Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kynjakerfið skaðar strákana okkar

Mörgum strákum líður ekki vel. Við heyrum stöðugt um drengi á öllum aldri sem beita ofbeldi, nota fíkniefni, taka líf sitt o.s.frv. Ég verð líka var við það í starfi mínu sem framhaldsskólakennari að strákum líður mörgum hverjum ekki vel í skólanum; allt of margir ráða ekki við að lesa svo mikið sem eina málsgrein, hvað þá margar blaðsíður eða bók. Þetta á auðvitað ekki bara við um stráka og alls ekki um þá alla en mig langar að tala um þetta vandamál aðeins hér.

Ég tel ástæðuna fyrir þessari vanlíðan margra drengja vera kynjakerfið sem stundum hefur verið kallað feðraveldið. Það er kerfi sem rígheldur í ákveðnar staðalímyndir um kyn og gegnumsýrir samfélag okkar og hugsunarhátt án þes að við veitum því endilega eftirtekt. Í meistaranámi mínu í sálgæslufræðum las ég bók um stráka og hvernig staðalímyndin um að þeir eigi alltaf að vera sterkir og sýna vald sé að skaða þá mjög mikið. Þeir loka á tilfinningar sínar og þora ekki að vera þeir sjálfir. Það veit aldrei á gott. Innibyrgð reiði brýst oft út sem ofbeldi og skaðar alla.

Margir halda að ástæðan fyrir því að karlmönnum líði illa sé öll þessi áhersla á valdeflingu kenna. Ég tel það vera algjört bull; enda ætti valdefling einhverja sem standa illa ekki að skaða þá sem eru sterkir og standa vel . En karlmenn og strákar standa greinilega margir hverjir ekki vel. Við þurfum að finna leiðir til að hlúa að strákunum okkar ekki síður en stelpunum. Það er jafn mikilvægt að berjast gegn staðalímyndinni um að maður eigi alltaf að vera töffari og sýna vald eins og þeirri sem segir að maður eigi að vera þæg og góð.

Strákar verða líka fyrir ofbeldi, þeir eru líka viðkvæmir og alls konar eins og stelpurnar. Sem móðir tveggja drengja sem eru eins og svart og hvítt hvað ýmislegt svona varðar er þetta mjög mikilvægt fyrir mig. Ég man hvað nemendur mínir voru hissa þegar ég talaði um hvað mér fyndist tónlistarmyndbönd með glennulegum smástelpum vera skaðlegar fyrir stráka. Ég vildi ekki að mínir drengir ælust upp við að þeir væru ekki almennilegir töffarar nema þeir líti niður á stelpur. Þau höfðu ekki pælt í þessu sjónarhorni áður.

Sem betur fer er virk barátta í gangi gegn þessu kynjakerfi í formi femínisma. Margir halda hins vegar að sú barátta sé eingöngu fyrir konur og að markmiðið sé að gera þær sterkari en karla og helst berja þá niður. Það finnst mér sorglegur misskilningur. Það er eins og að halda fram að barátta fyrir mannréttindum svartra hafi það markmið að troða niður hvíta; eða að barátta fyrir mannréttindum fatlaðra hafi það að markmiði að koma öllum í hjólastól. Ekki snýst barátta mannréttinda samkynhneigðra um að gera alla að hommum og lesbíum eða að niðurlægja ástir gagnkynhneigðra er það?!

Strákar verða fyrir fordómum. Strákar eru  margir hverjir í vörn. Þeir verða fyrir ofbeldi og ójafnrétti á annan hátt en stúlkur. Við þurfum held ég að tala meira um það og nýta kraftinn í baráttunni gegn kynjakerfinu. Gegn feðraveldinu sem heldur okkur öllum í heljargreipum ennþá því miður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni