Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þarft að vita eitthvað til að tala um það (netlöggan)

Sem tæknimaður þá finn ég oft til aulahrolls yfir "lausnum" sem ótæknimenntaðir grípa til, vegna þess að ég lofa því að enginn með vit á veftækni hefði lagt þetta til.  Hugverkaiðnaðurinn segist verða af milljarði vegna ólöglegs niðurhals og er því skiljanlegt að ráðherra og þingmenn vilji bregðast við þeirri (einhliða skilgreindri og algerlega ósönnuðu) vá.

Ég velti því fyrir mér hvernig á að útfæra þetta.  Kannski var það á DMCA mátann: að þú værir varinn sem síðustjóri gegn lögsóknum, ef þú myndir sýna slíkan sprettglugga.  Vandinn við það er að flestar skráardeilisíður eru ekki íslenskar, eða ekki vistaðar á Íslandi þannig að það gæti reynst erfitt að láta lögin ná til þeirra sem þeim er beint gegn.  Ég efast samt um að það sé neitt svona skynsamlegt í gangi þar sem vísað er í að fjarskiptafyrirtæki eigi að birta viðvörunina.

Það felur í sér að fjarskiptafyrirtækið sé að skyggnast í hvað notandinn er að skoða.  Það er sum sé í besta falli njósnastarfsemi.  Margar þessar síður nota örugg samskipti milli vafra og netþjóns.  Eiga lögin þá að tilgreina að það megi ekki gera slíkt?  Það er vel að merkja sama tæknilausn á að verja þau samskipti og samskipti sem þú átt við bankann þinn gegn um vefinn.  "Lausn" sem rýfur aðra samskiptaleiðina rýfur hina líka.  Myndu lögin banna notkun auglýsingasíu sem stoppar sprettiglugga?  En stillingu í vafra sem stoppar alla sprettiglugga?

 

Til hugverkaiðnaðarins vil ég beina þessum tilmælum:  Ef ykkur vantar milljarð, hvernig væri þá að bjóða upp á efnið ykkar í gegn um auðvelda leið á sanngjörnu verði?  Ég er nokkuð viss um að það myndi skila meiri árangri heldur en eitthvað sem byrjandi í veftækni gæti sagt þér að myndi aldrei skila neinu.  Tíminn sér til þess að gömul viðskiptamódel verða útdauð og það eina sem við getum treyst er að heimurinn verður öðruvísi á morgun en í gær.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu