Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Brynjar og Kári

Undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins hefur ekki farið framhjá neinum á samfélagsmiðlunum og fjölmiðlum í dag.

Einn af þeim sem bregst við átaki Kára er Brynjar Níelsson alþingismaður en af pistli hans um málið á Pressunni má skilja að hann telji hugmyndir Kára ekki beinlínis raunhæfar.

Hann segir réttilega að til þess að Kári fái sínu framgengt þurfi ríkið að leggja til 50 milljarða í heilbrigðiskerfið á hverju ári og einhvers staðar þurfi að finna peningana. Ekki viljum við jú vera lýðskrumarar.

Því næst telur hann upp ýmsa útgjaldaliði sem skera megi niður til að mæta þessum nýja kostnaði: lækka bætur til öryrkja og gamals fólks, minnka stuðning til menningar og lista eða fella niður fæðingarorlof. Annars þurfi að hækka skatta.

Það má vísast skera niður einhvers staðar en það er merkilegt að þetta sé það fyrsta sem Brynjari dettur í hug—ríkissjóður stendur jú fyrir alls konar öðrum útgjöldum, ekki síst til þess föllnum að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Það að velja út þrjá hluti og stilla þeim upp andspænis skattahækkunum eins og ekkert sé annað í boði er kannski ekki lýðskrum en það er að minnsta kosti rökvilla.

Það er samt rétt hjá Brynjari að besta leiðin til að mæta þessum útgjöldum er að auka tekjur ríkissjóðs. „Hækka skatta“ segir hann að vísu, en ekki eru allar tekjur ríkissjóðs skattar (og hér mætti nefna að það er ekki rétt sem Brynjar segir, að Ísland taki „til ríkissjóðs hærra hlutfall af landsframleiðslu í gegnum skattkerfið en nokkur önnur þjóð í hinum vestræna heimi“. Langt í frá, þar er Danmörk á toppnum).

Til dæmis metur Jón Steinsson hagfræðingur það svo að auðlindaarðurinn í sjávarútvegi—þ.e. arður umfram það sem mætti kalla eðlilegan arð af fjárfestingum—sé 40-60 milljarðar króna á ári. Með uppboðsleið á aflaheimildum mætti ná inn þessum tekjum fyrir ríkissjóð og þar með eiganda þessara aflaheimilda.

Svo má nefna skattaundanskot álveranna sem lækka skattstofn sinn um marga milljarða á ári með „hentugum“ lánaendurgreiðslum til móðurfyrirtækja. Þar hefur verið slegið á að finna megi 3-5 milljarða árlega, þó að mér sé ekki kunnugt um að það hafi verið reiknað nákvæmlega. 

Loks hefur hinn sami Jón Steinsson reiknað út að Landsvirkjun gæti hagnast upp undir 42 milljarða árlega með því að selja orku til Bretlands í gegnum sæstreng í stað álvera (en jafnvel þó að við teljum að sú hugmynd sé ekki raunhæf eða ákjósanleg, þá er ljóst að það er svigrúm fyrir hærra orkuverð en álverin greiða).


Þetta eru allt tillögur sem fela í sér auknar tekjur ríkissjóðs án þess að skattar séu hækkaðir (en að loka glufum í skattalögum er ekki það sama og að hækka skatta) og myndu duga vel fyrir þeim útgjöldum sem Kári sér fyrir sér—jafnvel þó að Brynjar sé ekki jafn bjartsýnn á tölurnar og við Jón.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu