Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Smáatriði varðandi skattaskjólsfélag forsætisráðherrahjóna

Það má finna athyglisverð smáatriði í tengslum við skattaskjólsfélags forsætisráðherrahjónanna.

Samkvæmt því sem hefur komið fram þá var félagið stofnað árið 2007 og Anna Sigurlaug tekur við því í ársbyrjun 2008.

Samkvæmt því sem forsætisráðherrafrúin sagði í yfirlýsingu á Fésbók hennar þá var Sigmundur Davíð skráður fyrir félaginu ásamt henni vegna mistaka bankans sem héldu að þau væru hjón. Eiginkonan segir svo að árið 2009 hafi hafi fyrirtækið verið fært alfarið yfir á hana.

Það er semsagt í yfir heilt ár sem hún og eiginmaður hennar taka ekki eftir því að þau séu sameigendur að skattaskjólsfélagi sem var stofnað utan um auð hennar þrátt fyrir að forsætisráðherrafrúin taki fram að þau séu samsköttuð samkvæmt sömu yfirlýsingu.

Manni finnst það hið minnsta skrítið.

Það er þó annað smáatriði sem er athyglisvert við þessa misskráningu.

Árið 2009 er árið sem Sigmundur Davíð verður formlega formaður Framsóknarflokksins en það er fyrirgefanlegt í ljósi þess að hann var að gera góða hluti annars staðar svo maður taki nú Frostavörnina fyrir hann. Sama ár er hann kjörinn á þing og byrjar að fara hamförum í stjórnarandstöðu.

Það er því enn skrítnara að skráning hans fyrir félaginu hafi verið færð alfarið yfir á eiginkonuna árið sem Sigmundur færir sig yfir í sviðsljós stjórnmálanna.

Aftur á móti útskýrir eiginkona hans þetta á eftirarandi hátt:

„Þegar við Sigmundur ákváðum að gifta okkur fygldi því að fara yfir ýmis mál, þar á meðal fjárhagsleg. Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009 um leið og við gengum frá því að allt væri í lagi varðandi skiptingu fjármála okkar fyrir brúðkaupið. Félagið var því frá upphafi rétt skráð á Íslandi og hélt utan um séreign mína. Skráningin úti og leiðrétting hennar hafði því engin eiginleg áhrif.“

Það sem manni finnst vera athyglisvert smáatriði við þetta er að brúðkaupið þeirra fer fram þann 10. október 2010 eða vel rúmu ári eftir að þau hjónin breyta eignarhaldinu þegar þau voru saman í óvígðri sambúð.

Nú er ég kannski svona tortrygginn en er ekki eitthvað skrítið við það að erlendur banki telji þau sjálfkrafa vera hjón nær þremur árum fyrir brúðkaupið þegar félagið var stofnað? Er ekki líka eitthvað skrítið við það að þau virðast ekkert taka eftir þessu eignarhaldi fyrr en á árinu sem Sigmundur hellir sér út í stjórnmálin á fullu? Er það ekki líka smáskrítið að hvorugt þeirra hafi tekið eftir þessu eignarhaldi á skjölum hins erlenda banka og hefði það ekki líka átt að sjást á skattframtalinu fyrir árið 2007 þegar það var stofnað í ljósi samsköttunar? Voru þau ekki einfaldlega að taka á því sem gæti komið fram í sviðsljósið og valdið stjórnmálaferli Sigmundar skaða? Ef svo er, leynist þá eitthvað meira?

Maður veltir allavega vöngum yfir þessum spurningum og býst við hinum verstu svörum í ljósi feluleiksins sem hefur átt sér stað öll þessi ár.

Þeim leik er nú formlega lokið þó stjórnarþingmenn og ráðherrar leiki hann enn í meðvirkni sinni.

Sér sjálfum til skammar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni