Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eru skattar ofbeldi?

Eru skattar ofbeldi?

Ég held að Pawel Bartoszek, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar, hafi ekki hugsað sér að orð hans um skatta sem ofbeldi myndu hljóta slíka athygli sem raun ber vitni, enda skoðun sem hugsanlega er algengari meðal frjálshyggjumanna en í samfélaginu almennt—en ég held að ég fari ekki rangt með að í þeirra hópi hafi Pawel fyrst haft afskipti af stjórnmálum, hvaða merkimiða hann svo sem kýs að nota um sjálfan sig í dag.

Í umræðunni sem spannst í kjölfarið vísaði Pawel í gamlan pistil eftir Jón Steinsson, hagfræðing, þar sem hinn síðarnefndi færir rök fyrir þessari orðanotkun. Mig langar að skoða þessa hugmynd stuttlega, enda virðist hún aðallega vera heimspekileg, frekar en hagfræðileg eða beinlínis viðkomandi stjórnmálum.

Í pistlinum segir Jón reyndar ekki berum orðum hvers vegna skattar eru ofbeldi, en það er auðvelt að fylla út í myndina sjálfur til að fá fram rök hans. Þau virðast vera einhvern veginn svona: Að neyða manneskju til að gera eitthvað gegn eigin vilja er ofbeldi, sérstaklega ef um er að ræða líkamlega nauðung, eins og til dæmis fangelsisvist. Fólk greiðir ekki skatta sjálfviljugt og þar af leiðandi eru skattar ofbeldi—skattsvikarar eru jú settir í fangelsi.

Jón flýtir sér reyndar að bæta við að hann telji að skattar séu engu að síður réttlætanlegir: það sé rétt að beita ofbeldi ef önnur, mikilvægari markmið en það að forðast ofbeldi krefjast þess, til dæmis að veita öllum menntun eða heilbrigðisþjónustu. Ég veit ekki hvar Pawel vill draga línuna í þeim efnum, en ég hef enga ástæðu til að halda annað en að hann sé nokkurn veginn sammála Jóni. Kjarni hugmyndarinnar er því að skattar séu nauðsynlegt og réttlætanlegt ofbeldi.

Þessi stutta og einfalda röksemdafærsla Jóns hljómar nokkuð sannfærandi en ég held að hún standist þó ekki nánari skoðun.  

Í fyrsta lagi—og þetta kann að virðast hártogun, en ég held að það sé það ekki—finnst mér ekki augljóst að hótun um valdbeitingu sé í sjálfu sér valdbeiting. Ef maður borgar ekki skatta, segja lögin, þá fer maður í fangelsi, og fangelsi er valdbeiting. En er þessi hótun sjálf valdbeiting? Ég er alls ekki viss. Ef hún er það ekki, er engin mótsögn að segja að skattsvikarar séu beittir ofbeldi en að skattgreiðendur séu það ekki. 

Pawel gæti þá auðvitað svarað því til að þá sé ræningi sem miðar byssu á mann og heimtar veskið hans ekki að beita manninn ofbeldi. Það væri furðuleg niðurstaða, en ég held sem betur fer að hún sé ekki rétt. Þetta væri nefnilega líkara því ef ræninginn segði við manninn, „Ef þú lætur mig ekki fá veskið, þá dreg ég upp byssu og skýt þig“ (lögin eru jú ekki byssa) og þá myndi ég einmitt segja að það væri hótun um valdbeitingu en ekki í sjálfu sér valdbeiting. Kannski er Pawel þó ekki sammála því. 

Í öðru lagi, þá held ég að önnur dýpri hugmynd um eignarrétt liggi þarna að baki, hugmynd sem ég held að höfði til þeirra beggja, Pawels og Jóns, og skýri hvers vegna þeim er þetta orðalag tamt. Þessi hugmynd er hugmyndin um eignarrétt sem náttúrulegan rétt sem er óháður mannlegu samfélagi og stofnunum (en hún er í raun og veru hornsteinn markaðsfrjálshyggju). 

Samkvæmt þessu á maður eitthvað í krafti slíks eignarréttar og það sem maður á má því enginn taka af manni án þess að sá réttur sé brotinn. Það er frelsisskerðing því ríkið beitir mann valdi til að brjóta þennan rétt. Ég held því fram að ef maður hefur þessa hugmynd um eignarrétt, þá sé mun auðveldara að fallast á að skattheimta sé í sjálfu sér ofbeldi. 

Ég fellst ekki á þessa hugmynd. Ég held að þessi hugmynd gangi ekki upp (í stað þess að rökstyðja það, vísa ég í eldri pistil) og að eina leiðin til að gera grein fyrir eignarrétti sé að segja að hann sé hagkvæm venja sem helgast af lögum og öðrum stofnunum mannlegs samfélags.

Ef maður trúir því, þá er ekkert til sem heitir að eiga eitthvað utan samfélags þar sem slík eign er varin í lögum. En skattheimta er einmitt líka lögvarin og þess vegna eru skattar ekki ofbeldi.

Pawel gæti þó samt sagt að þrátt fyrir allt sé um að ræða valdbeitingu, þó að hún feli ekki í sér brot á neinum sérstökum rétti.

En þá þyrfti hann um leið að viðurkenna að eignarrétturinn sjálfur sé samsvarandi ofbeldi, því þjófum er jú líka stungið í fangelsi, rétt eins og skattsvikurum. En ef svo er, þá virðist sú fullyrðing að skattar séu ofbeldi ekki hafa neitt sérstaklega mikið innihald, þegar öllu er á botninn hvolft, og ég efast um að Pawel vilji fallast á það eignamaðurinn sé ofbeldismaður vegna þeirrar hótunar um valdbeitingu sem eign hans byggist á.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu