Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að byggja til framtíðar

Áfram streyma ferðamenn til Íslands í löngum bunum, litlar hvítar rútur þeysast um æðakerfi landsins sneisafullar af fólki í ævintýraleit. Óhætt er að fullyrða að ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega hèrlendis og er ferðamannaiðnaðurinn orðinn okkar stærsta atvinnugrein.

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að einhvers staðar þurfa ferðamenn að halla höfði eftir ævintýraferðirnar. Undanfarið hafa gistiheimili og hótel sprottið upp eins og gorkúlur hér og þar um landið og oftar en ekki er litið á framkvæmdirnar og dæst: á að byggja enn eitt hótelið? Margir virðast hræðast þá miklu uppbyggingu sem hér á sér stað og spá því að þetta „góðæri“ muni, líkt og áður, springa í andlitið á okkur eins og gölluð tívolíbomba.

Ef svo skyldi verða að ferðamannastraumurinn myndi skyndilega stoppa sætum við uppi með urmul af mannlausum hótelum og gistiheimilum. Hús eru nefnilega ekki bara hús. Áætlað notkunarsvið mannvirkja ræðst að stórum hluta hvernig húsið er hannað (t.d. burðarvirki, innra skipulag, tæknikerfi o.fl.).   

Allur er varinn góður, í þessu eins og öðru. Í langflestum tilfellum eru byggingar reistar með það að leiðarljósi að þær muni standa áratugum saman. Hugmynd mín er sú að þegar hanna á hótel eða gistiheimili væri ráð að huga að þeim möguleika að hægt sé að breyta þeim í íbúðir með tiltölulega auðveldum hætti. Til dæmis væri reynt að koma í veg fyrir að burðarvirki væri stillt upp á þann veg að það skerði möguleika á breytingum á innra skipulagi húsnæðis. Þegar um er að ræða verulegar breytingar á burðarvirki eru þær oft og tíðum flóknar og kostnaðarsamar. Annað sem kemur upp í huga minn er staðsetning og stærð glugga. Ég get til dæmis ekki séð í fljótu bragði hver gæði íbúða væru í Fosshóteli við Höfðatorg ef því yrði breytt í íbúðarhús. Þar eru gluggar litlir og nær allir með jafn langt bil á milli sín. 

Byggingariðnaður mengar og byggingarefni eru flest öll óvistvæn, þó svo að miklar framfarir hafi orðið undanfarin ár í þeim efnum. Því minna sem þarf að breyta, því ódýrara, vistvænna og auðveldara. Byggjum af skynsemi og með forsjálni til þess að fyrirbyggja það sem ekki er fyrir séð. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni