Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Maður sem ætlar að vera stærri en lífið!

Alveg síðan ég var heimspekistúdent við HÍ og sat kúrs hjá Arnóri Hannibalssyni um rússenska heimspeki hef ég haft sérstakt dálæti á Fjodor Dostojevskí og þeirri angistarfullu en vonarríku tilivstarheimspeki sem hann reisir veraldir úr í verkum sínum.  Það er eitthvað angurblítt og fagurt í verkum Dostejevskís og aðferð hans við að rannasaka veröldina – að skoða dýpstu hugmyndir og svara knýjandi spurningum um lífið sjálft með því að fabúlera sögur af fólki sem lifir. Ég held að þetta sé vænleg leið til að skilja heiminn betur - að minnsta kosti hef ég lært mjög margt dýrmætt um lífið - ekki bara líf annarra heldur líka mitt eigið - í starfi mínu með fólki með stórar og miklar sögur; flóttafólki og hælisleitendum.

Í öllu sínu höfundarverki er Dostjevskí að velta frelsishugtakinu fyrir sér – hvernig lífi lifir sá sem er frjáls og heill? Og í tilraun til að svara því sagði Dostjevskí sögur af fólki – skáldaðar og sannar í bland. Ég ætla nú ekki að skrifa heimspekilega hugleiðingu um tilvistarspeki Dostjevskís hér og nú en læt duga að rifja upp að hann taldi að fullkomið frelsi væri aðeins mögulegt að öðlast í gegnum stórkostlega þjáningu og fjötra. Að þjást, og það mikið, að vera fjötraður og það kyrfilega, er forsenda þess að skilja og öðlast frelsi og hamingju. Þið sem hafið lesið verk Dostojevskís kannist við þetta stef – saga Raskolnikovs í Glæp og refsingu lýsir einmitt þessu ferli frá þjáningu til hamingju, frá fjötrum til frelsis.

Þetta kann að hljóma einsog bull og þvættingur, kannski sniðugt plott í skáldsögu einsog Glæp og refsingu en ólíklegt eða ómögulegt í lífinu sjálfu. Hvernig getur þjáning verið forsenda hamingju? Hvernig geta fjötrar verið forsenda frelsis?

 Svarið við þeirri spurningu gekk inn í vitalsherbergi til mín á dögunum í kollinum á manni, köllum hann Yousif, sem hafði óskað eftir aðstoð við að leysa úr ákveðnu verkefni. Ég er ekki viss um að leiðsögn mín dugi til þess að leysa málið fyri hann – en það er öruggt mál að Yosif hafði djúp áhrif á mig. Svo djúp að ég sökk á bólakaf í gamlar vangaveltur heimspekistúdentsins um hugmyndir Dostejevskís um frelsið og þjáninguna. 

Sumar manneskjur – raunverulegar manneskjur af holdi og blóði – eru einfaldlega stærri en lífið. Þið skiljið hvað ég á við ef þið lesið aðeins lengra. 

 Yousif er hælisleitandi frá Íran og hefur verið flóttamaður næstum hálfa ævi sína. Ungur að árum tók hann þátt í aktívisma og mótmælum gegn klerkastjórninni í Íran sem varð á endanum til þess að hann varð að flýja land árið 1999. Af ástæðum sem eru flóknar og langt mál að rekja, auk þess sem ég hef ekki leitað heimildar Yousifs til að segja sögu hans, er hann enn á hrakhólum og kom til Íslands um mitt sumar. Hann vonast auðvitað til þess að fá skjól og hæli á Íslandi en hann veit að líkurnar til þess eru afar litlar. 

Heimspekilegi parturinn af samtali okkar Yousif hófst á því að hann bauð mér aðstoð sína ef ég þyrfti á túlki að halda í störfum mínum fyrir Rauða krossinn og óskaði jafnframt eftir starfi sem sjálfboðaliði  við eitthvað sem gæti hentað manni einsog honum – manni sem talar sex tungumál en sér mjög illa. „Það er langtum meira gagn af munninum á mér en augunum,“ sagði Yousif og skellti upp úr.

Tungumálin sem Yousif talar eru farsí, arabíska, þýska, enska, norska og ítalska. Í miðju samtali reyndi einmitt á arabískuna hans þegar arabísk kona bankaði á glugann hjá okkur með smávægilegt erindi sem Yousif hjálpaði mér að leysa úr. Mér fannst þetta áhugaverð samblanda og þegar ég fór að spyrja hann út í hvernig hann hefði lært þessi tungumál spurði hann varfærnislega hvort ég hefði tíma – því þetta væri löng saga? Jú, ég skyldi gefa mér tíma, því einsog þið vitið sum hver hef ég ákafan, næstum sjúklegan, áhuga á fólki og ég vissi að sagan hans Yousif myndi ásækja mig gæfi ég mér ekki tíma til að hlusta. Þess vegna sótti ég kaffibolla og sætabrauð og svo settumst við niður og Yousif sagði frá.

Þetta er einhverskonar þversögn um eilíft augnablik . Gjöf sem endist út lífið. 

Stærsta gjöfin

Það sem snart mig fyrst og fremst við sögu Yousif er afstaða hans sjálfs til sögu sinnar, tilverunnar og þeirrar manneskju sem í honum býr. Hann sagði að það væri óhjákvæmilegt að fjalla svolítið um erfiðleika og manneskjur sem hann hefur átt samskipti við sem voru kannski minni manneskjur en þær gætu verið til að setja sögu sína í samhengi. En annars reyndi hann að læra af fólki sem gerir honum til miska og gleyma því svo fljótt en muna ævinlega  eftir þeim sem gera gott og láta vinarþel alltaf yfirskyggja vondu samskiptin.

Til útskýringar sagði hann mér sögu af Juliu vinkonu sinni á Ítalíu. Þau hittust fyrir tilviljun á lestarstöð þegar Yousif bjó á götunni í  Torrino. Þeim varð vel til vina og Julia bauð honum að búa í ofurlitlu gestahúsi sem stóð á lóðinni hennar á meðan hann kæmi undir sig fótunum.

„Ég gleymi því aldrei“, sagði Yousif, „þegar hún kom gangandi niður stíginn að gestahúsinu daginn sem ég kom og leiddi fjögurra ára dóttur sína, Fransesku. Þegar ég kom út á pallinn framan við húsið ýtti Julia telpunni í átt til mín og sagði – hlauptu nú og heilsaðu Yousif vini okkar.“

Hérna þagnaði Yousif lengi, en hélt svo fram

„Þetta var stærsta gjöf sem ég hef nokkurntíma fengið – að hún skyldi treysta mér nóg til þess að ýta barninu sínu til mín er eitthvað sem ég gleymi aldrei..”

Aftur þagnaði Yousif og dreypti á kaffinu sem hafði kólnaði í bollanum.

“Sjáðu til, þegar maður hefur einu sinni upplifað svona takmarkalaust traust gleymist það aldrei heldur heldur áfram að gleðja mann alla tíð. Þetta er einhverskonar þversögn um eilíft augnablik . Gjöf sem endist út lífið. Og það eru fleiri svona augnablik sem ég hef átt – þökk sé lífinu. Augnablik sem ég hef upplifað innilegt og nærandi traust. Við erum að lifa slíka stund núna. Ég treysti þér fyrir sögunni minni og mér líður vel með að segja þér hana – þú ert að gefa mér augnablik sem ég mun muna“.

Svo hélt hann áfram og sagði mér að hann hefði búið í smáhýsinu í garði Juli í nokkrar vikur þangað til að endingu hann ákvað að fara – þó hann ætti ekki í önnur hús að venda – því maður má ekki misnota traust fólks og verður alltaf að kunna sinn vitjunartíma.

„Það er kúnst að taka við gjöfum lífsins, einsog trausti og gestrisninni sem Julia og Franseska sýndu mér. Maður verður að taka við þeim – en jafnframt gæta þess að taka hvorki of mikið né of lítið. Þess vegna fór ég.“

Og ég hef heitið sálfum mér því að bera ábyrgð á því mannorði sem ég skil eftir mig. Þannig ætla ég mér að vera stærri en lífið .

Það sem við skiljum eftir í heiminum

Hann sagði mér frá fleiri átburðum úr lífi sínu, góðum og slæmum, og sagði mér að það væru augnablik og andrár einsog við vorum að lifa einmitt þá, augnablik einsog þegar Franseska kom hlaupandi niður stíginn í sólinni,  sem  hann safnar saman og geymir sem einskonar lífselexír –  til að dreypa á þegar lífið er erfitt til að koma í veg fyrir að og vonleysi og erfiðleikarnir taki af honum völdin og ákveði hvernig maður hann er eða verður. Þangað sækir hann kraft þegar hann aftur og aftur þarf að hefja nýja  vegferð á nýjum stað frá grunni, einsog á Íslandi í sumar.

„Auðvitað er hlutskipti flóttamannsins oft erfitt, helst vegna þess að því fylgir svo mikill vanmáttur og stjórnleysi, maður ræður svo litlu um líf sitt. En ég hef hugsað mjög mikið um lífið og hvernig maður ég vil vera og hef ákveðið að hvað sem gerist ætla ég alltaf að vera stærri en lífið. Ég  hef einsett mér að láta aðstæður eða gang lífsins ekki þröngva mér til að gera eða vera eitthvað sem ég vil ekki vera eða gera. Ég hef því miður ekki alltaf skilið hvernig ég get gert þetta eða hvers vegna það er mikilvægt – en ég skil það núna. Þess vegna safna ég þessum góðu augnablikum og læt þau minna mig á og halda mér á réttri braut þegar á reynir.”

 

Já, Yousif minnti mig á persónu í lokakaflanum í  bók eftir Dostojevskí og innsiglaði þau likindi þegar hann sagði:

“Sjáðu til, ég hef nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að það skiptir minna máli en maður heldur hverjar aðstæður manns eru í lífinu, það sem skiptir mestu er hvernig maður vinnur úr þeim og horfir á þær. Hvort sem maður er flóttamaður eða fjárfestir, ríkur eða fátækur. Á endanum er það svo að þegar við yfirgefum þennan heim skiljum við öllu það sama eftir okkur – hvað sem líður lífi okkar á meðan það varir. Eftir stendur aðeins mannorð okkar og orðspor sem mun lifa í heiminum löngu eftir að við erum dáin. Og ég hef heitið sálfum mér því að bera ábyrgð á því mannorði sem ég skil eftir mig. Þannig ætla ég mér að vera stærri en lífið .“

Mikið sem ég er fegin að ég gaf mér tíma til að hlusta á sögu Yousifs.

Væri ekki til mikils að vinna ef við myndum öll einsetja okkur að vera stærri en lífið?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni