rangt.

Ég held að lesandi sem hefur fylgt mér svona langt hljóti að sjá ýmsa meinbugi á þessari siðfræðikenningu.  

Í fyrsta lagi er mjög vandséð hvernig löggjafinn getur yfirhöfuð starfað ef lagahyggja væri sönn. Hvað ræður því hvernig einstakir þingmenn taka sínar ákvarðanir í þingsal ef þeirra siðferðislega dómgreind getur ekki stýrt þeim í lagasetningu? Það virðist með öðrum orðum bara vera fullkomlega háð geðþótta hvaða lög eru sett ef maður felst á svona sterka lagahyggju. Er það þá bara tilviljun, til dæmis, að morð eru refsiverð? Hefði Alþingi getað ákveðið að morð væru lögleg og þar með siðferðilega rétt? Það virðist að minnsta kosti á yfirborðinu vera fráleitt en leiðir röklega af siðferðilegri lagahyggju.

Í öðru lagi er algjörlega ómögulegt að setja lög um alla mannlega hegðun og verulega óæskilegt. Það er ekki ólöglegt að halda framhjá maka sínum, brjóta loforð eða baktala vini sína. Ég held að allir—jafnvel harðsvírðustu lagahyggjumenn—séu þó sammála um að þetta séu allt dæmi um siðferðilega ámælisverða hegðun. Lagahyggjumaðurinn getur þó ekki útskýrt hvers vegna, því samkvæmt honum eru lögin uppspretta siðferðis. 

Í þriðja lagi yrði lagahyggjumaðurinn að breyta siðferðislegum skoðunum sínum í samræmi við hvar (og hvenær) hann er staddur hverju sinni, því lög eru misjöfn eftir löndum og tímum: þegar hann er í Sádi-Arabíu er siðferðilega rangt fyrir konur að keyra bíl, á Íslandi er það í lagi.

Hann getur heldur ekki útskýrt af hverju kúgun kvenna, þrælahald og jafnvel helförin gegn Gyðingum voru siðferðilega hræðilegir hlutir þegar þeir áttu sér stað: því allt var þetta í samræmi við lög og reglu fyrr á tíð—án þess að ég líki þessum hlutum við það sem ráðamenn á Íslandi í dag hafa gert. Punkturinn er einfaldlega sá að lagahyggja ræður ekki við að útskýra hvers vegna þetta var ekki í lagi.

Ég ætla ekki að segja meira um furðulegar heimspekilegar afleiðingar lagahyggju, því mig grunar að þetta sé nóg.

Mig langar hins vegar að lokum að benda á að skoðanir formanns Sjálfstæðisflokksins á lýðræði virðast vera sprottnar upp úr samskonar lagahyggju og formaður Framsóknarflokksins aðhyllist.

Í viðtali við franskan blaðamann, sem farið hefur víða, virðist hann að minnsta kosti gefa í skyn að lýðræði snúist bara um lagaramma og form, frekar en ábyrgð, traust og umboð frá kjósendum. Lýðræði er hins vegar meira en bara formið sjálft, og það sama gildir um lögmæti ríkisstjórna, sem er ekki síst siðferðileg og heimspekileg spurning, fremur en einungis lagaleg. 





Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni