Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Pabbar okkar eru EKKI feðraveldið!

Pabbar okkar eru EKKI feðraveldið!

Í mannréttindabaráttu seinustu daga sem snerist um að konur geti valið hvenær líkaminn þeirra er kynfæri og hvenær ekki hefur töluvert borið á öðru hugtaki sem margir virðast ekki skilja: Feðraveldi. Þar hafa flogið setningar eins og að sumu megi fólk ,,troða ofan í feðraveldið á sér“og aðrir bent réttilega á að mannréttindabarátta femínisma sé barátta gegn svokölluðu feðraveldi.


Ansi margir virðast halda að með því hugtaki sé verið að tala um samansafn karlmanna þessa samfélags fyrr og nú og grípa glaðhlakkalega til þess misskilnings sem lengi hefur loðað við þá sem þola ekki mannréttindabaráttu femínisma: að hann snúist um að vera á móti karlmönnum, að upphefja konur á kostnað karla, kenni karlmönnum um allt, að þeir séu sökudólgurinn á öllu og vondi kallinn o.s.frv.  Þetta er auðvitað hið mesta bull eins og margir vita. En við þekkjum líka öll hina klassísku rökvillu um strámanninn þar sem sumir (annað hvort í þrjósku sinni eða vanþekkingu) ríghalda í hugmyndir sem henta um ákveðinn hlut til að geta verið áfram á móti honum. Jafnvel þótt það hafi ekkert með veruleika þess hluts eða hugtaks að gera.  


Auðvitað hafa hugtök oft mismunandi merkingu og einhverjir geta auðvitað ákveðið að feðraveldið sé samansafn allra feðra í heiminum. En ef fjalla á um hugtak sem er notað í ákveðnu samhengi, í ákveðinni mannréttindabaráttu og gagnrýna það getur verið gagnlegt fyrir fólk að skilja hvernig hugtakið ER notað í þeirri umræðu og því samhengi.


Feðraveldi  samanstendur sem sagt ekki af einstaklingum, þótt einstaklingar geti átt hlutdeild í veruleikanum sem feðraveldi er.  Feðraveldi er í raun fyrst og fremst ákveðinn hugmyndaheimur og hugsanagangur sem hefur einkennt ansi mörg samfélög í árþúsundir. Eins og flestir vita hafa hugmyndir fólks áhrif á það samfélag sem þeir búa í eins og fjölmiðla, stjórnvöld, lög, stofnanir o.s.frv. Svo að feðraveldi eru ekki bara hugmyndir í lausu lofti heldur hafa þar ansi mikið vald og stjórna miklu í samfélögum.

Hugtakið vísar sem sagt til þess að það sem tilheyrir staðalímynd karlmannsins (að vera líkamlega sterkur, sýna ekki tilfinningar o.s.frv.) sé betra og eigi að hafa yfirhöndina og meira vægi og gildi í samfélaginu. Þetta er til dæmis ástæðan fyrir því að það sem við tölum um sem hefðbundin kvennastörf (t.d.  umönnun barna, sjúkra, aldraðra o.s.frv. hvort um er að ræða hámenntaða fræðinga á því sviði eins og lækna eða hjúkrunarfræðinga  eða aðra sem hafa minni menntun en viljað helga sig þessu mikilvæga starfi) eru yfirleitt láglaunastörf. 


Eitt besta dæmið um áþreifanleg áhrif feðraveldisins á laun eru hvað kennaralaun virðast hafa lækkað samhliða fjölgun kvenna í stéttinni (en þau voru jafnhá þingmannalaunum fyrir um 50 árum). Hugsanlega erum við komin með góða skýringu á þeirri láglaunastefnu sem ríkir á atvinnumarkaði? Er læknastétin hugsanlega að gjalda fyrir slíkt í dag? Lausnin er auðvitað ekki sú að konur hætti að mennta sig, heldur að það sem tilheyrir staðalímynd konunnar (að vilja láta sig aðra varða, sýna samkennd o.fl) sé metið til jafns á við það sem tilheyrir staðalímynd karlmannsins. Að vinna við umönnunarstörf á ekki að vera skammaryrði  og ávísun á að þá sé fólk bara á lágum launum.


Bæði karlar og konur geta átt hlutdeild í hugmyndakerfinu sem feðraveldið er rétt eins og bæði karlar og konur geta verið femínistar. Barátta femínisma er EKKI barátta á móti karlmönnum en hún er á móti feðraveldinu. Góðar stundir og gleðilega páska.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni